Góð ráð á tímum COVID-19

Þegar við stöndum frammi fyrir óvissum tímum er mikilvægt að setja sér raunhæf markmið og hlúa að geðheilsunni.

Það er eðlilegt að finna fyrir áhyggjum og jafnvel kvíða á svona tímum. 

Hjálparsíminn 1717 og netspjall Rauða krossins  (smelltu hér til að fara inn á netspjallið 1717.is)  er öllum opið og þar er veitt alhliða ráðgjöf við hverjum þeim vandamálum sem fólk telur sig standa frammi fyrir. 

Það eru eðlilegar tilfinningar sérstaklega þegar við stöndum frammi fyrir óþekktri ógn. Mikilvægt er að hlúa að sér og láta þessar tilfinningar ekki taka yfir.

Ráðgjafar Vinnumálastofnunar hafa mikla og fjölbreytta reynslu í að aðstoða einstaklinga á þeirra forsendum.

Stafræn þjónusta hjá Vinnumálastofnun

Nú býðst atvinnuleitendum að koma í fjarviðtal gegnum TEAMS. Öll ráðgjöf er byggð á gagnkvæmum trúnaði, trausti og virðingu. Báðir aðilar skulu sýna vandaða og viðeigandi háttsemi. Upptökur eru ekki leyfðar nema þá með samþykki beggja aðila.

Hægt er að panta viðtal við ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun með því að senda póst á þína þjónustuskrifstofu. Smelltu hér til að fá yfirlit yfir þjónustuskrifstofur Vinnumálastofnunar:
https://vinnumalastofnun.is/um-okkur/thjonustuskrifstofur
Athugaðu að tímapantanir hjá ráðgjafa á höfuðborgarsvæðinu fara í gegnum. 
radgjafar@vmst.is  

Hér má finna nánari leiðbeiningar um fjarviðtal: 


Undirbúningur fyrir viðtalið:

Atvinnuleitandi skal gæta þess að búnaður og netsamband sé nægilega gott fyrir myndviðtal. Hægt er  að vera í fjarviðtali i tölvu og einnig á venjulegum snjallsíma ef það ermyndavél og hljóðnemar til staðar. Æskilegt er að hafa heyrnartól með hljóðnema, en það er þó ekki skilyrði.

Atvinnuleitandi (ráðþegi) og ráðgjafi bera ábyrgð á að mæta stundvíslega í ráðgjafartíma, hvort sem hann er á netinu eða í síma.  Aðstæður skulu vera þannig í  fjarráðgjöf að tryggt sé að samtalið geti farið fram í einrúmi og án truflunar. Fjarviðtöl í mynd fara fram á samskiptaforritinu TEAMS.

Atvinnuleitandi fær slóð á fund senda í tölvupósti. Opna þarf slóðina og velja þátttöku á fund (Join Microsoft Teams Meeting). Ef atvinnuleitandi er fyrri til að opna slóðina en ráðgjafi þá býðst honum að bíða í biðsal (waiting room) inni í TEAMS forritinu þar til ráðgjafi opnar á viðtalið.  Hlaða þarf niður TEAMS í tölvunni eða símanum sért þú að gera þetta í fyrsta skipti. Í tölvunni gerist það jafnvel sjálfkrafa. Slóðin er: https://www.microsoft.com/en-ww/microsoft-365/microsoft-teams/group-chat-software

Ef afboða þarf viðtal, hvort sem um er að ræða símaviðtal eða myndviðtal á netinu þarf að afboða það með því að senda póst á ráðgjafann sinn eða á radgjafar@vmst.is eða á þjónustuskrifstofun.  Gera má ráð fyrir að viðtalið sé 30 - 45 mínútur.

Til að fá sem mest út úr viðtalinu er gott að huga að eftirfarandi spurningum: Hvernig er líðan þessa stundina? Hvaða aðstoð gæti helst gagnast þér í atvinnuleit? Hvernig starfi ert þú að stefna að? Hvort eitthvað nám/námskeið gæti styrkt þig eða aukið líkur á að fá starf? Hvaða drauma hefur þú haft um nám, störf eða sjálfstæðan rekstur? Hvað þú getur gert betur til auka líkur á að fá starf? Þarftu að yfirstíga hindranir til að komast í vinnu? Hvaða hindranir, hvernig gætir þú yfirstigið þær? Þarftu aðstoð til þess? Ertu með spurningar sem þig vantar svör við s.s. um námsstyrki, úrræði á vegum Vinnumálastofnunar, um svigrúm til endurhæfingar eða annað?

Reglur og lög um fjarviðtöl:

Ráðgjafar Vinnumálastofnunar eru bundnir þagnarskyldu og af lögum sem um starfsemina gilda s.s. lögum um atvinnuleysistryggingar nr 54/2006, lögum um vinnumarkaðsaðgerðir nr 55/2006, lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr 77/2000, siðareglum Félags náms- og starfsráðgjafa (https://fns.is/si%C3%B0areglur-fns) o.fl. Undantekningar frá trúnaðarskyldu eru m.a. ákvæði barnaverndarlaga og ef ógn stafar að ráðþega eða þriðja aðila.

Notaður er samskiptabúnaðurinn TEAMS (myndspjall) sem telst uppfylla öryggiskröfur sem gerðar eru til slíks búnaðar af hálfu Vinnumálastofnunar. Einnig er notast við síma. Vinnumálastofnun veitir náms- og starfsráðgjöf við atvinnuleitendur. Ekki er veitt neyðarþjónusta og er einstaklingum í neyð er bent á að hafa samband við neyðarlínuna sími: 112 og hjálparsímann sími: 1717.

Allt efni sem dreift er til ráðþega getur verið höfundarvarið og er dreifing á því með öllu óheimil.


Hér eru hagnýt ráð sem tengjast því að vera á tímamótum, í atvinnuleit eða tímabundnu hléi frá atvinnulífinu vegna COVID -19.


Seigla:

Við fæðumst með mis mikla seiglu, en hana er hægt að þjálfa. Seigla er það að gefast ekki upp þótt á móti blási. Sumir fíleflast við mótlæti, aðrir koðna niður. Hluti af seiglu er að hafa trú á eigin getu og geta leitað til annarra og þiggja ráð, vera bjartsýn/nn og leita lausna.

Hér er að finna próf í seiglu. Prófið getur nýst þér til að átta þig á því hver er þín seigla og hvernig þú ert vön/vanur að nýta hana. Eitthvað segir mér að þú hafir áður lent í mótlæti og komist í gegnum það. Til hvaða ráða greipstu þá sem skiluðu þér áfram? Getur þú gripið til þeirra aftur?

Smelltu hér til að nálgast seiglupróf

Von:

Besta leiðin til að skapa nýja von, er að setja viðráðanlega áætlun fyrir næstu daga og vikur. Hægt er að panta viðtal við ráðgjafa, t.d. símtal til að ræða málin. Hafin er vinna innan stofnunarinnar að gerð fjarfundabúnaðar þannig að  hægt verði að taka einkaviðtöl í gegnum myndfjarbúnað. 

Ráðgjafar Vinnumálastofnunar eru með ýmsa fagmenntun að baki t.d. náms- og starfsráðgjafar, markþjálfar, vinnusálfræðingar og þroskaþjálfar. Hægt er að senda inn beiðni um viðtal til radgjafar@vmst.is. Það er oft gott að deila hugsunum sínum með öðrum og betur sjá oft augu en auga.

 

Atvinnuleit:

Það er óvissa í atvinnulífinu en í þessu árferði  má þó ekki gleyma því að enn er verið að auglýsta eftir fólki í störf t.d. inn á Alfred.is.

Sumir atvinnurekendur þurfa að auka við sig mannafla meðan aðrir draga saman seglin. Þetta er rétti tíminn til að yfirfara ferilskrá sína og uppfæra s.s. ef nýjar upplýsingar hafa bæst við s.s. vinna, endurmenntun, námskeið eða ábyrgð í félagsstarfi.  

Að vera í atvinnuleit er tímafrekt ferli og það má almennt gefa þau ráð að vera í atvinnuleit í einn til tvo tíma á dag og nota svo tímann sinn við uppbyggilega iðju s.s. fara út að ganga, hitta vini gegnum netið, gæta að því að sofa vel og borða hollt og reglulega. Nú er þó það rólegt út í atvinnulífinu að það er sjálfsagt að taka sér nokkra daga í frí frá atvinnuleitinni og slappa af. Þetta kemur með tíð og tíma og best að taka bara einn dag í einu. En þeir fiska sem róa, þ.e.a.s. auðvitað fá þeir vinnu sem bera sig eftir því, svo ekki láta deigan síga. Kannski er nú ástæða líka til að vera opnari en áður fyrir því að taka starfi sem er í öðru sveitarfélagi og kannski er líka álitlegra núna að hugsa á þann veg að betra er að hafa vinnu og tekjur, þótt ekki sé um draumastarfið að ræða.

Það hefur líka aukist að tekin eru atvinnuviðtöl í gegnum myndspjall á netinu. Ágætt að læra á þá tækni vel í tíma.

Á netinu er að finna sniðmót að ferilskrám og uppsetningu, einnig er í Word forritinu sjálfu mörg sniðmót úr að velja og þá er bara að fylla inn. Á heimasíðunni okkar undir ,,Ráðgjöf og Þjónusta” er líka að góð ráð, slóðin: https://vinnumalastofnun.is/radgjof-og-thjonusta/radgjafathjonusta/atvinnuleitin

Hér eru nokkrar spurningar til þín til umhugsunar:

 • Hver er þín helsta áskorun í atvinnuleitinni?
 • Hver í kringum þig getur verið þér innan handar með næstu skref?
 • Hvernig hefur þú fengið störfin sem þú hefur sinnt hingað til? Gætu þau ráð átt við enn í dag?
 • Hvað hjálpar þér mest á næstu dögum til að vera upp á þitt besta?
 • Er þetta tíminn til að lesa sér til eða læra eitthvað nýtt?
 • Hvaða verkefni viltu takast á við í persónulega lífinu einmitt núna?

Áhyggjur og kvíði:

Á netinu er að finna góð ráð við kvíða og áhyggjum. Mikilvægt að deila þeim með sínum nánustu og leita leiða. Í gegnum Vinnumálastofnun er hægt að leita sér ráða hjá Ráðgjöfum Vinnumálastofnunar, biðja um símtal í gegnum radgjafar@vmst.is.  Ráðgjafar Vinnumálastofnunar geta stundum haft ráð undir rifi hverju.

Þú getur einnig alltaf haft samband við hjálparsíma Rauða krossins 1717 eða nýtt þér netspjallið á slóðina 1717.is

Hér er að finna góð ráð frá Embætti Landlæknis: https://www.covid.is/undirflokkar/ahyggjur-og-kvidi?fbclid=IwAR3-N6f63nYHaAklx4YzgbcCLAqwU3JgIHG27UF1NSuxYXI66t-XgeYChXs

Endurmenntun:

Vinnumálastofnun leggur mikið upp úr því að halda fólki í virkni enda sýna rannsóknir fram á hvers mikilvægt. Fólk sem er langvarandi atvinnulaust á til að einangrast félagslega, finna fyrir  depurð og jafnvel þunglyndi.

Ráðgjafar hjá Vinnumálastofnun er með mismunandi menntun að baki. Má þar nefna sálfræði, félagsráðgjöf og starfs-og námsráðgjöf.Námskeið eru hluti af þeirri virkni sem Vinnumálastofnun býður  uppá og eru þau af ýmsum toga. Flest eru vinnutengd þannig að atvinnuleitandi eigi meiri líkur á að fá vinnu á eftir. Þetta eru námskeið sem auka hæfni og færni fólks.

Allar þjónustuskrifstofur Vinnumálastofnunar bjóða upp á  námskeið af hinum ýmsum toga. Vinnumálastofnun kaupir námskeið af símenntunarmiðstöðvum og ráðgjöfum. Hér eru dæmi um nokkur námskeið sem Vinnumálastofnun býður upp á:

 • Námskeið fyrir konur af erlendum uppruna
 • Námskeið fyrir ungt fólk – varðandi nýsköpun og virkni í starfi
 • Markþjálfun
 • Námskeið við gerð ferilskrár og kynningarbréfs
 • Námskeið tengd ferðaþjónustu
 • Starfsleitarnámskeið
 • Íslenskunámskeið
 • Raunfærnimat
 • Námskeið fyrir innflytjendur

 

Auk þessara námskeiða óskar Vinnumálastofnun eftir sérsniðnum námskeiðum frá námskeiðshöldurum, sem fanga tíðarandann og áherslur á vinnumarkaði í hvert sinn. Við bjóðum upp á ráðgjöf til einstaklinga sem og ráðgjöf í gegnum fjarfundabúnað um land allt.Mikilvægt er að hver og einn sé búinn að þarfagreina hvert hann stefnir á vinnumarkaði áður en hann velur sér námskeið. Þannig vinnur þetta best saman.

Hlúð að sjálfum sér:

Hvað þýðir það að hlúa að sjálfum sér?

Af hverju á maður að hlúa að sjálfum sér?

Að hlúa að sjálfum sér þýðir að þú gefur þér svigrúm að hlusta eftir eigin líðan og gerir það sem lætur þér líða betur. Það þarf ekkert alltaf að vera flókið. Prjóna? Hringja í vin? Fara út í göngutúr? Bóna bílinn? Hlusta á tónlist?

Þegar okkur líður vel þá tökum við skymsamlegri ákvarðanir og yfirvegaðri og erum betri í samskiptum svo það er sannanlega eftir ýmsu að slægjast með því að láta sér líða betur.

Nú eru erfiðir tímar sem reyna á okkur öll og því mjög mikilvægt að hlúa að sér.  

Á erfiðum tímum þurfum við öll meiri stuðning. Verum því sérstaklega nærgætin hvert við annað.

Hér koma nokkar hugmyndir sem geta hjálpað:

 • Haltu í rútínuna s.s. fara á fætur, borða reglulega, hreyfa sig, sinna áhugamálum.
 • Ekki vera mikið einn. Nú er rétti tíminn að heyra í aldraðri frænku þinni, heyra í fjarskyldum frænda o.s.frv. Hjálparsími Rauða krossins er 1717 og netspall á 1717.is þar sem hægt er að leita ráða og óska eftir símavin.
 • Það er hollt að halda dagbók.
 • Skrifaðu niður þrennt sem var ánægjulegt í dag. Gerðu þetta í alla vega viku.
 • Skrifaðu daglega niður þrennt sem þú ert þakklát/ur fyrir. Gerðu þetta í alla vega viku.
 • Hverju hefur þú stjórn á í erfiðum aðstæðum? Einbeittu þér að þeim hlutum. T.d. eigin viðhorfi, slökktu á fréttum, týndu þér við eitthvað verkefni heima við, vertu góður við einhvern.
 • Gerðu áætlun. Hvað ætlar þú að gera næstu daga. Það hjálpar að gera dagskrá.
 • Ekki reyna að vera fullkomin. Þakkaðu fyrir það sem þú hefur. Enginn hefur allt. Enginn hefur ekkert.

 

Þú stýrir ekki atburðum lífsins en þú stýrir hugsunum þínum og hvernig þú ákveður að takast á við hlutina

 

Gleymdu því ekki að þú ert ágætu/ur en auðvitað má maður alltaf þjálfa sig í að verða betri. Við viljum öll vaxa, vera metin, finna fyrir öryggi og hlakka til framtíðarinnar.


Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni