Synjun á bótarétti sjálfstætt starfandi einstklings
Nr. 20 - 2003

Úrskurður

 

Hinn 17. mars 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 20/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 10. febrúar 2003 að synja umsókn A dags. 17. janúar 2003, um atvinnuleysisbætur.  Í bréfi úthlutunarnefndar til A dags. 11. febrúar s.l. er ákvörðun nefndarinnar rökstudd með vísan til 11. gr. reglugerðar um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga., þar sem segir að þeir sem starfa hjá fyrirtæki sem þeir eiga hlut í og/eða stjórn skuli ekki á sama tíma eiga rétt á atvinnuleysisbótum.  Vísað er í upplýsingar frá Hagstofu Íslands dags. 30. janúar 2003 þar sem fram komi að A sé forráðandi X s.f.  

 

2.

A kærði ákvörðun út­hlutunar­nefndar til úr­skurð­ar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta með bréfi sem mótekið var hinn 17. febrúar 2003.  Í bréfinu segist hann hafa rekið lítið fyrirtæki í hellulögnum undanfarin tvö og hálft ár ásamt bróður sínum.  Hann hafi nýlega orðið verkefnalaus.  Verði það reyndar aðeins fram á vorið er hann sér fram á að fá verkefni.  Hann hafi aldrei ætlað sér að sækja um atvinnuleysisbætur, en eftir nokkra atvinnuleit og yfirsýn yfir vinnumarkaðinn hafi hann enga aðra kosti séð í stöðunni.  Hann hafi undanfarin ár þurft að skila tryggingagjaldi af launum sínum.  Þessi gjöld hafi verið ætluð til að verja hann ef þessi staða kæmi upp.   Hann þurfi að vera algjörlega tekjulaus fram á vor og finnst harkalegt ef hann er núna réttlaus.  Hann segist vona að mál sitt verði tekið til alvarlegar endurskoðunar. 

 

 

Niður­staða

 

1.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

 

Sam­kvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar nr. 12/1997 er fé­lags­mála­ráð­herra veitt heimild til að setja nánari reglur um hvaða skil­yrðum sjálf­s­tætt starf­andi einstaklingar skulu full­nægja til þess að njóta bóta úr sjóðnum. Segir í ákvæði þessu að m.a. skuli settar reglur um hvaða skil­yrðum menn verða að full­nægja til þess að teljast sjálf­s­tætt starf­andi og vera at­vinnu­lausir. Í 6. gr. reglu­gerðar nr. 740/1997 um bóta­rétt sjálf­s­tætt starf­andi einstaklinga úr At­vinnu­leysis­trygginga­sjóði segir orðrétt:

 

Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst vera atvinnulaus, þegar hann uppfyllir öll eftirtalin skilyrði:

1. Er hættur rekstri, sbr. 7. - 10. gr.,

2. hefur ekki tekjur af rekstri,

3. hefur ekki hafið störf sem launamaður,

4. er sannanlega í atvinnuleit og er reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa,

5. hefur tilkynnt lok rekstrarins til opinberra aðila, sbr. 7. gr.

 

            Í 7. gr. er kveðið á um að til að tilkynning um lok rekstrar teljist fullnægjandi þurfi hún að bera með sér að:

1.  Lok sjálfstæðrar starfsemi hafi verið tilkynnt launagreiðandaskrá Ríkisskattstjóra og

2.  virðisaukaskattskyldri starfsemi hafi verið hætt.

 

11. gr. reglugerðarinnar fjallar um þá sem starfa hjá fyrirtæki sem þeir eiga hlut í og stjórna.  Í greininni segir orðrétt:

Maður sem starfar við eigin atvinnurekstur, einn eða ásamt maka sínaum, eða við starfsemi s4em hann rekur í sameign með öðrum aðila eða sem fer fram á vegum lögaðila sem hann á jafnframt 50% eða meiri eignarhluta í og/eða er aðili að stjórnun fyrirtækisins, skal ekki á sama tíma eiga rétt á atvinnuleysisbótum.

 

Í 5. gr. reglugerðarinnar er orðuð sú meginregla að árstíðabundin stöðvun starfsemi eða tímabundin hlé vegna verkefnaskorts eða af öðrum ástæðum veiti sjálfstætt starfandi einstaklingum ekki rétt til atvinnuleysisbóta.

 

2.

 

            Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands er A forráðamaður og annar eigandi sameignarfélagsins X s.f.  Fyrirtækið er verktakafyrirtæki á sviði húsbygginga og annarar mannvirkjagerðar.   Samkvæmt upplýsingum frá skattstjóra er fyrirtækið með opið virðisaukaskattnúmer og námu tekjur kæranda hjá fyrirtækinu á árinu 2002 kr. 1.960.831.  Samkvæmt upplýsingum kæranda er um tímabundið verkefnaleysi að ræða og sér hann fram á að fá verkefni í vor.  Samkvæmt því sem að framan segir um skilyrði bótaréttar sjálfstætt starfandi einstaklinga er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að kærandi sé ekki atvinnulaus í skilningi laganna og að umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur uppfylli þar af leiðandi ekki skilyrði laga um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta.   Ber af þeim sökum að staðfesta úrskurð úthlutunarnefndar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

            Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 10. febrúar 2003 um synjun á umsókn S um atvinnuleysisbætur er staðfest.     

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Frið­jón Guðröðarson

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                            Benedikt Davíðs­son

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni