Breytingar á lögum um útsenda starfsmenn, starfsmannaleigur o.fl.

Þann 8. júní sl. samþykki Alþingi breytingar á lögum um útsenda starfsmenn, lögum um starfsmannaleigur, lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um vinnustaðaskírteini (Lög nr. 75/2008). Breytingin er liður í því að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2014/67/ESB vegna útsendra starfsmanna, að tryggja réttindi erlendra starfsmanna sem starfa hér á landi fyrir erlend þjónustufyrirtæki og starfsmannaleigur og að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar heimildir til að stofnunin geti sinnt eftirliti sínu með framangreindum lögum.

Um nokkuð umfangsmikið lagafrumvarp er að ræða og í meðfylgjandi skjali má nálgast samantekt frá Vinnumálastofnun um helstu breytingarnar sem samþykktar voru. Verða hér því einvörðungu nefndar þær veigamestu. Enn fremur er að finna neðst í frétt þessari tengla á uppfærð lög þar sem lagabreytingarnar hafa verið færðar inn í lögin. Ekki er um að ræða opinbera útgáfu á lögunum svo gæta verður að hugsanlegum villum í þeim við lestur þeirra.

Lög nr. 45/2007 um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda

Gildissvið laganna er breytt á þann veg að nú gilda lögin um alla erlenda þjónustuveitendur sem hafa staðfestu í öðru EES-ríki, EFTA-ríki eða Færeyjum og senda starfsmann hingað til lands til að veita þjónustu. Ekki er lengur gerð krafa um að þjónustufyrirtækið þurfi að vera að veita öðru fyrirtæki hér á landi þjónustu heldur er eingöngu krafa um að starfsmaður þess sé sendur hingað til lands. Þarf því ekki lengur að liggja fyrir þjónustusamningur við tiltekið notendafyrirtæki líkt og var. Jafnframt gilda lögin nú einnig um sjálfstætt starfandi einstaklinga sem koma hingað til lands til að veita þjónustu. Frá og með 1. ágúst nk. er þeim skylt að tilkynna sig til Vinnumálastofnunar veiti þeir þjónustu hér á landi lengur en í tíu virka daga á tólf mánaða tímabili.

Skylda er lögð á erlend þjónustufyrirtæki að hafa tiltæka launaseðla, vinnutímaskýrslur og staðfestingar á launagreiðslum meðan það starfar hér á landi og í mánuð eftir að starfsemi þess lýkur. Óski Vinnumálastofnun eftir afriti af framangreindum gögnum skulu þau afhent innan tveggja virkra daga frá því að beiðni stofnunarinnar er lögð fram. Enn fremur geta aðilar vinnumarkaðarins eða hlutaðeigandi stéttarfélag óskað eftir afriti af framangreindum gögnum og ráðningasamningum ef grunur leikur á að um brot á gildandi kjarasamningum sé að ræða.

Í lögunum er nú kveðið á um óskipta ábyrgð notendafyrirtækis í byggingar- og mannvirkjagerð vegna starfsmanna erlends þjónustufyrirtækis sem starfa hér á landi og veitir því þjónustu. Nær ábyrgðin til annarra hugsanlegra erlendra þjónustufyrirtækja sem samið er við neðar í keðjunni. Er því um að ræða svokallaða keðjuábyrgð. Ábyrgðin nær til vangoldinna lágmarkslauna, annarra launaþátta, yfirvinnulauna, launa í veikinda- og slysatilvikum og launatengdra gjalda hér á landi. Ítarlega er mælt fyrir um tímafresti, verklag og undanþágu frá ábyrgð vegna þessa í nýjum 11. gr. a og 11. gr. b í lögunum.

Hámarksfjárhæð dagsekta er hækkuð úr 100.000 kr. í eina milljón króna sem og að ítarlegra er mælt fyrir um hvernig standa skuli að töku slíkrar ákvörðunar. Enn fremur hefur Vinnumálastofnun nú heimild til að leggja á stjórnvaldssektir á erlend þjónustufyrirtæki eða sjálfstætt starfandi einstaklinga sem veita ekki upplýsingar og/eða aðgang að gögnum líkt og þeim er skylt samkvæmt lögunum eða ef framangreindir aðilar veita stofnuninni rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Ekki er gerð krafa um að sýna þurfi fram á ásetning eða gáleysi til að stofnuninni sé heimilt að beita heimildinni. Sambærileg ákvæði er að finna í lögum um starfsmannaleigur.

Lög nr. 139/2005 um starfsmannaleigur

Eftir 1. ágúst nk. er starfsmannaleigum skylt að veita ítarlegri upplýsingar en í dag. Verður þeim skylt að hafa tiltæka launaseðla, vinnutímaskýrslur og staðfestingar á launagreiðslum meðan starfsmannaleigan er starfrækt og mánuð eftir að starfsemi hennar lýkur. Enn fremur geta aðilar vinnumarkaðarins eða hlutaðeigandi stéttarfélag óskað eftir afriti af framangreindum gögnum og ráðningasamningum sé til staðar grunur um brot á gildandi kjarasamningum.

Kveðið er á um óskipta ábyrgð notendafyrirtækis vegna starfsmanna starfsmannaleigna sem starfa hjá fyrirtækinu. Ber notendafyrirtækið ábyrgð á vangoldnum launum þessara starfsmanna og þurfa notendafyrirtæki sérstaklega að gæta að því að launakjör starfsmannaleigustarfsmanna séu ekki lakari en þau launakjör sem starfsmaðurinn myndi njóta hefði hann verið ráðinn beint til notendafyrirtækisins. Sé mismunur þar á ber notendafyrirtækið ábyrgð á þeim launamismun. Ítarlega er mælt fyrir um tímafresti, verklag og undanþágu frá ábyrgð vegna þessa í nýjum 4. gr. b og 4. gr. c í lögunum.

Hámarksfjárhæð dagsekta er hækkuð úr 100.000 kr. í eina milljón króna sem og að ítarlegra er mælt fyrir um hvernig standa skuli að töku slíkrar ákvörðunar. Sambærilegar breytingar og á lögum nr. 45/2007.

Lög nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga

Frá og með 1. ágúst nk. er útlendingum frá ríkjum utan EES skylt að tilkynna sig til Vinnumálastofnunar komi þeir hingað til lands í þeim tilgangi að starfa í skemmri tíma en 90 daga og telji þeir að undanþágureglur 23. gr. laganna eigi við um störf þeirra.

Lög nr. 42/2010 um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum

Hámarksfjárhæð dagsekta er hækkuð úr 100.000 kr. í eina milljón króna sem og að ítarlegra er mælt fyrir um hvernig standa skuli að töku slíkrar ákvörðunar. Sambærilegar breytingar og á lögum nr. 45/2007.

Fylgiskjöl:

Ítarlegri samantekt um lagabreytingarnar

Lög nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga – vinnuskjal

Lög nr. 139/2005 um starfsmannaleigur – vinnuskjal

Lög nr. 45/2007 um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda - vinnuskjal

 
Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu