Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Sinnir ekki atvinnutilboði.
Nr. 61 - 2006

 

Úrskurður

 

Hinn 17. október 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 61/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta ákvað á fundi sínum sem haldinn var þann 28. ágúst 2006 að réttur Y til atvinnuleysisbóta skyldi falla niður í 40 bótadaga á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að Y  sinnti ekki atvinnutilboði frá O ehf. þann 3. ágúst sl.  Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta tók málið fyrir á fundi sínum þann 26. september 2006 og ákvað að fresta málinu og gefa Y kost á að tjá sig nánar um málavexti.  Ekki hefur borist svar frá Y og málið því úrskurðað á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

2.

Y kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi þann 30. águst 2006.  Í bréfi sínu segist hann hafa hringt á skrifstofu O eftir að hann fékk atvinnutilboðið.  Honum hafi verið sagt að kona sú sem átti að sjá um þetta væri í sumarfríi, en honum hafi verið bent á aðra konu í staðinn.  Sú kona hafi þá ekki verið við og hann hafi ítrekað reynt að ná tali af henni en aldrei náð samband við hana.  Eftir að hann gafst upp á að hafa samband hafi hann haldið áfram að leita sér að vinnu og loksins fengið vinnu hjá T.  Hann hafi hafið störf þann 24. ágúst.  Y segist ekki sáttur við að honum sé refsað fyrir að hafa ekki náð sambandi við það fólk sem honum hafi verið bent á að tala við hjá O vegna þess að það hafi verið of upptekið til að tala við hann.  Hann hafi verið tilbúinn að prófa þessa vinnu.

            Í gögnum málsins liggur fyrir atvinnutilboð frá O ehf. frá 3. ágúst 2006.  Um var að ræða framtíðarstarf við bensínafgreiðslu og almenna þjónustu því tengdu.  Í atvinnutilboðinu er haft eftir starfsmanni O að Y hafi ekki mætt í viðtal.

 

Niður­staða

 

1.

Samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 54/2006 er skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að þeir séu í virkri atvinnuleit.  Í 14. gr. laganna er m.a. kveðið á um virka atvinnuleit.  Þar segir m.a.:

 

,,Sá telst vera í virkri atvinnuleit sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:

a.  er fær til flestra almennra starfa,

b.  hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og uppfyllir skilyrði annarra laga,

c. hefur vilja og getu til að taka starfi á sérstaks fyrirvara,

d.  er reiðubúinn að taka starfi hvar sem á Íslandi,

e.  er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu.

 

Í 57. gr. er kveðið á um viðurlög við því að hafna starfi eða atvinnuviðtali og hljóðar m.a svo:

Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.  Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.

Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á viðurlagatímanum skv. 1. mgr.  Hafni hann starfi eða hafni því að fara í atvinnuviðtal á þeim tíma getur komið til ítrekunaráhrifa skv. 61. gr.

Taki hinn tryggði starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á viðurlagatíma skv. 1. mgr. stendur falla viðurlögin niður eftir að hinn tryggði hefur starfað í a.m.k. tíu virka daga áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur, enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum.  Vari starfið í skemmri tíma, hann hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann á sjálfur sök heldur viðurlagatíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 61. gr.

 

2.

Í umsókn um atvinnuleysisbætur felst yfirlýsing um að umsækjandi óski eftir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan á atvinnuleit stendur.  Sú atvinnuleit má almennt ekki vera háð þeim fyrirvara að aðeins ákveðnar tegundir starfa eða ákveðinn vinnutími komi til greina þannig að önnur störf séu útilokuð, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006 þar sem segir að þeir sem eiga rétt til bóta samkvæmt lögunum skuli vera reiðubúnir til að ráða sig til allra almennra starfa. 

Kærandi fékk tilboð um starf við bensínafgreiðslu hjá O ehf. Kærandi segist hafa ítrekað reynt að ná í þá tengiliði sem gefnir voru upp á atvinnutilboðinu en án árangurs.  Samkvæmt atvinnutilboðinu mætti kærandi ekki í viðtal. Starfsmaður úrskurðarnefndar hafði símsambandi við tengilið O.  Telur tengiliðurinn óhugsandi að ekki hafi verið hægt að ná í hana ef ítrekað hafi verið reynt.  Hún hafi verið í vinnu alla þessa daga.  Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta jafngildir sinnuleysi kæranda höfnun á atvinnutilboði og bar kæranda að þiggja starfið að viðlögðum bótamissi.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006.

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta frá 28. ágúst 2006 um að Y skuli sæta niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga. 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Bentsdóttir

for­maður

 

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni