Vinnumálastofnun veitti viðurkenningar á ársfundi

Ársfundur Vinnumálastofnunar

Vinnumálastofnun hélt vel heppnaðan ársfund sinn 12.maí síðastliðin þar sem áherslan var á nauðsyn fjölbreytileika á vinnumarkaði. Á ársfundinn mættu um 150 manns þar sem erindin voru bæði fjölbreytt og fræðandi. Ketill Berg Magnússon framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja var fundarstjóri og stýri fundinum með miklu sóma.

Gissur Pétursson forstjóri hóf fundinn með sinni ræðu þar sem hann fór yfir helstu áherslur stofnunarinnar á síðasta ári og í kjölfarið kom Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra sem gerði m.a. ríka kröfu um sveigjanleika stofnunarinnar að umfjöllunarefni. Frétt um ársfundinn á vef Velferðarráðuneytisins má nálgast HÉR.

Ragnheiður Hergeirsdóttir verkefnisstjóri með Atvinnumálum fatlaðs fólks hjá Vinnumálastofnun greindi í sínu erindi frá nálgun stofnunarinnar og þeim breytingum sem lagt væri upp með til að tryggja málaflokknum sem bestan sess í þjónustu stofnunarinnar.

Falur Harðarson mannauðsstjóri Samkaupa ræddi um aðkomu síns fyrirtækis að því að skapa störf fyrir fólk með skerta starfsgetu áður en Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR kom í pontu til að útskýra þá herferð sem VR væri í þessa dagana sem hefði það að markmiði að opna augu samfélagsins fyrir mikilvægi fjölbreytileika á vinnustöðum.

Eftir kaffi hélt Svana Helgadóttir nemandi við HR erindi um sitt líf og sína sýn á vinnumarkað og nám út frá manneskju sem glímt hefði við geðrænan vanda. Að lokum fræddi Gylfi Dalmann Aðalsteinsson dósent við HÍ fólk á sögulegri og menningarlegri þróun fjölbreytileika á Íslandi og íslenskum vinnustöðum.

Á fundinum veitti Vinnumálastofnun og ráðherra nokkrum fyrirtækjum og vinnustöðum viðurkenningar fyrir frábært starf og nálgun við fjölgun starfa fyrir fólk með skerta starfsgetu. Viðurkenningarnar voru veittar út frá reynslu Vinnumálastofnunar af góðu samstarfi við þau og sveigjanleika í samskiptum sem væri til mikillar fyrirmyndar þegar skapa þyrfti starfstækifæri fyrir fólk með mismikla starfsgetu.

Eftirtalin fyrirtæki hlutu viðurkenningar á ársfundinum og komu fulltrúar þeirra á fundinn til að veita þeim móttöku:

  • Mjólkursamsalan á Selfossi

  • Samkaup

  • Hagstofan

  • Hjúkrunarheimilið Sóltún.

Vinnumálastofnun vill þakka öllum sem komu á ársfundinn og þeim sem horft hafa á upptöku hans kærlega fyrir að sína efni hans áhuga.

Nálgast má myndir frá fundinum inni á facebook síðu Vinnumálastofnunar og upptöku fundarins HÉR

Ráðherra veitir viðurkenningar
Ráðherra veitir viðurkenningarViðurkenningar veittar

Viðurkenningar veittar á ársfundiRáðherra heldur ræðu á ársfundi

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni