Efling frumkvöðlakvenna á landsbyggðinni

Þátttakendur í FREE verkefninu

Hafinn er undirbúningsvinna að Evrópuverkefninu FREE hjá Vinnumálastofnun en það er samstarfsverkefni  fimm landa þ.e. Íslands, Króatíu, Bretlands, Litháens og Búlgaríu. Verkefnið hlaut 40 milljónir í styrk úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins síðastliðið sumar. Vinnumálastofnun leiðir verkefnið og var fyrsti fundur samstarfsaðila haldinn í október í Sheffield, Englandi. Þar var verkefnið skipulagt en gert er ráð fyrir að verkefnið hefjist af fullum krafti í upphafi næsta árs en verkefnið stendur til febrúarloka 2018.

Verkefnið ber nafnið FREE - Female Rural Enterprise Empowerment eða Efling frumkvöðlakvenna á landsbyggðinni en markmið þess er að byggja upp hæfni og færni frumkvöðlakvenna í dreifðum byggðum og auka tengslanet sitt, bæði staðbundið og í Evrópu.

Þar sem um tilraunaverkefni er að ræða verður sjónum sérstaklega beint að frumkvöðlakonum í þremur landshlutum, Vestfjörðum, Norðulandi vestra og Austfjörðum þ.e. svæðum sem hafa búið við einhæft atvinnulíf og neikvæða byggðaþróun einkum m.t.t. kvenna. Í verkefninu verður m.a. gerð rannsókn á stuðningsneti frumkvöðlakvenna, útbúið netnámsefni með fræðslu um atvinnurekstur og unnið að myndun tengslaneta frumkvöðlakvenna á umræddum svæðum. Samstarfsaðili Vinnumálastofnunar í verkefninu hér á landi er Byggðastofnun.

Áhugasömum er bent á að hafa samband við starfsmenn verkefnisins en það eru þær Ásdís Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri og Guðrún Stella Gissurardóttir, forstöðumaður, hjá Vinnumálastofnun, s.515-4800515-4800.  
Starfsmaður verkefnisins hjá Byggðastofnun er Anna Lea Gestsdóttir, sérfræðingur á þróunarsviði s.455-5400455-5400.

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.