Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga vegna starfsloka felld úr gilldi. Bótaréttur hins vegar felldur niður vegna óvinnufærni.
Nr. 3 - 2006

Úrskurður

 

Þann 13. janúar 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 3/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum sem haldinn var þann 31. október 2005 að réttur X til atvinnuleysisbóta skyldi falla niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði frá 25. október sl. um starfslok X hjá L.

 

2.

X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi 8. nóvember 2005.   Í bréfinu segist hún hafa sagt upp störfum á L vegna breytinga sem urðu á líkamsástandi hennar eftir að hún byrjaði að vinna þann 15. september 2005.  Þegar hún hafi hafið störf hafi hún verið vel vinnufær og við góða heilsu.  Þar sem hún hafi verið vanfær hafi hún gert samning við forstöðukonuna um að hún þyrfti ekki að lyfta þungu.  Þegar hún hafði unnið í tvær vikur fór hins vegar að bera meira á verkjum við líkamlega vinnu og í byrjun október hafi komið í ljós að hún þjáðist af gindargliðnun.   Þetta ástand hafi versnað og hún hafi eingöngu verið fær um að vinna kyrrsetuvinnu.  Starfið á L hafi hins vegar ekki verið þannig starf og þess vegna hafi hún sagt starfi sínu lausu.

X sendi úrskurðarnefndinni annað bréf þann 16. nóvember sl. þar sem hún segist vilja breyta kæru sinni.  Í bréfinu segist hún vera orðin alls óvinnufær og að heilsa hennar hafi versnað jafnt og þétt síðan hún hætti störfum.  Ljóst sé orðið að hún hefði ekki getað unnið neina vinnu eftir að hún hætti á leikskólanum, ekki einu sinni létta vinnu eins og hún hafi áður talið.   Hún hafi verið meira og minna rúmliggjandi vegna grindargliðnunar og meðgönguverkja síðan hún hætti störfum.  Máli sínu til stuðnings vísar hún til læknisvottorðs dags. 16. nóv. 2005 þar sem fram kemur að  hún hafi verið óvinnufær frá 19. okt. 2005.  X segist af þeim sökum einungis fara fram á að niðurfelling bótaréttar í 40 bóta daga verði felld úr gildi þar sem hún hafi orðið að hætta vinnu vegna heilsubrests.  Hún segist sækja um að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá og með 19. október sem vinnufær manneskja í mjög létt starf.  

Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá L.  Þar kemur fram að X starfaði í 50% starfshlutfalli tímabilið 15. september til 19. október sl. sem leiðbeinandi.  Ástæða starfsloka er sögð sú að hún hafi þurft að hverfa frá vinnu vegna veikinda á meðgöngu.  Samkvæmt læknisvottorðum frá 21. okt. 2005 og 8. nóvember sl. var X illa vinnufær vegna veikinda á meðgöngu.  Þar er hún sögð fær til léttari vinnu sem feli ekki í sér neitt líkamlegt erfiði. Í læknisvottorði frá 16. nóvember sl. segir hins vegar að X hafi verið óvinnufær frá 19. október sl. vegna sjúkdóms á meðgöngu, þ.e.a.s. frá þeim tíma er hún hætti störfum á leikskólanum.

 


Niður­staða

 

1.

Sam­kvæmt 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um at­vinnu­leysis­tryggingar, veldur það missi bóta­réttar í 40 bóta­daga ef um­sækjandi um at­vinnu­leysis­bætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna.  Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglu­gerðar nr. 545/1997 um greiðslu at­vinnu­leysis­bóta, en þar segir eftirfarandi: 

 

Ef um­sækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tl. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar, séu starfs­lok til­komin vegna einhverra eftir­talinna at­vika:

a.         Maki um­sækjanda hafi farið til starfa í öðrum lands­hluta og fjöl­skyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja bú­ferlum.

b.         Upp­sögn má rekja til þess að um­sækjandi, að öðru leyti vinnu­fær, hefur af heilsu­fars­á­st­æðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því til­skildu að vinnu­veitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ást­æður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknis­vott­orði þessu til stað­festingar.

Kjósi út­hlutunar­nefnd að beita heimild 4. tl. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar í öðrum til­vikum en að ofan greinir, skal hún til­taka sér­stak­lega í ákvörðun sinni þau at­vik og sjónar­mið sem ákvörðun byggist á.

 

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.  Í 2. mgr. 4. gr. laganna segir að enginn geti öðlast bótarétt vegna atvinnuleysis sem stafar af veikindum hans.

 

2.

Kærandi kveðst hafa sagt upp starfi sínu vegna heilsubrests á meðgöngu.  Í fyrstu kvaðst hún vera vinnufær til léttari starfa, en sagðist síðar hafa verið meira og minna rúmliggjandi eftir að hún hætti störfum og að hún hefði ekki getað stundað létta vinnu á þeim tíma eins og hún hafði áður talið.  Kærandi skilaði einnig læknisvottorði þar sem staðfest er óvinnufærni hennar vegna sjúkleika á meðgöngu frá og með þeim tíma sem hún sagði upp störfum.  Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar er vinnufærni eitt af skilyrðum réttar til atvinnuleysisbóta. Kærandi uppfyllti því ekki skilyrði laga til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum.  Það útilokar þó ekki að kærandi geti síðar skilað inn læknisvottorði sem staðfestir vinnufærni hennar.  Gæti hún þá  sótt um atvinnuleysisbætur að nýju, verði aðstæður hennar þá með þeim hætti.   

 Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, felld úr gildi.  Bótaréttur kæranda er hins vegar felldur niður frá 19. október sl. vegna óvinnufærni með vísan til 1. mgr. 1. gr. sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 12/1997.

 

Úr­skurðar­orð:

 

Felld er úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bótaréttar X í 40 bótadaga.  Bótaréttur kæranda er hins vegar felldur niður frá 19. október 2005 vegna óvinnufærni.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni