Ábyrgð sjóðsins til greiðslu

Vangoldin laun og bætur vegna launamissis í uppsagnarfresti.

Sjóðurinn ábyrgist greiðslu vangoldinna vinnulauna þrjá síðustu starfsmánuði fyrir gjaldþrotaúrskurð vinnuveitenda og falla innan ábyrgðartímabils.  Til vinnulauna teljast greiðslur vegna umsamins vinnuframlags launamanns, þ.á.m. launauppbætur, í hlutfalli við þann tíma sem krafa nýtur ábyrgðar sjóðsins. 

Sjóðurinn ábyrgist einnig kröfur launamanna um bætur vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi eða í uppsagnarfresti.  Forsenda ábyrgðar sjóðsins er að atvinnurekandi hafi verið úrskurðaður gjaldþrota.

Hámarksábyrgð Ábyrgðasjóðs launa vegna vangoldinna launa eða bóta vegna slita á ráðningarsamningi, sem falla í gjalddaga eftir 1. júlí 2018, er 633.000 kr. fyrir hvern mánuð. 

Hafi atvinnurekandi greitt upp í launakröfurnar fyrir gjaldþrotaúrskurð koma þær greiðslur til frádráttar.  Á sama hátt koma greiddar atvinnuleysisbætur og atvinnutekjur á uppsagnarfresti til frádráttar kröfum um bætur vegna launamissis í uppsagnarfresti.

Vangoldin lífeyrisiðgjöld

Ábyrgðasjóður launa ábyrgist kröfu lífeyrissjóðs um lífeyrissjóðsiðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir úrskurðardag.  Heimilt er að miða við frestdag ef sú niðurstaða er hagstæðari fyrir kröfuhafa.

Ábyrgðin takmarkast við 12% lágmarksiðgjald og allt að 4% viðbótarlífeyrissparnað samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd og ákvæði í kjarasamningum.

Vangoldið orlof

Launamenn eiga rétt á greiðslu áunnins orlofs sem fallið hefur í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir gjaldþrotaúrskurð vinnuveitenda. 

Hámarksábyrgð á greiðslu áunnina orlofslauna er kr. 1.014.000-

Bætur vegna vinnuslysa

Ábyrgðasjóður launa ábyrgist kröfu launamanns um bætur vegna tjóns af völdum vinnuslyss og kröfu þess sem á tilkall til bóta vegna dauðsfalls launamanns, í þeim tilvikum þar sem tryggingar vinnuveitanda ná ekki til bótakröfunnar.


Orlof vegna greiðsluerfiðleika

Ábyrgðasjóður launa ábyrgist greiðslu orlofslauna skv. lögum nr. 30/1987 í þeim tilvikum sem vinnuveitandi hefur ekki staðið skil á greiðslu þeirra, án þess þó að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.  Ábyrgð sjóðsins nær til greiðslu orlofs sem unnist hefur verið til á síðustu 18 mánuðum.

Launamenn sjálfir eða stéttarfélög í umboði þeirra geta sótt um greiðslu orlofslauna á þar til gerðu eyðublaði (orlofslaunakrafa).  Greiðslan er háð staðfestingu réttmætis kröfunnar og að ekki hafi verið gerð krafa um gjaldþrotaskipti.  Standi ekkert í vegi fyrir greiðslu kröfunnar tekur að öllu jöfnu um fjórar til fimm vikur að fá hana afgreidda.

Ábyrgð án gjaldþrotaskipta

Stjórn Ábyrgðasjóðs launa er heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að ábyrgjast kröfur án undangenginna gjaldþrotaskipta á búi vinnuveitanda, liggi fyrir að vinnuveitandi hafi sannanlega hætt rekstri og tilraunir kröfuhafa til að koma fram gjaldþrotaskiptum hafi ekki borið árangur eða að kostnaður við að koma fram gjaldþroti yrði að mati sjóðsstjórnar óeðlilega mikill.  

 
Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu