Meirihluti bótaþega virkir á vinnumarkaði þegar bótatímabili lýkur

Niðurstöður nýrrar rannsóknar Vinnumálastofnunar og velferðarráðuneytisins sýna að meirihluti þeirra sem þátt tóku í könnuninni og fullnýtt höfðu rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins höfðu hafið þátttöku á vinnumarkaði að nýju þegar könnunin var gerð, eða 57.8% svarenda. Að auki höfðu 5.8% hafið nám. Þannig sögðust 63.6% svarenda vera annað hvort launamenn í fullu starfi, launamenn í hlutastarfi, í sjálfstæðum rekstri eða í námi.

Af þeim sem svöruðu voru 22% enn í atvinnuleit. Að auki sýnir rannsóknin að 27.1% þeirra atvinnuleitenda sem fullnýtt hafa rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins hafa fengið fjárhagsaðstoð frá hlutaðeigandi sveitarfélagi í kjölfarið en rannsóknartímabilið nær frá ársbyrjun 2013 til haustsins 2014. Alls fengu 9.9% greidda fjárhagsaðstoð frá hlutaðeigandi sveitarfélagi þegar rannsóknin var gerð.

Telja verður að niðurstöðurnar sanni ótvírætt gildi þeirra víðtæku vinnumarkaðsaðgerða sem Vinnumálastofnun stendur fyrir í því skyni að viðhalda starfsgetu atvinnuleitenda sem og að þjálfa hjá þeim nýja hæfni. 

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar er staðan svipuð í öllum landshlutum að því er varðar hlutfall þeirra sem fá greidda fjárhagsaðstoð frá hlutaðeigandi sveitarfélagi í kjölfar atvinnuleysis, að Suðurnesjum undanskildum.  Þar er hlutfallið umtalsvert hærra en annars staðar eða 41.3% en  17,2 % svarenda voru að fá fjárhagsaðstoð þegar könnunin var gerð og 21,3% voru annaðhvort að fá fjárhagsaðstoð í dag eða á sl. 3 mánuðum

Vinnumálastofnun hefur nú hafið samstarf við Vinnumarkaðsráð Suðurnesja í því skyni að greina misræmi í þörfum og væntingum sem virðist vera á svæðinu á milli atvinnuleitenda og atvinnurekenda og enn fremur að skoða með hvaða hætti hægt sé að bregðast við vandanum.

Rannsókn Vinnumálastofnunar og velferðarráðuneytisins var unnin af rannsóknarfyrirtækinu Maskína hf. með tilstyrk Vinnumarkaðsráðs höfuðborgarsvæðisins.

Skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar er að finna hér

Frekari upplýsingar veitir Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar í síma 898 4507. 

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni