Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga vegna fjarvista frá starfsleitarnámskeiði. Fellt úr gildi. Bótaþegi talinn hafa mátt ætla að um lögmætar fjarvistir væri að ræða. Vægi hagsmuna. Meðalhófsregla.
Nr. 33 - 2004

Úrskurður

 

Hinn 26. maí 2004 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 33/2004.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

            Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta fyrir Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga ákvað á fundi sínum þann 26. apríl 2004, að réttur X til atvinnuleysisbóta skyldi falla niður í 40 bótadaga á grundvelli 16. gr. laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga sbr. 4. tölul. 8. gr. sömu laga.  Vísað var til þess að X hefði ekki sótt námskeið á vegum svæðisvinnumiðlunar sem hann hafði verið boðaður á.

 

2.

 

            Framangreind ákvörðun úthlutunarnefndar var kærð með bréfi lögmanns X dags. 12. maí 2004.  Í bréfinu segir að X sé fyrrum bóndi.  Hann hafi hætt búrekstri á jörðinni Y og í kjölfarið sótt um bætur og fengið úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga.  Með bréfi dags. 9. mars hafi hann verið boðaður á námskeiðið Styrkari-hæfari-vísari af forstöðumanni Svæðisvinnumiðlunar Austurlands.  Kennsla á námskeiðinu hafi farið fram dagana 15., 16. og 22. mars 2004 á Höfn.  X hafi mætt á námskeiðið þann 15. mars en boðaði lögmæt forföll hina tvo dagana.  Hafi hann vegna þeirra sérstaklega haft samband við Z, umsjónarmann námskeiðsins og tilkynnt honum að honum væri ófært að mæta af nánar tilgreindum ástæðum og hafi Z tjáð honum að ástæður hans teldust lögmæt forföll.  Ástæða þess að X var ófært að mæta á námskeiðið var annars vegar afhending á dráttarvél vegna sölu sem nauðsynlega þurfti að fara fram þann 16. mars. 2004.  Hins vegar þurfti X að vera á jörð sinni vegna verðmats fasteignasala á jörðinni í tengslum við fyrirhugaða sölu hennar.

            Úthlutunarnefnd tilkynnti X með bréfi dags. 1. apríl 2004 að vegna fjarveru hans frá námskeiðinu kæmi til greina að skerða bótarétt hans og var honum jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um málavexti.  X útskýrði lögmæt forföll sín í ódagsettu bréfi til úthlutunarnefndar Austurlands.  Með bréfi úthlutunarnefndar Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga var X síðan tilkynnt sú ákvörðun sjóðsins að fella niður bótarétt hans í 40 bótadaga.   

 

Samkvæmt kæru lögmanns X boðaði hann lögmæt forföll á umrætt námskeið.  Á þessum tíma var hann að vinna í sölu á jörð sinni og vinnuvélum og fleiru og þurfti nauðsynlega að sinna erindum í þágu þess.  Jafnfram hafi hann tilkynnt umsjónarmanni námskeiðsins umrædd forföll sem hafi fallist á að þau teldust lögmæt.  X hafi því verið í góðri trú um að fjarvistir hans myndu ekki hafa skerðingu bótaréttar í för með sér.  Verði einnig að telja Svæðisvinnumiðlun Austurlands bundna af ummælum umsjónarmanns námskeiðsins um að forföll hans teldust lögmæt, en slíka reglu megi leiða af 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um birtingu stjórnvaldsákvarðana.

            Í öðru lagi er bent á að X hafi mætt einn dag af þremur á námskeiðið og sé því vandséð hvernig hægt sé að komast að þeirri niðurstöðu að hann hafi hafnað umræddu úrræði í skilningi 16. gr. laga nr. 46/1997 um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga.  Við skýringu greinarinnar verði sömuleiðis að hafa í huga þá almennu lögskýringareglu, að þegar teknar séu íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir beri að túlka lagagrundvöll þeirra borgurunum í hag.

            Í þriðja lagi verði að líta til þess að ákvæði 16. gr. laganna felur ekki í sér fortakslausa skyldu til að fella niður bótagreiðslur einstaklings sem t.d. hafnar úrræðum svæðisvinnumiðlunar.  Ákvæðið kveði aðeins á um a slík háttsemi geti valdið missi bótaréttar.  Því sé 16. gr. heimildarákvæði en ekki skylduákvæði.  Í ljósi þessa sé það hlutverk viðkomandi úthlutunarnefndar að meta hverju sinnu hvort skilyrði sviptingar séu fyrir hendi.  Ekki verði sé að slíkt mat hafi farið fram í máli X heldur virðist vera beitt þeirri fortakslausu vinnureglu að fella niður bótarétt þeirra sem á einhvern hátt taka ekki þátt í þeim úrræðum sem þeim er gert að taka þátt í af viðkomandi vinnumiðlun.  Slík háttsemi brjóti gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um skyldu stjórnvalds til skyldubundins mats.

            Í fjórða lagi er byggt á því að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga.  Ekki verði séð af málsmeðferð úthlutunarnefndar að gætt hafi verið að því að velja það úrræði sem vægast var fyrir X,  t.d. aðvörun, tiltal eða að senda hann á annað námskeið.  Í ljósi þess að X hafi sótt hluta námskeiðsins og boðað lögmæt forföll sé ljóst að óheimilt hafi verið að grípa til svo harkalegra og íþyngjandi aðgerða og gert var, þ.e. sviptingu bótaréttar í 40 bótadaga.

 

 

3.

 

Í máli þessu liggur fyrir að X mætti einn dag af þremur á námskeið samkvæmt starfsleitaráætlun.  Samkvæmt boðun frá Svæðisvinnumiðlun Austurlands dags. 9. mars s.l. til X átti hann að mæta á námskeiðið Styrkari-hæfari-vísari, sem er 30 kennslustunda námskeið í sjálfstyrk og lífsleikni, dagana 15., 16. og 22. mars 2004. Þann 15. mars var kennslutíminn kl. 13:00 til 16:30 en hina dagana stóð kennslan yfir frá kl. 9:00 á morgnana til 16:30 á síðdegis.   Samkvæmt forstöðumanni svæðisvinnumiðlunar mætti X fyrstu 3 klst. námskeiðsins en fór svo og kom ekki meira.  Með bréfi dags. 1. apríl var X tilkynnt að fjarvist frá starfsleitarnámskeiði geti valdið missi bótaréttar og honum gefin kostur á að tjá sig skriflega um málavexti.  Samkvæmt ódagsettu bréfi X til úthlutunarnefndar mætti hann á námskeiðið þann 15. mars.  Í bréfinu segist hann vera að selja jörðina Y ásamt vélum og tækjum tengdum búskap.  Þennan dag þurfti hann fara að Y og ná í dráttarvél sem hann var búinn að selja og átti að setja á flutningabíl daginn eftir.  Umsjónarmaður námskeiðsins hafi talið í lagi að hann færi aðeins fyrr og sinnti þessu.  Bíllinn hafi átt að vera á Höfn rétt fyrir hádegi daginn eftir, en kom ekki fyrr en kl. 16.  Þann 22. mars átti hann von á fasteignasala til að skoða og meta jörðina og gat hann ekki mætt þann dag og lét hann umsjónarmanninn vita. 

Haft var samband við Z námsráðgjafa og umsjónarmann mámskeisins.  Hann sagði að X hefði staðið í því námskeiðsdagana að selja og afhenda til flutnings dráttarvél upp á tvær milljónir. Honum hafi fundist í lagi að X færi aðeins fyrr fyrsta daginn þar sem um svo brýna hagsmuni var að ræða, en X þurfti að ná í dráttarvél á jörð sína sem hann var búinn að selja og átti að athenda daginn eftir. Að morgni annars dags, þann 16. mars, kom X á námskeiðsstað eftir að hafa árangurslaust reynt að ná sambandi við hann símleiðis kvöldið áður og bað aftur um frí. Hann þurfti að að afhenda dráttarvélina og setja upp á flutningabíl sem væntanlegur var rétt fyrir hádegi. Umsjónarmaðurinn sagðist hafa sagt X að hann yrði að hafa samband við svæðisvinnumiðlun varðandi leyfi.  Samkvæmt umsjónarmanninum tjáði hann X jafnframt að hann áliti þetta vera gilda ástæða til að losna undan námskeiðinu þar sem um svo brýna hagsmuni væri að ræða.  X hafði einnig samband við hann fyrir 22. mars og tilkynnti forföll þar sem hann þyrfti að vera á jörð sinni vegna fyrirhugaðrar sölu á jörðinni og komu matsmanns frá fasteignasölu þann dag.

 

 


Niður­staða

 

1.

 

Í IV. kafla reglugerðar nr. 670/1998 um vinnumarkaðsaðgerðir er kveðið á um skyldur atvinnuleitanda samkvæmt starfsleitaráætlun. Í 13. gr. segir að markmið með gerð starfsleitaráætlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, sé að aðstoða atvinnuleitanda við að finna starf við sitt hæfi. Skal starfsleitaráætlun vera með þeim hætti að þegar atvinnuleitandinn fylgir henni aukist líkur hans á að fá vinnu.  Samkvæmt 16. gr. reglugerðarinnar skal atvinnuleitandi sem er með samþykkta starfsleitaráætlun vera reiðubúinn að taka tilboði um atvinnu þegar hún býðst ef hann er ekki í sérstökum úrræðum samkvæmt starfsleitaráætlun.  Skylda þessi nær einnig til þess að taka þátt í námskeiðum sem hann er boðaður á af svæðisvinnumiðlun.  Í 14. gr. segir að samkomulag um starfsleitaráætlun skuli útfæra sem skriflegan samning milli aðila. 

 

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997 getur það valdið missi bótaréttar ef sá sem skráður er atvinnulaus tekur ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar á vegum svæðisvinnumiðlunar eða fylgir ekki slíkri áætlun, þar á meðal hafnar úrræðum svæðisvinnumiðlunar um nám eða starfsþjálfun skv. e. lið 1. mgr. 10. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Um missi bótaréttar gilda ákvæði 4. tölul. 8. gr. laga nr. 46/1997.

 

2.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mætti kærandi á einn dag af þremur á starfsleitarnámskeið sem hann hafði verið boðaður á af svæðisvinnumiðlun.  Samkvæmt umsjónarmanni námskeiðsins lagði kærandi sig fram við að ná sambandi við hann og tilkynna honum að hann gæti ekki mætt á allt námskeiðið þar sem hann hann þurfti að sinna sölu jarðar sinnar og búvéla.  Þó umsjónarmaður námskeiðsins hafi tjáð kæranda að hann mætti ekki sjálfur gefa fjarvistarleyfi frá námskeiðinu þá tjáði hann honum jafnframt að hann áliti að um gildar ástæður til fjarvistarleyfa væri að ræða.  Að teknu tilliti til þessa, svo og þess að kærandi hafði töluvert fyrir því að tilkynna forföll sín fyrirfram, er það mat úrskurðarnefndar að kærandi hafi mátt líta svo á að hann hefði gilda ástæðu til að ætla að honum væri heimil fjarvera frá hluta starfsleitarnámskeiðis sem hann hafði verið boðaður á, án þess að til niðurfellingar bótaréttar kæmi.  Varðandi hagsmuni þá sem veði voru ber einnig að líta á það að um var að ræða annars vegar sölu kæranda á  lífsafrakstri sínum upp á tugi milljóna og hins vegar þátttaka hans í námskeiði í eflingu sjálfstyrks og lífsleikni, að töluverðum hluta í þjálfun á tjáningu, til að styrkja hann í atvinnuleitinni.  Samkvæmt ofangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar að fella beri úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga.

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga frá 26. apríl 2004 um að X skuli sæta niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga með vísan til 16. gr. sbr. 4. tölu. 8. gr. laga nr. 46/1997 er felld úr gildi.

 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

 

Árni Benedikts­son                                 Benedikt Davíðs­son

 

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni