Réttur til atvinnuleysisbóta

Hér er hægt að fá upplýsingar um rétt til atvinnuleysisbóta:

Launamaður

Launamenn á aldrinum 18 - 70 ára eiga rétt á atvinnuleysisbótum að því tilskildu að þeir hafi áunnið sér tryggingarrétt og uppfylli eftirfarandi skilyrði:

 • séu í virkri atvinnuleit,
 • séu búsettir og staddir hér á landi,
 • hafa heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana,
 • hefur verið launamaður á ávinnslutímabili, 
 • leggur fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda og vottorð frá skóla þegar það á við,
 • hefur verið í atvinnuleit samfellt í þrjá virka daga frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur barst Vinnumálastofnun.

Launamaður er hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Launamaður telst að fullu tryggður eftir að hafa starfað samfellt á síðustu 12 mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnleysisbætur til Vinnumálastofnunar.

Launamaður, sem starfað hefur skemur en 12 mánuði en lengur en 3 mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma.

Dæmi um útreikning bótaréttar:

 • Launamaður sem hefur starfað í 100% starfi í 12 mánuði hefur áunnið sér 100% bótarétt.
 • Launamaður sem hefur starfað í 100% starfi í 6 mánuði hefur áunnið sér 50% bótarétt.
 • Launamaður sem hefur starfað í 75% starfi í 8 mánuði hefur áunnið sér 67% bótarétt.
 • Launamaður sem hefur starfað í 50% starfi í 10 mánuði hefur áunnið sér 50% bótarétt.

Bótaréttur umsækjanda verður aldrei hærri en sem nemur starfshlutfalli á ávinnslutímabili eða því starfshlutfalli sem hann er tilbúinn að ráða sig í. Hafi launamaður ekki verið í sama starfshlutfalli allt ávinnslutímabilið skal miða við meðalstarfshlutfall hans á þeim tíma.

Nám sem launamaður hefur stundað í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur svarar til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi enda hafi hann sannanlega lokið náminu og starfað í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu.

 • Vottorð frá hlutaðeigandi skóla skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem fram kemur að launamaður hafi stundað námið og lokið því.
 • Heimild þessi getur einungis komið til hækkunar á tryggingarhlutfalli launamanns einu sinni á hverju bótatímabili.

Heimilt er að taka tillit til starfs sem unnið er með námi við útreikning á atvinnuleysistryggingu launamanns en þá telst námið ekki til vinnuframlags hans.

Vinnuframlag sjómanna miðast við fjölda lögskráningardaga. Mánaðarvinna sjómanna telst vera 21,67 lögskráningardagar.

Launamaður skal vera fullra 16 ára þegar ávinnslutímabil hefst.

Hafi launamaður einnig verið sjálfstætt starfandi einstaklingur á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur skal taka mið af öllum störfum hans við ákvörðun á atvinnuleysistryggingu hans.

Sjálfstætt starfandi

Sjálfstætt starfandi einstaklingar á aldrinum 18 - 70 ára eiga rétt á atvinnuleysisbótum að því tilskildu að þeir hafi áunnið sér tryggingarrétt og uppfylli eftirfarandi skilyrði:  

 

 • séu í virkri atvinnuleit,
 • séu búsettir og staddir hér á landi,
 • hafa heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana,
 • hefur verið sjálfstætt starfandi einstaklingur á ávinnslutímabili,
 • hefur stöðvað rekstur,
 • leggur fram staðfestingu um stöðvun rekstrar RSK 5.04, vottorð vinnuveitanda og vottorð frá skóla þegar það á við,
 • hefur staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar,
 • hefur verið í atvinnuleit samfellt í þrjá virka daga frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur barst Vinnumálastofnun.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur er hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.

Eigendur að eigin atvinnurekstri sem er sjálfstæður lögaðili  eða hafa ráðandi stöðu vegna stjórnaraðildar  teljast vera launamenn en ávinna sér bótarétt á sama hátt og sjálfstætt starfandi.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst að fullu tryggður eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur.

 • Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem greitt hefur mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald skemur en tólf mánuði en þó lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hann hefur greitt staðgreiðsluskatt.
 • Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur en þá ákvarðast tryggingahlutfall hans af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar.
 • Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur telst ekki tryggður.

Til að reikna út tryggingahlutfall sjálfstætt starfandi einstaklings sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald einu sinni á ári skal finna mánaðarlegar meðaltekjur hins tryggða í formi reiknaðs endurgjalds yfir síðasta tekjuár áður en að hann sækir um atvinnuleysisbætur.

Telst hann að fullu tryggður hafi hann greitt staðgreiðsluskatt af mánaðarlegum meðaltekjum á síðasta tekjuári sem nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra fyrir viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði og tryggingagjald.

Dæmi um útreikning bótaréttar:

 • Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem hefur greitt af sér sem nemur fullri viðmiðunarfjárhæð starfagreinar sinnar í 12 mánuði hefur áunnið sér 100% bótarétt.
 • Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem hefur greitt af sér sem nemur fullri viðmiðunarfjárhæð starfagreinar sinnar í 6 mánuði hefur áunnið sér 50% bótarétt.
 • Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem hefur greitt af sér sem nemur 50% af viðmiðunarfjárhæð starfagreinar sinnar í 12 mánuði hefur áunnið sér 50% bótarétt.
 • Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem hefur greitt af sér 75% af viðmiðunarfjárhæð starfagreinar sinnar í 6 mánuði hefur áunnið sér 50% bótarétt.

Bótaréttur sjálfstætt starfandi einstaklings getur þó aldrei orðið hærra en sem nemur því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig til.

Nám sem sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur stundað í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur svarar til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi enda hafi hann sannanlega lokið náminu og starfað í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu.

 • Vottorð frá hlutaðeigandi skóla skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem fram kemur að sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi stundað námið og lokið því.
 • Heimild þessi getur einungis komið til hækkunar á tryggingarhlutfalli sjálfstætt starfandi einstaklings einu sinni á hverju tímabili skv. 29. gr. 

Heimilt er að taka tillit til starfs sem unnið er með námi við útreikning á atvinnuleysistryggingu sjálfstætt starfandi einstaklings en þá telst námið ekki til vinnuframlags hans.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur skal vera fullra 16 ára þegar ávinnslutímabil hefst. 

Sjá hér hvaða fylgigögn þurfa að fylgja umsókn  

Námsmaður

Námsmenn eru ekki tryggðir samkvæmt lögum um at vinnuleysistryggingar, nema þegar námið er hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðum Vinnumálastofnunar.

Umsækjanda um atvinnuleysisbætur er heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

 • Umsækjandi skal upplýsa Vinnumálastofnun um námið og leggja fram leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Vinnumálastofnun skal meta sérstaklega hvort umsækjandi um atvinnuleysisbætur geti talist tryggður samkvæmt lögum þessum þegar hann hefur stundað nám með starfi sínu sem hann missti og námið er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Umsækjandi um atvinnuleysisbætur sem hefur verið skráður í nám á síðustu námsönn án þess að hafa sannanlega lokið náminu og hyggst halda námi áfram á næstu námsönn telst ekki vera í virkri atvinnuleit í námsleyfi samkvæmt kennslu- og/eða námskrá hlutaðeigandi skóla. Hið sama gildir um námsmenn sem skipta um skóla milli námsanna eða fara milli skólastiga.

Kemur erlendis frá

Kemur úr vinnu - atvinnuleysistrygging frá öðru aðildarríki – U1

Ef þú ætlar í atvinnuleit á Íslandi og að sækja um atvinnuleysisbætur,  þá getur þú fengið vottað að þú hafir verið atvinnuleysistryggður í öðru EES-ríki með U1 vottorði og aukið þannig rétt þinn til atvinnuleysisbóta á Íslandi. Skilyrði er að þú hafir verið launamaður eða sjálfstætt starfandi og greitt hafi verið gjald af launum þínum.

Til þess að Vinnumálastofnun geti reiknað með tryggingar- og starfstímabilum í öðru EES-ríki, verður þú að hafa tímabilin staðfest með U1vottorði. Þú getur sótt um vottorðið hjá Vinnumálastofnun eða Atvinnuleysistryggingasjóði þess ríkis sem þú starfaðir í , en mundu eftir því að þú hefur fyrst not fyrir vottorðið ef þú verður atvinnulaus, eftir að þú hefur verið í starfi og einungis ef þú óskar eftir þvi að dvelja áfram á Íslandi.

Kemur úr námi - atvinnuleysisbætur frá öðru aðildarríki – U2

Ef þú ert námsmaður sem er að koma til Íslands úr námi erlendis, ert atvinnulaus og með rétt til atvinnuleysisbóta í viðkomandi landi innan EES-ríkis. Þá getur þú sótt um að taka með þér U2 vottorð sem veitir þér rétt til þess að halda atvinnuleysisbótum þínum í allt að þrjá mánuði, á meðan þú ert að leita þér að vinnu á Íslandi.

Sjá nánar Atvinnuleysisbætur úr erlendum tryggingakerfum.

 

 
Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu