Bótaréttur einstaklings í fjarnámi sem telst fullt háskólanám
Nr. 48 - 2004

Úrskurður

 

Þann 8. desember 2004 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 48/2004.

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta fyrir Vestfirði ákvað á fundi sínum þann 26. október 2004, að hafna umsókn A um atvinnuleysisbætur frá 29. september 2004. Úthlutunarnefndin tók ákvörðun sína með vísan til 5. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997, sem kveður á um að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi sem stundað er á venjulegum dagvinnutíma nema annað leiði af samningi um starfsleitaráætlun, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir.  Úthlutunarnefndin vísaði til þess að lánshæft fjarnám teljist jafngilda námi samkvæmt nefndu ákvæðu og benti umsækjanda á að snúa sér til Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna framfærslu á meðan á námi stendur.

 

2.

A kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 2. nóvember 2004.  Í bréfi sínu krefst hún þess að ákvörðun þessi verði felld úr gildi.    Hún hafi stundað 75% fjarnám s.l. þrjú ár samhliða 70-100% starfi og námið sé þess vegna alfarið utan dagvinnutíma.  5. gr. reglugerðar nr. 545/1997 hafi ávallt verið túlkuð svo að um tímasókn á venjulegum dagvinnutíma þurfi að vera svo greinin eigi við.  Þannig falli nám sem stundað er í kvöldskóla og nám utan venjulegs dagvinnnutíma utan greinarinnar.  Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé hvergi bókstafur um það að lánshæft fjarnám komi í veg fyrir rétt á atvinnuleysisbótum og því telji hún sig eiga fullan rétt á þeim. 

 

3.

Í gögnum málsins liggur fyrir vottorð frá Kennaraháskóla Íslands, dags. 1. desember 2004.  Samkvæmt því er A skráður nemandi við skólann skólaárið 2004-2005 í fullt fjarnám sem er 11 einingar á misseri eða 75% nám.  Staðfest er að A hafi sótt um námslán fyrir haustönn 2004 og vorönn 2005.

Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna er fjarnám í háskóla  lánshæft að fullu ef námið nær 75% af fullu námi. Sama hlutfall gildir um venjulegt háskólanám  ef námið gefur 75% af 15 einingum á önn sem telst fullt nám.  Varðandi BA ritgerðir eða aðrar lokaritgerðir gilda sérreglur, s.k. námslokareglur.  Slíkt nám er lánshæft í hlutfallslega í samræmi við þann einingafjölda sem ritgerðin gildir.  Þannig veitir 6 eininga BA ritgerð rétt á 40% láni og 8 eininga ritgerð rétt á 53% láni, burtséð frá því hvort um tímasókn er að ræða eða ekki. 

Tvö vinnuveitandavottorð liggja fyrir.  Samkvæmt vottorði frá X dags. 4. október 2004 starfaði A sem þjónustufulltrúi í 100% starfshlutfalli tímabilið 21. maí 2004 til 24. september 2004.  Um tímabundna ráðningu var að ræða.  Samkvæmt vottorði frá Z dags. 4. október 2004  starfaði A sem leiðbeinandi í grunnskóla tímabilin 28. janúar til 16. apríl 2002 í 100% starfshlutfalli, 1. ágúst 2002 til 31. júlí 2003 í 70% starfshlutfalli, og 1. ágúst 2003 til 31. júlí 2004 í 67,86% starfshlutfalli.  Um tímabundna ráðningu var að ræða.

Í bréfi A til úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta á Vestfjörðum dags. 15. október 2004 kemur fram að hún hefur sótt um lán hjá LÍN vegna námsins.  75% nám sé lágmarkshlutfall sem til þurfi til að eiga rétt á námsláni.  Ef hún nái þessu lágmarki um áramót 2004-2005 muni hún fá lán.  Hún væri að sækja um atvinnuleysisbætur þar sem hún sæi ekki fram á að nú næði að ljúka tilskyldu námi fyrir áramót þar sem verkfall stæði enn yfir og ekki útlit fyrir að hún fengi námslán, þar sem hún yrði að ljúka vettvangsnámi í grunnskólanum á þessari önn og yrði vettvangsnáminu mögulega frestað fram yfir áramót vegna verkfallsins.  Enginn ráðningarsamningur hefði verið gerður við hana þar sem hún sæi einungis um forfallakennslu.  Samkvæmt tölvubréfi frá A dags. 15. nóvember s.l. byrjaði hún í fullu starfi við grunnskóla Z þann 16. nóvember og hætti þar með að skrá sig.

 

 

 

Niður­staða

 

1.

Í 5. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 er kveðið á um að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi sem stundað er á venjulegum dagvinnutíma, nema annað leiði af samningi um starfsleitaráætlun, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir.

Í VI. kafla reglugerðar um vinnumarkaðsaðgerðir nr. 670/1998 er kveðið á um úrræði á vegum svæðisvinnumiðlunar.  22. gr. fjallar um nám og námskeið. Í 2. mgr. 22. gr. er sett það skilyrði að til að mega stunda nám og þiggja atvinnuleysisbætur á sama tíma verður nám atvinnuleitanda að vera byggt á starfsleitaráætlun sem svæðisvinnumiðlun hefur gert við atvinnuleitanda. 

Samkvæmt 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir nr. 13/1997 skal svæðisvinnumiðlun gera starfsleitaráætlun við hvern einstakan atvinnuleitanda.  Heimild til náms á dagvinnutíma samhliða atvinnuleysisbótum er jafnframt bundin við lengd þess tíma sem atvinnuleitandi hefur verið atvinnulaus og á bótum.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar er skilyrði að atvinnuleitandi hafi verið atvinnulaus og á bótum í a.m.k. 6 mánuði samfellt áður en hann hefur nám.  Sýnt verður að þykja að hann fái ekki starf við hæfi.  Að þessum skilyrðum uppfylltum er atvinnuleitanda heimilt að stunda nám, að því tilskyldu að gerð hafi verið starfsleitaráætlun þar um, á dagvinnutíma sem í heild varir ekki lengur en þrjá mánuði og þiggja atvinnuleysisbætur á sama tíma.

Til að uppfylla skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar verður atvinnuleitandi að hafa verið atvinnulaus og á bótum í a.m.k. eitt ár samfellt áður en hann hefur nám.  Er honum þá heimilt að stunda nám sem samkvæmt ákvörðun starfsráðgjafa telst raunhæf starfsmenntun, endurmenntun eða endurhæfing atvinnuleitandans.  Miða skal við að ljóst megi vera samkvæmt mati starfsráðgjafa að námið auki verulega líkur á því að atvinnuleitandi fái starf við sitt hæfi.  Í þessu tilviki getur atvinnuleitandi haldið óskertum bótum allt að einni önn í viðurkenndu starfsnámi og ef hann lýkur því námi getur hann tekið aðra önn á hálfum bótum.

 

 

 2.

 

            Kærandi stundar 75% fjarnám við Kennaraháskóla íslands og hefur sótt um námslán hjá LÍN.  Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna er fjarnám í háskóla  lánshæft að fullu ef námið nær 75% af fullu námi. Sama hlutfall gildir um venjulegt háskólanám  ef námið gefur 75% af 15 einingum á önn sem telst fullt nám.  Kærandi sótti um námslán skólaárið 2004-2005

Samkvæmt meginreglu laga um atvinnuleysistryggingar sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 545/1997 er það ekki hlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs að fjármagna háskólanám nemenda,  samanber þó það sem að ofan segir í lögum og reglugerð um Vinnumarkaðsaðgerðir um heimild til þriggja mánaða eða einnar annar nám eftir ákveðinn tíma á bótum sem samræmist gerðri starfsáætlun hjá svæðisvinnumiðlun.  Nemendur geta þannig ekki valið þá hagstæðu leið að þiggja fremur óendurkræfar atvinnuleysisbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til að fjármagna nám sitt í stað þess að taka endurkræft lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna eða fjármagna nám sitt á annan hátt.

 

 Með vísan til ofangreinds er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysis­bóta fyrir Vestfirði um synjun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur með vísan til 5. gr. rgl. 545/1997 og meginreglu laga um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir.

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta fyrir Vestfirði frá 26. október 2004 um synjun á umsókn A um atvinnuleysisbætur er staðfest með vísan til 5. gr. rgl. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                 Benedikt Davíðs­son

 

 

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni