Sjálfstyrkingarnámskeið


Að8sig - Ný tækifæri, sjálfskoðun og áræðni árin eftir fimmtugt

Námskeiðinu er ætlað að styðja þá sem finna hjá sér þörf til að staldra við og íhuga næstu skref.

Í hverjum tíma er unnið með ákveðna þætti: Hvað er hamingja? Hvað er vellíðan? Hver er draumurinn? Þátttakendur kryfja gildi sín, fá innsýn í eigin styrkleika og hvernig hægt er að nota þá og kynnast inngripum úr jákvæðri sálfræði sem auka vellíðan og hamingju. Rætt er um vængi og rætur og kynntar aðferðir sem gagnast við að skipuleggja framtíðina.

Hist er í þrígang, 3 tímar í senn. Milli 1. og 2. tíma taka þátttakendur styrkleikagreiningu og fá úrlestur.

Kennari: Ragnhildur Vigfúsdóttir Mannauðsráðgjafi og ACC markþjálfi

Námskeiðið fer fram hjá Framvegis í  Borgartúni 20, 3. hæð Reykjavík

Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is 

Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.

ADHD á kvennamáli

Námskeiðið er fyrir konur á öllum aldri sem vilja bein athyglinni að styrkleikum sínum, takast á við áskoranir og skila skömminni. Námskeiðið hentar konum sem eru tilbúnar að deila eða læra af reynslu annarra kvenna. Á námskeiðinu er lagður grunnur að bættu sjálfstrausti og jákvæðri sjálfsmynd með aðferðum ADHD markþjálfunar. Rætt verður um starfsemi ADHD heilans. Hvernig hann hefur áhrif á getu, ákvarðanir og gjörðir og kenndar verða einfaldar leiðir til að yfirstiga hindranir og auka sjálfsþekkingu. Hægt verður á, húð á og spornað gegn neikvæðum áhrifum álags, streitu og svefnerfiðleika með leiðum sem reynast hjálplegar til að róa taugakerfið m.a. með Yoga Nidra. 

ADHD á kvennamáli er samvinnuverkefni Sigrúnar Jónsdóttir og Kristbjargar Konu sem báðar eru ADHD markþjálfarar og eru báðar greindar með ADHD. 

Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is 

Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda. 

Gott jafnvægi – námskeið um streitustjórnun

Viltu læra leiðir sem virka fyrir þig til þess að minnka streitu og hlúa betur að þér? 

Viltu finna betra jafnvægi í lífinu og meiri fyllingu og gleði í dögunum þínum? 

Þetta segja þeir sem hafa sótt námskeiðið: 

"Andrúmsloftið var hlýlegt og afslappað og gott að koma upp í Samkennd." 

"Á heildina litið fannst mér námskeiðið vera mjög gagnlegt og ég mæli eindregið með því fyrir alla sem vilja skilja streitu betur og læra hvernig er hægt að stjórna henni." 

“Lydía er augljóslega að tala bæði af reynslu og mikilli fagþekkingu og miðlar efninu til þátttakenda á fyrirhafnarlausan og þægilegan hátt.” 

Hentar: 

Öllum sem upplifa einkenni of mikillar streitu og vilja læra leiðir til þess að finna betra jafnvægi. 

Hvar: 

Námskeiðið verður haldið í notalegum sal Samkenndar-heilsuseturs að Tunguhálsi 19. 

Hvenær: 

Einu sinni í viku.  2 klukkustundir í senn í 6 vikur.

Markmið: 

Að þátttakendur skilji betur langvarandi streitu og afleiðingar hennar. 

Að þátttakendur læri leiðir sem virka fyrir þá til þess að minnka streitu í sínu lífi, að hlúa betur að sér og öðlast betra jafnvægi. En á sama tíma að ná betri árangri í lífi og starfi. 

Að þátttakendur skilji sjálfa sig betur og hvernig þeir vilja lifa lífinu. 

Dagskrá námskeiðs: 

  1. Streita og afleiðingar langvarandi streitu. 
  2. Aðferðir við streitustjórnun og að komast í gott jafnvægi.
  3. Grundvallaratriði hugrænnar. atferlismeðferðar og taugakerfið. 
  4. Grunnþarfir og tilfinningar. 
  5. Sjálfsmynd, samkennd og núvitund. 
  6. Hver er ég og hver er mín framtíðarsýn? 

Leiðbeinandi: 

Lydía Ósk Ómarsdóttir, sálfræðingur. 

Lydía hefur persónulega reynslu af að vinna sig út úr miklu streituástandi þegar hún var óvinnufær í næstum tvö ár vegna kulnunar. Nú sinnir hún sálfræðimeðferð hjá Samkennd-heilsusetri þar sem hún hjálpar fólki að minnka streitu og finna betra jafnvægi og betri líðan. 

Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið: namskeidhb@vmst.is 

Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda. 

Hannaðu líf þitt - Designing your life

Designing your life er eitt vinsælasta námskeiðið í Stanford háskóla. Þar hafa Bill Burnett og Dave Evens aðstoðað BA/BS og MA/MS nema við að átta sig á því hvað þeir ætla að gera næst. Þeir félagar leita í smiðju til Design Thinking og segja að breytingar krefjist ferils, hönnunarferils, til að átta sig á því hvað við viljum og hvernig við náum því. Aðferðin felst í því að hugsa eins og hönnuðir, hanna og búa sér til líf. Þessi aðferð gagnast fólki á öllum aldri, þ.e. fólki sem veltir því fyrir sér hvað skal gera næst, hvað það langar til að gera og hvað það getur gert.

Námskeiðið er ætlað einstaklingum sem lokið hafa háskólamenntun.

Ragnhildur Vigfúsdóttir er eini íslenski markþjálfinn sem hefur leyfi til að nýta efnið með markþegum sínum. Gert er ráð fyrir 10 manns í hóp.

Hópurinn hittist í fimm skipti, 3 klst. í senn, eftir fyrsta tíma fær hver og einn 1 klst. með markþjálfa þar sem farið  er í styrkleikagreiningu (Strengths Profiler) hvers og eins. Töluverð vinna verður í tímum og þátttakendur verða að vinna verkefni milli tíma.

Kennari er Ragnhildur Vigfúsdóttir Certified Designing your life coach og PCC markþjálfi.

Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið: namskeidhb@vmst.is

Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.

Með vakandi athygli og innri kyrrð

Um er að ræða 4 vikna sjálfseflandi námskeið sem byggir á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) - Jákvæðra sálfræði - Núvitund og Yoga Nidra djúpslökun.

Námskeiðið hentar vel einstaklingum sem eru að upplifa mikið álag, streitu, kvíða, þunglyndi/depurð eða svefnvanda.

Markmið með námskeiðinu eru:
• Að veita þátttakendum fræðslu og leiðir til að hlúa að andlegri og líkamlegri heilsu.
• Að draga úr streitu og streitueinkennum, ná meiri stjórn á viðbrögðum líkamans við langvarandi álagi.
• Að kenna aðferðir til að rjúfa vítahring neikvæðra hugsana og vera meðvituð um hugsana hátt sinn og hegðun.

 Uppbygging námskeiðs:
Hugleiðsla/öndun og léttar teygjur (streitulosandi) í byrjun hvers tíma.
• Skoðum aðferðafræði hugrænna atferlismeðferða (HAM) sem byggir á þeirri kenningu að túlkun okkar, væntingar og viðhorf hafi töluverð áhrif á líðan. Gengið er út frá því að manni líði eins og maður hugsar.
• Kynnt verður hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði, þ.e. hvað gengur vel í lífi fólks, styrkleikar og veikleikar skoðaðir og mikilvægi þess að auka jákvæðar tilfinningar og bjartsýni.
• Í núvitundar hlutanum erum við að læra að staldra við, að taka eftir því hvernig okkur líður og hverju við erum að finna fyrir. Við erum að skoða hugsanir okkar og tilfinningar meðvitað án þess að dæma þær.
• Í lok tímans er þátttakendum boðið upp á djúpslökun með aðferðum Yoga Nidra þar sem áhersla er lögð á kyrrð og hvíld í hlýlegu umhverfi.

 Ávinningur námskeiðsins:
• Aukin færni til að takast á við streitu, kvíða og álag í daglegu lífi.
• Að breyta hugsanamynstrum og tilfinningalegum viðbrögðum.

Umsjón: SEN ráðgjöf.

Kennari: Lovísa Hafsteinsdóttir, ráðgjafi, Yoga kennari og Yoga Nidra kennari.

Tímalengd: kennt er 2x í viku, 2 tíma í senn í 4 vikur. Samtals 16 tímar.

Staðsetning: Lífsgæðasetrið St.Jó- Suðurgötu 41, Hafnarfjörður

Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið: namskeidhb@vmst.is

Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.

Mín líðan - Sjálfsefling á netinu

Mín líðan (www.minlidan.is) býður upp á alhliða sálfræðiþjónustu á netinu. Mín líðan býður upp á 10 tíma staðlaða sálfræðimeðferð á netinu veitta af löggildum sálfræðingum, þar sem öll samskipti fara fram með skrifuðum texta. Boðið er upp á fjórar mismunandi meðferðir við einkennum þunglyndis, kvíða, félagskvíða og lágs sjálfsmats. Meðferðin byggir á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar þar sem fólk lærir að draga úr vanlíðan með því að breyta hvernig það hugsar og hegðar sér.

Meðferðin samanstendur af 1) fræðslu, 2) æfingum og verkefnum, 3) spurningalistum og 4) skilaboðum til sálfræðings. Skjólstæðingur fær einstaklingsmiðaða endurgjöf á öll verkefni sem skilað er inn og hægt er að senda sálfræðingi skilaboð hvenær sem er. Árangur í meðferðinni er metinn með spurningalistum þrisvar sinnum yfir meðferðina svo hægt er að fylgjast með árangrinum. Þú getur prófað frían kynningartíma á www.minlidan.is.

Hægt er að svara nokkrum einföldum spurningum til að sjá hvaða meðferð hentar þér:  https://www.minlidan.is/spurningalisti

Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið: namskeidhb@vmst.is

Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.

Námskeið hjá ADHD samtökunum sem Vinnumálastofnun styrkir

ADHD og fjármál

Fjarnámskeið.

Á námskeiðinu verður farið yfir helstu áskoranir varðandi ADHD og fjármála yfirsýn. Við förum yfir hvernig við getum byggt upp betra samband við fjármálin okkar, vinnum með hvatvísi og segjum bless við skömmina sem fylgir oft óreiðu á fjármálum. Við lærum mismunandi aðferðir til að setja okkur fjárhagsleg markmið og standa við þau og hvar við getum sparað. Við förum yfir hvernig er hægt að halda heimilisbókhald á einfaldan og skemmtilegan hátt og hvernig við búum okkur til ADHD vænar fjármála rútínur. Við einbeitum okkur betur að því að byggja upp jákvæðar tilfinngar fyrir fjármálin okkar og hvað það kostar okkur í raun og veru að lifa. Þú færð verkfæri eftir námskeiðið til þess að vera betur tengd við peningana þína til að stjórna þeim í stað þess að þeir stjórni þér. 

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Valdís Hrönn Berg, fjárhagsmarkþjálfi.

Áfram stelpur

Staðnámskeið.

Markmið námskeiðs: námskeiðinu er ætlað að veita fræðslu um ADHD einkenni kvenna, algengar fylgiraskanir þeirra og ólíkar birtingamyndir röskunarinnar. Áhersla er lögð á þau hugrænu ferli sem liggja að baki algengum áskorunum sem einstaklingar með ADHD mæta í daglegu lífi, hvort sem er í námi, starfi, heimilislífi, félagslegum samskiptum eða uppeldi. Markmið námskeiðsins er að styrkja konur með ADHD í markmiðasetningu, áætlanagerð og skipulagi með það fyrir augum að draga úr streitu og vanmáttarkennd. Námskeiðinu eru ætlað að fræða konur um ýmis verkfæri sem nýst geta í þessum tilgangi og veita þjálfun í notkun þeirra í gegnum samtöl og verkefnavinnu. 

Leiðbeinandi er Sigrún Jónsdóttir, ADHD og einhverfu markþjálfi.

Áfram veginn

Fjarnámskeið.

Á netnámskeiðinu ætlum við að fræðast um ADHD með styrkleika að leiðarljósi. 

Vissir þú að með auknum skilningi á þínu ADHD eykur þú líkurnar á betri stjórn og auknum lífsgæðum í daglegu lífi. 

Áskoranir ADHD geta haft margvísleg áhrif á daglegt líf. Á námskeiðinu skoðum við hvar þær liggja og aðferðir til að takast á við þær og ná betri tökum á þeim. 

Námskeiðið fer fram í gegnum fjarfundabúnað ZOOM, tvo miðvikudaga í röð.

Megin þemu námskeiðsins eru:

  • Taugaþroskaröskunin ADHD.
  • Stýrifærni heilans.
  • Greiningarferli ADHD. 
  • Mikilvægi greiningar og sáttar við greiningu. 
  • Þróun sjálfsmyndarinnar og fylgiraskanir ADHD. 
  • Hugræna líkanið. 
  • Styrkleikar ADHD. 
  • Bjargráð verða kynnt til sögunnar.
  • Kynning á meðferðarúrræðum fyrir ADHD.

Leiðbeinendur vefnámskeiðsins eru Sigrún Jónsdóttir þroskaþjálfi og ADHD- og einhverfu markþjálfi og Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir ADHD markþjálfi. 

Taktu stjórnina

Staðnámskeið.

Á námskeiðinu verður fjallað um eftirfarandi þætti:

  • Skilningur á ADHD á ólík einkenni.
  • Algengir fylgikvillar.
  • Að sættast við greininguna - styrkleikar og vandkvæði.
  • Markmiðasetning. 
  • Félagsleg samskipti almennt. 
  • Vinna og nám.
  • Fjármálastjórn.
  • Heimilið.
  • Foreldrahlutverkið og samskipti við maka. 
  • Heilbrigt líferni. 

Markmið námskeiðsins: er að veita fullorðnum með ADHD helstu upplýsingar um einkenni ADHD og ólíkar birtingamyndir röskunarinnar. Styrkja einstaklingana í að skipuleggja líf sitt, ná utan um það sem kannski áður hefur farið forgörðum, vinna á streitu og kvíða með upplýsingum, samtölum og æfingum. Veita þátttakendum ákveðin tæki til að líða betur með ADHD í sínu lífi. Setja sér skynsamleg markmið og raunhæfar kröfur. Afraksturinn er betri einstaklingur, huganlega betra og ánægðara foreldri, maki, starfsmaður og borgari. 

Leiðbeinendur verða Dr. Drífa Björk Guðmundsdóttir, sálfræðingur og Sigrún Jónsdóttir, ADHD markþjálfi og þroskaþjálfi.  

Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið: namskeidhb@vmst.is

Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.

Sjá nánar um námskeiðin á slóðinni https://www.adhd.is/is/namskeid

Ný dagur ný tækifæri

Sjálfstyrkingar- og valdeflandi námskeið fyrir konur af erlendum uppruna. Á námskeiðinu er unnið með einstaklingum með áherslu á að einblína á styrkleika og nýta þá til að auka sjálfstraust og starfshæfni. Námskeiðinu er skipt upp í 6 námsþætti sem kenndir vera í stuttum fyrirlestrum, umræðum og verkefnavinnu og mun hver tími enda með Yoga Nidra. Einstaklingar munu hafa tækifæri á að átta sig á þeim þáttum sem skipa mestu máli í þeirra lífi með því að koma auga á sína styrkleika, seiglu, hindranir og framtíðarsýn. 

Markmið námskeiðis:

  • Að efla sjálfstraust, seiglu og náms- og starfshæfni. 
  • Geta greint frá eigin styrkleikum, veikleikum og hvaða tækifæri felast í því. 
  • Læra leiðir til að takast á við og yfirstíga hindranir. 
  • Skýrari framtíðarsýn. 
  • Draga úr kvíða og streitu. 

Námskeiðið er haldið í sal Vinnumálastofnunar, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík. 

Skipulag: þrjár vikur, kennt 2x í viku.

Leiðbeinandi: Sigrún Rós Elmers, B.Ed próf í kennarafræðum, nám í MA í náms- og starfsráðgjöf. Markþjálfi og Yoga Nidra kennari. Sigrún hefur góða reynslu í að vinna með einstaklingum sem eru í atvinnuleit og af námskeiðshaldi. Hún hefur í sínum störfum verið með námskeið og tekið þátt í að búa til námsefni. 

Skráning á námskeiðið fer í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is 

Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda. 

Staldra við - Náttúrunámskeið við streitu - Saga story house

Vinnu- og námsmiðuð sjálfsefling.

Námskeiðið hentar fólki sem upplifir neikvæð áhrif álags og streitu á heilsu og lífsgæði og langar til að öðlast reynslu, þekkingu og verkfæri til að yfirfæra yfir á daglegt líf.

Markmið með námskeiðinu er tvíþætt:
Þátttakendur öðlist þekkingu og beina reynslu af ólíkum þáttum sem stuðla að jafnvægi í daglegu lífi og hafa jákvæð áhrif á heilsu og lífsgæði.

Þátttakendur öðlist þekkingu og beina reynslu af aðferðum sem stuðla að vellíðan, streitulosun og endurheimt í gegnum einfaldar öndunaræfingar, leiddar núvitundargöngur í náttúrunni og djúpslökun.

Hver tími skiptist í þrennt:  

Fræðsla og verkefnavinna
Fjallað er um aðferðir og leiðir til að efla lífsgæði. Í hverjum tíma eru tekin fyrir þemu/áherslur sem stuðla að vellíðan og jafnvægi í daglegu lífi.

Kyrrðargöngur
Farið verður í leiddar núvitundargöngur í náttúrunni. Valdar eru þægilegar gönguleiðir í nærumhverfinu þar sem gengið er í ólíkri náttúru, meðal annars með hafi, hrauni, vatni, skógi og læk. Gengið er að hluta til í þögn þar sem áhersla er lögð á núvitundarþjálfun, ígrundun og endurheimt.

Djúpslökun
Í lok hvers tíma er þátttakendum boðið upp á djúpslökun með gagnreyndum aðferðum þar sem áhersla er lögð á streitulosun og endurheimt.

Hugmyndafræði og nálgun við kennslu
Stuðst er við hugmyndafræði iðjuþjálfunar,  jákvæðrar sálfræði, kenningar um áhrif náttúru á líðan, hugmyndafræði reynslunáms (Experiental Learning),  og núvitundarþjálfun.

Kennarar eru stofnendur og eigendur Sögu – Story House:

Guðbjörg Björnsdóttir iðjuþjálfi, MA-diplóma í jákvæðri sálfræði og Yoga Nidra  kennararéttindi.
Ingibjörg Valgeirsdóttir MA-diplóma í jákvæðri sálfræði, MBA, Uppeldis og menntunarfræði HÍ, Yoga- og Yoga Nidra kennararéttindi

Tímalengd: Kennt er 2 x viku, 3 tímar í senn, 4 vikur. Alls 24 klst.

Staðsetning: Námskeiðið fer fram í hlýlegu lærdómsumhverfi á Vinnustofu Sögu,
Flatahrauni 3, 220  Hafnarfirði.

http://www.sagastoryhouse.is

Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is 

Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.

Vöxtur og vegferð – einhverfa

Vöxtur og vegferð er sjálfstyrkingarnámskeið fyrir 16 ára og eldri sem er með greiningu eða grun um að vera á einhverfurófinu. Á námskeiðinu fá þau fræðslu um einkenni einhverfu, áhrif á líðan, samskipti við aðra, stýrifærni við iðju og rýnt er í styrkleika og farið í markmiðasetningu.

Námskeiðið byggir á kenningum um taugasálfræðilegan þroska, skynjun og skynúrvinnslu (Sensory
Integration Theory), iðju og þátttöku (Model of Human Occupation), reynslunámi (Experiential
learning), styrkleikanálgun og valdeflingu (Empowerment).

Tilgangur námskeiðs er að skilja kjarna persónunnar, ólíka hegðun og tegund af samskiptum. Áhersla er lögð á mikilvægi samkenndar í eigin garð, trú á eigin getu og veittur stuðningur við að móta næstu skref í vegferð lífsins. Markmið þátttöku er að efla sjálfsmynd, skilning á eigin líðan og efla getu til að takast á við ólíkar aðstæður í samskiptum, félagsþátttöku og í starfi.

Umsagnir fyrrum þátttakenda einkennast af því að upplifa efni námskeiðs gagnlegt, eflandi og hvetjandi þar sem þau fái tækifæri á að máta sig og sínar aðstæður við aðstæður annarra, umræður og innihald námskeiðsins.

Kennari: Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir iðjuþjálfi og Sigrún Jónsdóttir þroskaþjálfi, einhverfu og ADHD markþjálfi.

Tímalengd: kennt er 1x í viku, 2 klst í senn í 6 vikur.

Staðsetning: Lífsgæðasetrið St. Jó, Suðurgötu 41 í Hafnarfirði eða á netinu gegnum ZOOM fyrir þá sem treysta sér ekki til að mæta í hús eða eru búsettir út á landi.

Ath, strætó nr. 1 stoppar fyrir aftan húsið (við Hringbraut/St. Jósefsspítali) og strætó nr. 21 á
Strandgötu (við Víkingaheimilið) í ca 5-7 mínútna gönguleið frá St. Jó.

https://www.heimastyrkur.is/vöxtur-og-vegferð-my-growth-path

Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið: namskeidhb@vmst.is

Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.


Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni