Félags- og jafnréttisráðherra opnar nýja vefsíðu

Félags- og jafnréttisráðherra opnar posting.is

Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttisráðherra opnaði á föstudaginn nýja vefsíðu sem Vinnumálastofnun hefur sett upp í samvinnu við Ríkisskattstjóra, Vinnueftirlitið, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Um er að ræða upplýsingasíðu þar sem nálgast má fræðslu um réttindi og skyldur erlendra þjónustufyrirtækja sem senda fólk til starfa hér á landi auk laga reglna sem gilda um starfsemi starfsmannaleiga hér á landi.

Vefsíðan er liður í því að bæta upplýsingagjöf til erlendra aðila sem starfa tímabundið hér á landi og tryggja að þeir starfi í samræmi við lög og reglur.

Þörf hefur myndast fyrir slíka upplýsingasíðu en fjöldi erlendra fyrirtækja sem starfa hér á landi og starfsmenn á þeirra vegum hefur farið stigvaxandi frá árinu 2015. Voru þannig samtals 54 erlend þjónustufyrirtæki skráð til Vinnumálastofnunar á árinu 2016 með samtals 996 starfsmenn. Þá var fjöldi starfsmanna á vegum starfsmannaleiga, innlendra sem erlendra, samtals 1527. Með tilkomu vefsíðunnar munu þessir aðilar með einföldum hætti geta nálgast helstu upplýsingar á einum og sama stað. Verður þar meðal annars að finna upplýsingar um kaup og kjör, vinnuvernd, skattamál, mat á starfsréttindum, skráningu til Þjóðskrár og upplýsingar um skráningaskyldu erlendra fyrirtækja til Vinnumálastofnunar osfrv.

Sjá nánar vef á posting.is

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.