Ótímabundin niðurfelling bótaréttar vegna örorku ásamt endurgreiðslukröfu felld úr gildi. Sannar vinnufærni með læknisvottorði.
Nr. 7 - 2006

Úrskurður

 

Hinn 21. febrúar 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 7/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum sem haldinn var þann 19. september 2005 að fella ótímabundið niður rétt Y til atvinnuleysisbóta.  Að auki var honum gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 1. október 2004 að fjárhæð kr. 655.276.  Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli  þess að Y var metinn 75% öryrki 1. október 2004.  Að mati úthlutunarnefndar átti Y ekki rétt á atvinnuleysisbótum eftir það nema hann hefði sannað vinnufærni sína með þátttöku á vinnumarkaði eftir örorkumatið.

 

2.

 

Ákvörðun þessi var kærð f.h. Y með bréfi frá Öryrkjabandalagi Íslands 7. desember 2005.  Í bréfinu segir að Y hafi verið metinn til 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins.  Örorka hans útiloki hann þó ekki frá atvinnuþátttöku, enda geri lög nr. 117/1993, um almannatryggingar, beinlínis ráð fyrir að öryrkjar geti haft með höndum  launuð störf á vinnumarkaði, og að bætur TR til þeirra skerðist fari tekjur fram úr tekjuviðmiðunum laganna.  Þá hafi orkutap Y verið metið 50% gagnvart lífeyrissjóðnum Gildi sem þýði að hann eigi 50% af starfsorkunni óráðstafað.  Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta hafi verið kunnugt um örorku Y og atvinnuleysisbætur hans hafi verið skertar vegna greiðslna frá TR og úr lífeyrissjóði.  Læknisvottorð liggi fyrir sem staðfesti að hann sé vinnufær til léttari almennra starfa.  Hann sé veill í baki og störf sem reyni mikið á stoðkerfi henti honum illa.  Önnur léttari störf myndu hins vegar henta honum betur.  Í ákvörðun úthlutunarnefndar sé vísað til þess að Y hafi hafnað atvinnutilboði frá Þ þar sem hann treysti sér ekki til starfans.  Samkvæmt verklýsingu hafi verið um að ræða 75-100% vaktavinnu sem fólst í þrifum.   Það liggi ljóst fyrir að Y geti ekki annast þessi störf vegna bakveikinnar.  Það að hann skuli hafa hafnað þessari vinnu séu ekki rök fyrir því að útiloka hann alveg frá atvinnuleysisbótum.  Hann sé fullfær til að sinna öðrum líkamlega léttari störfum ef þau byðust.  Þess er að lokum krafist að Y fái áfram skertar atvinnuleysisbætur eins og áður, eða þar til hann ráði sig annað hvort til starfa sem hann sé fær um að sinna m.t.t. stoðkerfisvandamála eða hafni slíku starfi.

 

Í gögnum málsins liggur fyrir læknisvottorð frá 27. september 2004, móttekið af Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins þann 27. september s.á., þar sem segir að Y sé vinnufær til léttari almennra starfa.  Einnig liggur fyrir læknisvottorð frá 3. október 2003 þar sem Y er sagður vinnufær, en að hann eigi erfitt með að sinna störfum sem reyni mikið á mjóbakið, eins og að lyfta þungu. 

Samkvæmt verkbeiðni 30. ágúst 2005 frá Þ ehf. var óskað eftir starfsmanni til þrifa og vöktunar.  Um 75-100% vaktavinnu var að ræða.  Samkvæmt bréfi frá Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins fór Y samdægurs  í atvinnuviðtalið.  Daginn eftir hafði hann samband við vinnumiðlara og sagði að starfslýsingin hefði verið röng; um mun viðameira starf var að ræða en sagði í auglýsingunni.  Vinnumiðlarinn hafði samband við atvinnurekandann sem staðfesti að starfið fæli ekki einungis í sér miklar ræstingar heldur einnig talsvert mikla yfirferð við vöktun.  Það hafi því verið samdóma álit vinnumiðlara, atvinnurekandans og Y að hann væri ekki rétti maðurinn í starfið þar sem hann væri 75% öryrki og starfið of krefjandi fyrir hann. 

Samkvæmt umsókn Y um atvinnu hjá Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins 1. október 2004 er hann með skerta vinnufærni.  Í umsókninni óskar hann eftir fullu starfi og helstu óskir um störf eru við næturvörslu eða bensínafgreiðslu.

 

 

 

 

 

 

 

Niður­staða

 

1.

 

Í 1. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 4. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, svo og 1. gr. b og 2. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 er kveðið á um að skilyrði bótaréttar úr Atvinnuleysistryggingasjóði sé að umsækjandi sé fullfær til vinnu.

1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 hljóðar svo:

Launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem verða atvinnulausir eiga rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu. 

 

4. mgr. 7. gr. laga nr. 12/1997 hljóðar svo:

Atvinnuleysisbætur þess sem nýtur elli- eða örorkulífeyris, svo og örorkustyrks frá Tryggingastofnun ríkisins, skulu skerðast á mánaðargrundvelli um það sem umfram er frítekjumark tekjutryggingar einstaklings vegna almennra tekna eins það er ákveðið á hverjum tíma.  Sama gildir um elli- og örorkulífeyri úr lífeyrissjóðum og tekjur af hlutastarfi.

 

Í 15. gr. laga nr. 12/1997 segir eftirfarandi:

Sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta.

Fyrsta brot varðar missi bóta í 2-6 mánuði en ítrekað brot í 12 mánuði.

 

27. gr. laga nr.12/1997 hljóðar svo:

Það varðar sektum að gefa rangar upplýsingar eða leyna upplýsingum í því skyni að fá bætur greiddar eða aðstoða við slíkt athæfi.  Um meðferð slíkra mála fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

Nú hefur maður aflað sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 15. gr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.

 

2.

 

Í máli þessu liggja fyrir tvö læknisvottorð sem staðfesta að kærandi sé vinnufær til léttari almennra starfa sem ekki reyna á bakið.  Kærandi lagði fram læknisvottorð þessi fyrir úthlutunarnefnd auk þess sem hann gat um skerta vinnufærni í umsókn sinni hjá svæðisvinnumiðlun.  Kæranda var boðið líkamlega erfitt starf við ræstingar og vöktun sem hann treysti sér ekki til að þiggja.  Kærandi gaf ávallt upp örorkugreiðslur þær sem hann hlaut frá Tryggingastofnun svo og greiðslur frá lífeyrissjóði hjá svæðisvinnumiðlun og var tekið tillit til þessara greiðslna við útreikning atvinnuleysisbóta. 

Samkvæmt ofansögðu er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að kæranda hafi verið heimilt að hafna greindu atvinnutilboði og þ.a.l. eigi hann rétt á atvinnuleysisbótum.  Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar um ótímabundna niðurfellingu bótaréttar kæranda felld úr gildi.  Einnig er felld úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta enda eru lagaskilyrði endurkröfu ekki fyrir hendi.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið hafi veitt kæranda andmælarétt áður en hún tók ákvörðun sína um að fella bótarétt hans niður, sem henni bar þó að gera, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og eru því verulegir annmarkar á ákvörðuninni hvað það varðar.

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Felld er úr gildi ákvörðun út­hlutunar­nefndar nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 19. september 2005 um ótímabundna niðurfellingu réttar Y til atvinnuleysisbóta svo og ákvörðun um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta.

 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

formaður

 

Elín Blöndal                                          Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni