Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Segir upp starfi vegna óhentugs vinnutíma. Hefði getað fengið annan vinnutíma. Staðfest.
Nr. 22 - 2007

Úrskurður

 

Þann 18. maí 2007 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­trygginga og vinnumarkaðsaðgerða upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 22/2007.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun á Norðurlandi eystra samþykkti þann 26. apríl 2007 umsókn X um atvinnuleysisbætur.  Bótaréttur hennar var hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, á grundvelli starfsloka hennar hjá H.

 

2.

 

X kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi dags. 10. maí 2007.   Í bréfi sínu gerir hún kröfu um að fá greiddar bætur frá fyrsta skráningardegi.  Hún segir að í bréfi sem henni barst hafi það verið látið í veðri vaka að hún hafi sagt upp vegna skorts á barnapössun.  Hana hafi hins vegar ekki skort barnapössun þann tíma sem hún var ráðin til að vinna í upphafi.  Það hafi verið tíminn sem ætlast hafi verið til að hún inni utan síns fasta vinnutíma sem hafi vafist fyrir henni.  Henni hafi verið nauðugur einn kostur að segja upp starfinu. 

Samkvæmt bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra dags. 16. apríl 2007 segir hún að það hafi skapað vandræði að kennsla hjá barni hennar sem er í fyrsta bekk í grunnskóla hafi ekki hafist fyrr en kl. 8:20 en hún þurfti að vera mætt kl. 8:00.  Það hafi þó hjálpað að eftir áramót hafi faðir barnsins verið í skóla þrjá daga vikunnar og ekki byrjað fyrr en kl. 8:15.  Hún hafi verið deildarstjóri á kassadeild ásamt sjóðstjórn og tölvuumsjón hjá H.  Starfið krefjist mikillar skipulagningar og viðveru.  Oft hafi það verið þannig að hún hafi einfaldlega ekki komist heim á þeim tíma sem vinnudegi átti að ljúka og þurfti hún þá að fá einhvern til að taka drenginn fyrir sig.  Henni hafi ekki fundist að hún gæti boðið drengnum upp á þetta.  Steininn hafi tekið úr í desember sl. þegar vinnutímakröfurnar keyrðu fram úr hófi, þann mánuð hafi hún unnið 230 tíma sem gera um 10 ½ tíma á dag séu aðeins teknir virkir dagar.  Hún hafi því sagt upp þann 31. desember.

Starfsmaður úrskurðarnefndar hafði símsamband við kæranda.  Að hennar sögn var hún í upphafi ráðin til að vinna í tvo daga viku kl. 8-16, tvo daga kl. 8-17 og einn dag í viku kl. 8-19.  Hins vegar hafi verið ætlast til þess að hún ynni allt að 30-40 tíma í yfirvinnu á mánuði. 

Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá H dags. 18. apríl 2007.  Þar segir að kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu tímabilið 12. september 2005 til 31. mars 2007.  Ástæða starfsloka er sögð sú að hún hafi sjálf sagt upp störfum.

Samkvæmt tölvubréfi frá vinnuveitanda dags. 18. maí 2007 fylgir stjórnunarstörfum yfirleitt meiri vinna.  Kærandi ákvað að hætta störfum.  Hún hefði getað fengið tilfærslu í starfi eða minni vinnu, en hún hafi ekki borið sig eftir því.  Samkvæmt vinnuveitanda hefur vantað fólk í þessi störf og gæti kærandi fengið vinnu hjá fyrirtækinu núna ef hún óskað eftir því.

             


Niður­staða

 

1.

 

Ákvæði 54. gr.  laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar,  fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna.  Í 1. og 2. mgr. 54. gr. segir eftirfarandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.  Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1.mgr.

 

           

2.

 

Kærandi sagði upp starfi sínu vegna þess að hún var óánægð með hversu mikla yfirvinnu hún þurfti að vinna.  Kærandi er með sex ára gamalt barn.  Í skýringarbréfi til Vinnumálstofnunar kveðst hún ekki hafa haft barnapössun fyrir drenginn utan fasts vinnutíma sem hún réði sig upphaflega til, sem var tvo daga vikunnar til kl. 16, tvo daga til kl. 17 og einn dag til kl. 19.  Kærandi segist hafa barnagæslu fyrir barn sitt á þeim tíma sem hún réði sig upphaflega til starfa.  Vandræði séu hins vegar með gæslu utan fasts vinnutíma..

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur.  Í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er orðalagið gildar ástæður skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.  Almennt flokkast ágreiningur milli starfsmanna og vinnuveitanda, s.s. um launakjör, vinnutíma og/eða aðstæður á vinnustað ekki sem gildar ástæður samkvæmt framangreindum reglum. 

Almennt hefur ekki verið talið að skortur á dagheimilisplássi sé gild ástæða fyrir starfslokum eða höfnun á vinnu ef um er að ræða vinnu á venjulegum dagvinnutíma.  Venjulegur dagvinnutími telst vera á tímabilinu frá kl. 08:00 til 18:00 virka daga, og verða bótaþegar að vera reiðubúnir að taka vinnu sem fellur innan þessara tímamarka. 

Kærandi réði sig til stjórnunarstarfa.  Að sögn vinnuveitanda fylgir því alltaf meira álag og yfirvinna.  Að sögn vinnuveitanda átti kærandi kost á minni vinnutíma og öðru starfi ef hún óskað eftir.  Hún hafði þó að hans sögn ákveðið að hætta störfum. Það er mat úrskurðarnefndar að ástæður þær sem kærandi gefur upp fyrir uppsögn sinni séu ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.  Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga  um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga staðfest með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.  

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun Vinnumálstofnunar á Norðurlandi eystra frá 26. apríl 2007 um niðurfellingu bótaréttar X í 40 bótadaga.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni