Synjun á útgáfu E-303 vottorðs til atvinnuleitar erlendis á bótum frá Íslandi. Var ekki áður skráður atvinnulaus á Íslandi. Staðfest.
Nr. 69 - 2006

Úrskurður

 

 

Hinn 21. nóvember 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 69/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu ákvað þann 31. ágúst 2006 að synja umsókn Y um útgáfu á vottorði E-303 til atvinnuleitar erlendis frá 10. júlí 2006 með vísan til þess að hann uppfyllti ekki það skilyrði útgáfu E-303 að hafa þegið atvinnuleysisbætur samfellt í síðustu fjórar vikur fyrir brottfarardag. 

 

2.

Y kærði framangreinda ákvörðun Vinnumálastofnunar með bréfi þann 6. september 2006.  Í bréfi sínu segist  hann mótmæla ákvörðun þessari og fer fram á að vottorð E-303 verði gefið úr miðað við júlí 2006. Í ákvörðuninni sé vísað til þess að hann hafi ekki þegið atvinnuleysisbætur í fjórar vikur áður en hann flutti frá Íslandi.  Það sé einföld ástæða fyrir því.  Hann hafi unnið allt til brottfarardags eða til mánaðarmóta júní/júlí.  Hann trúi ekki að Vinnumálastofnun hegni honum fyrir það.  Í ákvörðuninni séu helstu skilyrði útgáfu E-303 tíunduð.  Flutningur hans til Finnlands hafi ekki stafað af atvinnuleysi hans.  Hann telji sig uppfylla öll lagaskilyrði til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum.

 

Í gögnum málsins liggur fyrir umsókn Y um varðveislu réttar til atvinnuleysisbóta hjá Atvinnuleysistryggingasjóði meðan hann leiti að atvinnu í öðru EES landi. Umsóknin er dagsett 10. júlí 2006.  Hann segist vera að flytja til Finnlands vegna þess að eiginkona hans sé að fara í tímabundið starf.  Dagsetning brottfarar er sögð 10. júlí 2006.  Í bréfi Y sem skrifað er í Finnlandi 5. ágúst sl. segir að vegna mistaka hafi umsóknin um E-303 vottorð ekki verið send áður en haldið var frá Íslandi.  Einnig segir hann að síðasti vinnudagur hans á Íslandi hafi verið 5. júlí 2006.

Samkvæmt vinnuveitandavottorði frá T ehf. starfaði Y sem markaðs- og verkefnastjóri hjá fyrirtækinu tímabilið 1. október 2002 til 5. júlí 2006.  Ástæða starfsloka er sögð flutningur til Finnlands.

Samkvæmt staðfestingu frá deildarstjóra í atvinnuleysistryggingadeild dags. 17. október 2006 hefur Y aldrei verið umsækjandi um atvinnu eða atvinnuleysisbætur á Íslandi.

 

Niður­staða

 

1.

            Samkvæmt 42. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar er heimilt  að greiða atvinnuleysisbætur frá Íslandi á meðan á atvinnuleit í öðru EES-ríki stendur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. 1. og 2. mgr. 42. gr. eru svohljóðandi:

Vinnumálastofnun er heimilt að greiða atvinnuleysisbætur skv. VII. kafla til þess sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum og er í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, enda uppfylli hann eftirtalin skilyrði:

a.  hefur sótt um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar,

b. hefur uppfyllt skilyrði laga þessara á a.m.k. fjórum næstliðnum vikum  fyrir brottfarardag,

c. er heimilt að vera í frjálsri atvinnuleit í öðru aðildarríki samkvæmt lögum þess ríkis,

d. skráir sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun í því ríki þar sem atvinnuleitin fer fram samkvæmt lögum þess ríkis innan sjö virkra daga frá brottfarardegi.

Vinnumálastofnun er heimilt að veita undanþágu frá skilyrði b-liðar 1. mgr. þegar foreldri, maki, sambúðarmaki eða samvistarmaki hins tryggða dvelst við nám eða störf í því landi þar sem atvinnuleitin fer fram.  Hið sama getur átt við er börn hins tryggða undir 18 ára aldrei eru búsett í landinu með hinu foreldri sínu eða hann  hefur þegar fengið tilboð um starf þar í landi.

 

 

3.

Kærandi sækir um útgáfu E-303 vottorðs til atvinnuleitar erlendis með bréfi dags. 10. júlí 2006.  Í umsókn kemur fram að áætlaður brottfarardagur er hinn sami eða 10. júlí 2006.  Kærandi hafði ekki áður skráð sig atvinnulausan eða sótt um atvinnuleysisbætur á Íslandi.  Í vinnuveitandavottorði dags. 25. júlí 2006 kemur fram að hann hætti störfum þann 5. júlí 2006 til að flytja til útlanda.  Í umsókn sinni um E-303 vottorð kemur fram að hann sé að fylgja eiginkonu sinni sem hafi fengið tímabundið starf í Finnlandi.  Samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, er Vinnumálastofnun heimilt að veita undanþágu frá skilyrði í b lið 1. mgr. 42. gr. laganna, sbr. framangreint, en þar sem umsækjandi hafði ekki áður lagt inn umsókn um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar , sbr. a. lið 1. mgr. 42. gr. og uppfyllir ekki önnur skilyrði 1. mgr. 42. gr. sömu laga kemur það eigi til álita.

            Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun á umsókn kæranda um útgáfu vottorðs E-303 til atvinnuleitar erlendis með vísan til 1. mgr. 42. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.

 

Úr­skurðar­orð:

 

Staðfest er ákvörðun Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu frá 31. ágúst 2006 um synjun á umsókn Y um útgáfu vottorðs E-303.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni