Niðurfelling bótaréttar í 60 bótadaga. Sagt upp starfi v.óstundvísi o.fl. Ítrekun. Staðfest.
Nr. 18 - 2007

Úrskurður

 

Þann 18. maí 2007 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­trygginga og vinnumarkaðsaðgerða upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 18/2007.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysistrygginga samþykkti þann 7. mars 2007 umsókn Y um atvinnuleysisbætur.  Bótaréttur hans var hins vegar felldur niður í 60 bótadaga í upphafi bótatímabils. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til 1. mgr. 61 gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.

 

2.

 

Y kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi þann 28. mars 2007.   Í bréfi sínu segist hann hafa verið settur á langa bið eða í 100 daga.  Honum finnist það ósanngjarnt.  Honum  hafi verið sagt upp störfum um miðjan desember sl. vegna þess að hann hafi sagt pólskri samstarfsstúlku sem var að vinna með honum á lager frá því hvað hann fengi í laun.  Hún hafi í framhaldi kvartað yfir launum sínum.  Fyrst hafi honum verið sagt að hann þyrfti að bíða í 40 bótadaga eftir atvinnuleysisbótum vegna þess að hann hafi sagt upp vinnu fyrir tveimur árum.  Þegar 40 dagarnir voru liðnir var honum sagt að hann þyrfti að bíða í 60 daga í viðbót.  Hann hafi verið settur á 40 daga bið á síðasta ári en hann hafi fundið sér vinnu á meðan.  Núna þurfi hann því að bíða í 100 daga samtals.  Hann hafi verið rekinn úr vinnu þar sem hann hafi mætt á hverjum einasta degi þrátt fyrir að hann hafi lent í alvarlegri líkamsárás.  Hann hafi tekið alla yfirvinnu svo að fyrirtækinu gengi vel.  Y segist krefjast þess að biðin verði felld niður.  Í bréfi dagsettu 18. janúar 2007 segir kærandi að það sé ekki rétt sem standi á vinnuveitandavottorðinu að hann hafi verið rekinn vegna óstundvísi.  Hann hafi ekki mætt oftar en þrisvar sinnum of seint á meðan hann vann þar.  Honum hafi verið sagt að hann hafi svikið trúnaðarmál um launin.   Það sé ekki rétt.  Hann hafi ekki sagt pólsku stúlkunni hvað hann hefði í laun.  Hann hafi einungis sagt henni hvað hann skuldaði mikið í bankanum.

Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá L ehf. frá 18. desember 2006.  Þar segir að kærandi hafi starfað sem bílstóri og lagermaður hjá fyrirtækinu tímabilið 24. október til 15. desember 2006.  Ástæða starfsloka er sögð sú að honum hafi verið sagt upp störfum vegna óstundvísi.  Einnig liggur fyrir uppsagnarbréf frá L frá 15. desember 2006.  Í bréfinu er ekki getið um ástæðu uppsagnar.

Þrjú önnur vinnuveitandavottorð liggja fyrir.  Samkvæmt þeim starfaði kærandi alls í fimm mánuði á tímabilinu september 2005 til september 2006.  Eftir það starfaði hann í tvo mánuði hjá L.  Samkvæmt greiðslusögu kæranda skráði hann sig fyrst atvinnulausan 4. febrúar 2005 og var á atvinnuleysisskrá til 18. febrúar eða í 11 daga.  Hann kom aftur inn á atvinnuleysisskrá 14. mars og fór út 28. mars eftir 11 daga á skrá.  Í hvorugt skiptið fékk hann greiddar atvinnuleysisbætur.  Síðan skráði hann sig atvinnulausan 18. desember og hefur verið á skrá síðan.  Þann 2. apríl sl. fékk hann fyrst greiddar atvinnuleysisbætur.

Starfsmaður úrskurðarnefndar hafði símsamband við atvinnuveitandann.  Að sögn hans mætti kærandi oft of seint og var ávítaður þrisvar sinnum.  Að auki hafi hann lent í nokkrum árekstrum á bifreið fyrirtækisins og valdið tjóni á öðrum bifreiðum.

 

 

 


Niður­staða

 

1.

 

Ákvæði 54. gr.  laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar,  fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna.  Greinin er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.  Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1.mgr.

Taki hinn tryggði starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á biðtíma skv. 1. mgr.  stendur fellur biðtíminn niður eftir að hinn tryggði hefur starfað í a.m.k. tíu virka daga áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum Vari starfið í skemmri tíma, hann hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á, heldur biðtíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 56. gr.

 

            Ákvæði 56. gr. laganna fjallar um ítrekunaráhrif fyrri ákvarðana um biðtíma.  1. og 2. mgr. greinarinnar eru svohljóðandi:

Sá sem áður hefur sætt biðtíma skv. 54. eða 55. gr. eða viðurlögum skv. 57.-59. gr. og sækir að nýju um atvinnuleysisbætur eftir að hafa verið í starfi í skemmri tíma en 24 mánuði og sagt því upp er hann gegndi síðast án gildra ástæðna, skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 60 dögum  liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku seinni umsóknar um atvinnuleysisbætur.  Hið sama á við um þann sem  hefur misst starfið af ástæðum sem hann á sjálfur sök á eða hætt námi án gildra ástæðna.

Þegar biðtími skv. 54. og 55. gr. eða viðurlög skv. 57.-59. gr. hafa frestast skv. 3. mgr. 54. gr.., 3. mgr. 55. gr., 3. mgr. 57. gr., 3. mgr. 58. gr. eða 3. mgr. 59. gr., leggst sá tími sem eftir var af fyrri biðtíma eða viðurlagaákvörðun saman við biðtíma skv. 1. mgr.

 

 

 

           

2.

 

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda sagt upp starfi sínu vegna óstundvísi o.fl.  Kærandi átti þannig sök á uppsögn sinni.  Um ítrekun var að ræða þar sem kærandi hafði í febrúar árið 2005 þurft að sæta 40 daga bið eftir greiðslu bóta vegna starfsloka.   

Það er mat úthlutunarnefndar að nægilega sé komið fram að kærandi hafi átt sök á uppsögn sinni.  Því gildi ákvæði 56. gr. laga 54/2006 um ítrekunaráhrif fyrri ákvarðana um biðtíma í hans tilviki.  Þar sem kærandi átti sjálfur sök á uppsögn sinni gildir 2. mgr. 56. gr. sbr. 3. mgr. 54. gr. um hann þar sem segir að það sem eftir var af fyrri biðtíma leggist við ákvörðun um biðtíma.  Kærandi  hafði áður tekið út 22 daga af biðtíma sínum og leggjast því 18 dagar við 60 daga biðtíma.

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga  um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 60 bóta­daga staðfest.  Ákvörðunin er tekin með vísan til 1. mgr. 56. gr. laga nr. 54/2006.  Kærandi skal að auki sæta biðtíma í 18 daga sem eftir voru af fyrri biðtíma, eða alls í 78 bótadaga.

 

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga frá 7. mars 2007 um niðurfellingu bótaréttar Y í 60 bótadaga.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni