Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Mætti ekki í boðað viðtal til starfsráðgjafa.
Nr. 13 - 2007

Úrskurður

 

Hinn 4. apríl 2007 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­trygginga og vinnumarkaðsaðgerða upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 13/2007.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu ákvað þann 28. nóvember 2006 að fella niður rétt Y til atvinnuleysisbóta í 40 bótadaga..  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006, um at­vinnu­leysis­tryggingar. Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli þess að Y mætti ekki í boðað viðtal við starfsráðgjafa þann 7. nóvember 2006 og svaraði ekki bréfi sem dagsett var sama dag.

 

2.

 

Y kærði framangreinda ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi mótt. 7. mars 2007.  Í bréfi sínu segir hann að honum hafi borist ákvörðun Vinnumálastofnunar þann 1. desember 2006.  Hann segist mótmæla þessari ákvörðun.  Hann hafi aðeins verið á atvinnuleysisskrá til 25. október sl. en þá hafi hann farið til Noregs og Danmerkur til að leita sér að vinnu á sjó.  Hann hafi látið vita af þessu þann 25. október áður en hann fór út.  Hann hafi ekki fengið vinnu úti og ekki komið til baka fyrr en 14. desember sl. 

Í gögnum málsins liggja fyrir dagbókarfærslur um feril kæranda hjá Vinnumálastofnun.  Í dagbókarfærslu dags. 1. desember 2006 kemur fram að þann 7. nóvember hafi hann ekki mætt í boðað viðtal til ráðgjafa.  Ekkert kemur fram um að kærandi hafi tilkynnt forföll.  Samkvæmt starfsráðgjafa er vinnulagið þannig við boðun í ráðgjafaviðtal að atvinnuleitanda er afhent boðun með dagsetningu næsta viðtals og nafni þess ráðgjafa sem hann á að koma til.

 

 

Niður­staða

 

1.

 

            58. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar fjallar um höfnun á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.  1. mgr. 58. gr. er svohljóðandi:

Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnuálastofnunar, eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila..

           

            Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, eru vinnumarkaðstúrræði m.a. einstök námskeið, svo sem námskeið um gerð starfsleitaráætlunar eða sjálfstyrkingu og námskeið til að bæta tiltekna færni.  Samkvæmt a-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er skilyrði fyrir bótarétti m.a. að vera í virkri atvinnuleit.  Í 14. gr. laganna er fjallað um virka atvinnuleit.  Samkvæmt f-lið 14. gr. felst virk atvinnuleit m.a. í því að atvinnuleitandi hafi vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða.

 

2.

 

Kærandi mætti ekki í boðað viðtal hjá ráðgjafa. Mæting til ráðgjafa er hluti að virkri atvinnuleit.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum tilkynnti hann ekki um forföll.  Kærandi segist hafa farið erlendis til að leita sér að vinnu. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða eru skýringar kæranda ekki gildar í skilningi laga nr. 54/2006.

Að teknu tilliti til ofangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga staðfest með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu frá 7. nóvember um niðurfellingu bótaréttar Y í 40 bótadaga.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni