Ákvörðun um tvöfalda endurgreiðslu ofgreiddra bóta auk 2ja mánaða niðurfellingu bótaréttar felld úr gildi. Einföld endurgeiðsla ákveðin þess í stað þar sem vafi þykir leika á því hvort upplýsingaskyldu hafi verið nægilega sinnt.
Nr. 30 - 2004

Úrskurður

 

Hinn 26. maí 2004 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 30/2004.

 

Málsatvik og kæruefni

 

1.

 

Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 8. mars 2004 að X bæri að endurgreiða tvöfaldar ofgreiddar atvinnuleysisbætur með bótalausri skráningu hjá svæðisvinnumiðlun auk þess sem bótaréttur hennar var felldur niður í tvo mánuði að auki. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að komið hafði í ljós við samlestur Vinnumálastofnunar og gögn Ríkisskattstjóra að hún hafði þegið sjúkradagpeninga hjá Eflingu, stéttarfélagi, tímabilið 4. júní 2003 til 3. september 2003, eða í samtals 66 daga, samtímis því sem hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur.  Úthlutunarnefndin ákvað jafnframt að gefa X kost á að endurgreiða skuld sína við Atvinnuleysistryggingasjóð með bótalausri skráningu hjá svæðisvinnumiðlun í 172 bótadaga.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 þar sem segir að sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar um hagi sína missi rétt til bóta.  Fyrsta brot varði missi bóta í 2-6 mánuði en ítrekað brot missi bóta í 1-2 ár.  Einnig vísaði nefndin í 14. gr. reglugerðar nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta sbr. 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sem kveður á um heimild til skuldajöfnunar við Atvinnuleysistryggingasjóð með bótalausri skráningu hjá Vinnumiðlun að því tilskyldu að umsækjandi uppfylli skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um bótarétt.  Skulu bætur þá fyrst greiddar umsækjanda þegar skuld hans við Atvinnuleysistryggingasjóð er að fullu greidd.. 

 

2.

 

X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi mótt. 12. maí 2004. Í bréfinu, sem skrifað er af maka hennar fyrir hennar hönd, segir að vegna takmarkaðs skilnings hennar á íslenskri tungu og reglum um atvinnuleysisbætur hafi hún ekki gert sér grein fyrir því að ekki mætti þiggja sjúkradagpeninga og atvinnuleysisbætur samtímis.  Hún hafi einungis þegið sjúkradagpeninga tímabundið eftir slys við fiskvinnslu.  Bréfritari er þeirrar skoðunar að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta eigi að einhverju leyti að taka á sig ábyrgðina á að koma réttum upplýsingum til þeirra sem ekki skilja íslenskt tungumál.  Nú þegar hafi þessi niðurfelling á bótum valdið verulegum fjárhagsskaða í heimilishaldinu, og fer bréfritari fram á það fyrir hönd maka síns að atvinnuleysisbætur verði greiddar á ný sem fyrst.

 

3.

 

Í málinu liggur fyrir atvinnuumsókn X hjá vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins dags. 4. júní 2003.  Í umsókninni segir að hún tali sæmilega íslensku og ágæta ensku.  Samkvæmt staðgreiðsluútskrift frá Ríkisskattstjóra var hún í vinnu hjá Y til júní 2003 er hún sækir um atvinnuleysisbætur.  Í greiðslusögu úthlutunarnefndar kemur fram að hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur tímabilið 1. júní 2003 til 12. september 2003, samtals kr. 215.322.  Samkvæmt áætlunarblaði um tekjur þar sem spurt er um tekjur sem umsækjandi gerir ráð fyrir að hafa og X undirritaði þann 11. júní 2003 gerir hún ekki ráð fyrir að hafa neinar tekjur.  Á eyðublaðinu er ekki spurt beint um sjúkradagpeninga, en spurt er um lífeyri frá lífeyrissjóðum.

 

 

Niður­staða

 

1.

 

Lög um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 byggja á þeirri forsendu sbr. 1. gr. laganna að þeir einir eigi rétt á atvinnuleysisbótum sem eru án atvinnu enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

Í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta.  Einnig segir að fyrsta brot varði missi bóta í 2-6 mánuði en ítrekað brot varði missi bóta í 1-2 ár. 

Í 2. mgr. 27. gr. laganna segir orðrétt:  Nú hefur maður aflað sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 15. gr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.

Í 14. gr. reglugerðar nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta segir:  Nú á Atvinnuleysistryggingasjóður útistandandi kröfu samkvæmt 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta þá heimilt að nota þá kröfu til skuldajöfnunar á móti atvinnuleysisbótum að því tilskildu að umsækjandi uppfylli skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um bótarétt.  Skulu þá bætur fyrst greiddar umsækjanda þegar skuld hans við Atvinnuleysistryggingasjóð er að fullu greidd. 

 

           

2.

 

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi þáði sjúkradagpeninga að fjárhæð kr. 215.322 samtímis því að hann þáði atvinnuleysisbætur. Kærandi upplýsti vinnumiðlun ekki um þessar tekjur þrátt fyrir að hafa undirritað yfirlýsingu um að hann gerði ekki ráð fyrir að verða með neinar tekjur.  Fram kemur í umsókn kæranda hjá svæðisvinnumiðlun um atvinnu og atvinnuleysisbætur að hann talar sæmilega íslensku og góða ensku.  Kærandi hafði lent í vinnuslysi og fékk greidda sjúkradagpeninga frá stéttarfélagi sínu í þrjá mánuði.  Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er það skilyrði bótaréttar að umsækjandi sé fullfær til vinnu.  Kærandi virðist ekki hafa uppfyllt þetta skilyrði.  Kærandi er erlendur ríkisborgari sem talar ekki góða íslensku.  Kærandi var ekki boðaður á kynningarnámskeið svæðisvinnumiðlunar um skilyrði réttar til atvinnuleysisbóta vegna tungumálaörðugleika.  Vafi þykir leika á að upplýsingaskyldu hafi verið nægilega sinnt gagnvart kæranda.  Með tilliti til þessa er það álit úrskurðarnefndar að fella beri ákvörðun úthlutunarnefndar um tvöfalda endurgreiðslu ofgreiddra bóta auk tveggja mánaðar niðurfellingu bótaréttar úr gildi.  Kæranda ber þess í stað að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði einfaldar ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 215.322 með bótalausri skráningu hjá svæðisvinnumiðlun með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysisbætur sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta.

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 8. mars 2004 um að X beri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði tvöfaldar ofgreiddar atvinnuleysisbætur auk niðurfellingar bótaréttar í tvo mánuði með bótalausri skráningu í 172 daga er felld úr gildi.   Í stað þess ber henni að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði einfaldar ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 215.322 með bótalausri skráningu hjá vinnumiðlun með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 12/1997 sbr. 14. gr. rgl. nr. 545/1997.

 

 

Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta

 

 

Linda Björk Bentsdóttir

Formaður

 

 

Árni Benediktsson                                 Benedikt Davíðsson

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni