Starfstími Svanna-lánatryggingasjóðs kvenna framlengdur

Þann 9.júní síðastliðinn var undirritað samkomulag milli eigenda Svanna-lánatryggingasjóðs kvenna um áframhald starfsemi sjóðsins en sjóðurinn er í eigu velferðarráðuneytis, atvinnu-og nýsköpunarráðuneytis og Reykjavíkurborgar.

Starfstími sjóðsins mun verða til ársloka 2018 og er umsóknarfrestur um lánatryggingu vegna haustúthlutunar til 15.september.

Hlutverk Svanna er að styðja konur til þátttöku og hvetja til nýsköpunar í atvinnulífinu með því að veita ábyrgðir á lánum og veitir sjóðurinn helming ábyrgðar. Samstarfsaðili sjóðsins er Landsbankinn, sem veitir helming ábyrgðar á móti sjóðnum.    
Fyrirtæki sem eru í meirihlutaeigu konu/kvenna og undir stjórn konu/kvenna geta sótt um tryggingu og gerð er krafa um að líkur séu verulegar á að verkefnið/fyrirtækið leiði til aukinnar atvinnusköpunar kvenna. 

Áherslur Svanna eru eftirfarandi:

Að styðja við bakið á konum sem eiga og reka smærri fyrirtæki.
Að stuðla að því að auka hlut kvenna sem eigendur og stjórnendur fyrirtækja.
Að auka aðgengi kvenna að fjármagni til fyrirtækjareksturs.
Að fjölga störfum og stuðla að nýnæmi í atvinnulífi.
Að tryggja ráðgjöf og handleiðslu til kvenna sem fá ábyrgðir hjá sjóðnum vegna lántöku.
Að hvetja jaðarhópa kvenna til þátttöku í atvinnulífinu, svo sem innflytjendur.

Hægt er að sækja um lánatryggingu vegna eftirtalinna þátta: 

  • Stofnkostnaðar
  • Markaðskostnaðar
  • Vöruþróunar
  • Nýrra leiða í framleiðslu eða framsetningu vöru/þjónustu.

Hægt er að fá lán sem nema allt að 10 mkr en trygging sjóðsins nemur helmingi lánsfjárhæðar hverju sinni auk ábyrgðar bankans eins og áður segir. 

Sótt er rafrænt um lánatryggingu á heimasíðu verkefnisins www.svanni.is. Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um umsækjanda, greinargóð lýsing á verkefninu, markmiðum þess og ávinningi, hverjir koma að umsókninni, samstarfsaðilar, viðskiptaáætlun og lýsing á fjármögnun, endurgreiðsluáætlun og staðfesting fjármögnunaraðila ef þeir eru til staðar. Umsóknir eru metnar út frá lýsingu á viðskiptahugmynd, , atvinnusköpun kvenna, verðmætasköpun/arðsemi, nýnæmi og samkeppni, viðskiptaáætlun (fjárhags-, markaðs og framkvæmdaráætlun), fjármögnun, áhættumati og fjárhagsstöðu umsækjanda.

Allir umsækjendur sem koma til greina eru boðaðir í viðtal með stjórn og fulltrúum bankans þar sem stjórn og banka gefst færi á að spyrja nánar út í verkefnið og umsækjendum gefst færi á að gera betur grein fyrir því.

Lánatryggingum er úthlutað tvisvar á ári, að vori og að hausti en hægt er að senda inn umsóknir árið um kring.  

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni