Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Staðfest
Nr. 2 - 2007

Úrskurður

 

Hinn 26. janúar 2007 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 2/2007.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Vinnumálastofnun á Austurlandi ákvað þann 28. nóvember 2006 að fella niður rétt X, til atvinnuleysisbóta í 40 bótadaga..  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til 58. gr. laga nr. 54/2006, um at­vinnu­leysis­tryggingar. Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli þess að X hafnaði þátttöku í boðað vinnumarkaðsúrræði dagana 10., 13. og 15. nóvember 2006.

 

2.

S kærði framangreinda ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi þann 4. janúar 2007.  Í bréfi sínu segist hún ekki hafa séð sér fært að mæta á námskeiðið sem haldið var á E.  Kostnaður hefði einnig orðið mikill því hún hefði þurft að aka 420 km. þessa þrjá daga til að sækja námskeiðið og borga fæðiskostnað að auki.  Námskeiðið hafi síðan ekki verið haldið vegna veðurs og færðar. Í bréfi frá vinnumiðlun hafi verið sagt að hún hafi hafnað að mæta á námskeiðið 10 dögum áður en halda átti námskeiðið.  X segir þetta rangt.  Dagsetningin á boðuninni frá vinnumiðlun hafi verið 31. október, en hún hafi ekki sent afboðun sína fyrr en 8. nóvember. 

Í gögnum málsins liggur fyrir boðun á námskeiðið Sjálfsefling frá Vinnumálastofnun á Austurlandi frá 31. október 2006.  Námskeiðið átti að halda á E dagana 10. 13. og 15. nóvember 2006 frá kl. 13 til 17 hvern dag. X undirritaði boðunina og hafnaði þátttöku í námskeiðinu.  Í boðuninni er vísað í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem segir að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að 40 dögum liðnum.   Ennfremur er tekið fram að mikilvægt væri að viðkomandi mætti á námskeiðið og að forföll yrði að tilkynna með góðum fyrirvara.

Í bréfi X til vinnumiðlunar frá 15. nóvember sl. segir hún að veðráttan hafi ekki verið sérlega góð fyrir Austfirðinga undangengna daga.  Hún hefði þurft að fara 70 km. leið til að fara á námskeiðið og þar á meðal yfir V sem sé í 430 m hæð yfir sjávarmáli.  Vegna færðar og veðráttu hafi hún hreinlega ekki treyst sér til að sækja þessi námskeið.

Í rökstuðningi Vinnumálastofnunar segir að X hafi verið send boðunin 31. október sl. og að hún hafi þannig hafnað þátttöku í námskeiðinu 10 dögum áður en halda átti námskeiðið.  Í bréfi Vinnumálastofnunar frá 12. janúar 2007 kemur fram að námskeiðið hafi verið afboðað vegna veðurs og erfiðrar leiðar miðað við veðurfar.  X hafi verið gerð skýr grein fyrir því að ferðakostnaður yrði greiddur.  Í símtali starfsmanns úrskurðarnefndar við forstöðumann Vinnumálastofnunar á Austurlandi kom fram að þegar haldin væru slík námskeið þá væri fólki safnað saman frá hinum ýmsu byggðarlögum og samið við einhvern á hverjum stað um að sjá um akstur. 

 

 

Niður­staða

 

1.

            58. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar fjallar um höfnun á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.  1. mgr. 58. gr. er svohljóðandi:

            Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnuálastofnunar, eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila..

           

            Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, eru vinnumarkaðstúrræði m.a. einstök námskeið, svo sem námskeið um gerð starfsleitaráætlunar eða sjálfstyrkingu og námskeið til að bæta tiltekna færni.  Samkvæmt a-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er skilyrði fyrir bótarétti m.a. að vera í virkri atvinnuleit.  Í 14. gr. laganna er fjallað um virka atvinnuleit.  Samkvæmt f-lið 14. gr. felst virk atvinnuleit m.a. í því að atvinnuleitandi hafi vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða.

 

2.

Kærandi sem býr á B fékk senda boðun þann 31. október 2006 á sjálfstyrkingarnámskeið sem halda átti dagana 10., 13. og 15. nóvember á E Boðunin var dagsett 10 dögum fyrir námskeiðið.  Brýnt var fyrir kæranda að boða forföll með góðum fyrirvara.  Kærandi hafnaði því að taka þátt í námskeiðinu og bar við að hann treysti sér ekki til að sækja námskeiðið vegna slæms veðurs.  Kærandi hafnaði þátttöku einhverjum dögum áður en námskeiðið skyldi haldið og áður en vitað var um veður námskeiðsdagana.  Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta og samkvæmt beinu lagafyrirmæli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 bar kæranda að samþykkja að taka þátt í boðuðu námskeiði að viðlögðum bótamissi.  Engu breytir þótt því hafi síðar verið aflýst vegna veðurs.

Að teknu tilliti til ofangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga staðfest með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun Vinnumálastofnunar á Austurlandi frá 28. nóvember 2006 um niðurfellingu bótaréttar X í 40 bótadaga.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni