Starfsorka
Markmið með starfsorku er að:
- Styðja við nýsköpun og þróun í fyrirtækjum.
- Koma á tengslum milli atvinnuleitenda og fyrirtækja.
- Styðja við frumkvöðla með hugmyndir um nýsköpun.
- Styðja við atvinnuleitendur og auðvelda þeim leit að störfum.
Forsendur fyrir þátttöku í starfsorku er að:
- Um starfandi fyrirtæki er að ræða og að velta síðasta árs sé fimm milljónir eða meira. Rannsóknarstyrkir, hlutafé, hlutafjárloforð og verksamningar geta verið jafngildir veltu.
- Eitt eða fleiri stöðugildi séu nú þegar í fyrirtæki.
- Veruleg nýsköpun/þróun sé í því verkefni sem atvinnuleitandi er ráðinn til.
- Atvinnuleitandi sé tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og eigi rétt á atvinnuleysisbótum.
- Atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit og á skrá hjá Vinnumálastofnun.
- Ráðning atvinnuleitanda feli í sér fjölgun starfsmanna hjá fyrirtækinu.
- Verkefni raski ekki samkeppni innanlands í viðkomandi starfsgrein.
Samningur
Starfsorka er úrræði sem hefur það að markmiði að auðvelda fyrirtækjum í nýsköpun og þróun að ráða fólk til starfa. Verkefnið er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Þátttaka í verkefninu er opin fyrirtækjum og einstaklingum með rekstur á öllu landinu.
Starfsorka felur í sér þríhliða samning milli Vinnumálastofnunar, fyrirtækis og atvinnuleitanda af atvinnuleysisskrá um ráðningu í starf sem snýr að nýsköpun og þróun. Fyrirtæki skuldbindur sig til að ráða atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins í allt að sex mánuði og greiðir laun samkvæmt gildandi kjarasamningi. Vinnumálastofnun greiðir sem nemur fjárhæð þeirra grunnatvinnuleysisbóta sem atvinnuleitandi á rétt á úr atvinnuleysistryggingasjóði til fyrirtækisins auk 8% mótframlags í lífeyrissjóð þann tíma.