Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Hættir námi án gildrar ástæðu. Staðfest.
Nr. 26 - 2007

Úrskurður

 

Þann 21. júní 2007 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­trygginga og vinnumarkaðsaðgerða upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 26/2007.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta samþykkti þann 23. maí 2007 umsókn Y um atvinnuleysisbætur.  Bótaréttur hans var hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils.  Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.  Ákvörðunin var tekin með vísan til upplýsinga um að hann hefði hætt námi án gildra ástæðna.

 

2.

 

Ákvörðun úthlutunarnefndar var kærð fyrir hönd Y með bréfi dags. 4. júní 2007.  Í bréfinu segir að hin kærða ákvörðun hafi verið án alls rökstuðnings.  Ekki hafi verið vikið einu orði að andmælum sem send voru fyrir hönd kæranda með bréfi dags. 18. maí sl. og verði því að telja að með því hafi andmælaréttur kæranda verið fyrir borð borinn og að engu hafður.  Þá hafi ekki komið fram í ákvörðuninni frá hvaða tíma hin 40 daga niðurfelling hafi átt að reiknast eða hvaða dag greiðslur myndu hefjast. Að auki hafi biðtíminn ekki verið talinn samfelldur heldur hafi einungis verið talinn einn dagur frá 11. apríl til 2. maí. Gerð er sú krafa að ákvörðun úthlutunarnefndar verði hnekkt og að kæranda verði úrskurðaðar atvinnuleysisbætur frá dagsetningu umsóknar eða frá 11. apríl 2007.

Kæran er byggð á því að ákvæði 55. gr. laga nr. 54/2006 eigi ekki við í tilviki kæranda.  Hann hafi lokið stúdentsprófi á síðasta ári og hafi haft hug á því að nema hagfræði.  Í því skyni hafi hann m.a. sótt um háskóla í D.  Hann hafi mjög skyndilega fengið inngöngu í skólann og hafi haldið utan.  Hann hafi reynt að komast inn í námsefnið sem hafi verið mjög þungt og allt á dönsku.  Fljótlega hafi komið í ljós að hlutirnir hafi ekki verið að ganga upp hjá honum.  Hann hafi ekki verið kominn með húsnæði en fengið að gista hjá vini sínum.  Honum hafi ekki tekist að verða sér út um húsnæði þegar komið hafði í ljós að námið myndi ekki ganga upp.  Því hafi hann ákveðið að fara heim áður en hann myndi steypa sér í meiri skuldir.  Hann hafi komið heim þann 5. nóvember 2006.  Síðan hafi hann verið atvinnulaus og því tekjulaus þar sem hann hafi ekki sótt um atvinnuleysisbætur fyrr en 11. apríl sl.

Í kærunni segir að í athugasemdum með frumvarpi að lögum 54/2006 komi fram að tilgangur 55. gr. hafi verið að koma í veg fyrir að umsækjendur hættu námi og sæktu síðan í kjölfarið um atvinnuleysisbætur.  Þetta hafi ekki átt við um kæranda, hann hafi verið atvinnulaus í u.þ.b. hálft ár án þess að sækja um atvinnuleysisbætur.  Með vísan til þess að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða sé ljóst að skýra verði hana þröngt.  Einnig verði að líta til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.  Ástæða þess að hann hafi dregið það svo lengi að sækja um atvinnuleysisbætur hafi verið sú að hann hafi alltaf haldið í vonina um að fá vinnu, auk þess sem þunglyndi og framtaksleysi af völdum þess skipsbrots sem hann varð fyrir í náminu hafi verið farið að þjaka hann.

Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá M ehf.  Þar segir að kærandi hafi unnið sem tæknifulltrúi hjá fyrirtækinu tímabilið 16. júní til 11. ágúst 2006.  Ástæða starfsloka er sögð sú að hann hafi sjálfur sagt upp starfinu til að fara utan í nám.  Í umsókn kæranda dags. 11. apríl 2007 segir að hann hafi komið til Íslands í nóvember 2006 eftir að hafa verið erlendis í námi.

 

 Niður­staða

 

1.

 

Ákvæði 55. gr.  laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar,  fjallar um þau atvik er námi er hætt án gildra ástæðna.  1. mgr. 55. gr. er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII kafla fyrr en að 40 dögum liðnum sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.  Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.

Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.

Taki hinn tryggði starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á biðtíma skv. 1. mgr. stendur fellur biðtíminn niður eftir að hinn tryggði hefur starfaði í a.m.k. tíu virka daga áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur, enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum.  Vari starfið í skemmri tíma, hann hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á heldur biðtíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 56. gr.

 

           

2.

 

Kærandi hóf nám í D haustið 2006.  Hann hætti námi og sneri aftur til Íslands í byrjun nóvember 2006.  Ástæða þess að hann hætti námi hafi verið sú að honum hafi fundist það of erfitt og að hann réði ekki við það.  U.þ.b. sex mánuðum síðar, eða þann 11. apríl 2007 sótti hann síðan um atvinnuleysisbætur.  Samkvæmt skýru orðalagi 55. gr. laga nr. 54/2006 skal kærandi sæta niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils hætti hann námi.  Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laganna skal fella niður bætur samkvæmt ákvæðinu frá móttöku umsóknar.  Ekki er heimild í lögum til að sleppa niðurfellingu bóta þó svo að sótt sé um atvinnuleysisbætur eftir nokkurra mánaða atvinnuleysi.  Samkvæmt greiðslusögu kæranda voru bætur til kæranda felldar niður frá þeim tíma og áttu ekki að greiðast fyrr en að liðnum 40 virkum dögum. Í kæru segir að biðtíminn sé ekki talinn samfelldur.  Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006 skal hinn tryggði uppfylla skilyrði laganna á biðtímanum.  Í því fellst að kærandi verði að vera í virkri atvinnuleit og mæta í boðaða tíma hjá vinnumiðlara á biðtíma.  Samkvæmt samskiptasögu kæranda var hann boðaður á kynningarfund hjá vinnumiðlara þann 17. apríl.  Hann mætti ekki á boðaðan fund og lét ekki heyra frá sér fyrr en 2. maí.    Kærandi taldist því ekki vera í virkri atvinnuleit tímabilið eftir 11. apríl og þangað til hann tilkynnti sig hjá vinnumiðlara þann 2. maí.  Á meðan kærandi var ekki í virkri atvinnuleit taldist biðtíminn ekki, heldur frá þeim tíma er hann hóf aftur virka atvinnuleit eða þann 2. maí.  Kærandi stundaði enga vinnu frá því hann kom heim eftir að hafa hætt námi þar til hann sótti um atvinnuleysisbætur.  Ákvæði 3. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006 sem kveður á um að biðtími skuli falla niður ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur stundað vinnu í a.m.k. tíu virka daga og misst vinnu af gildum ástæðum á því ekki við í tilviki kæranda.  Í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er orðalagið gildar ástæður skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.  Meðalhófsreglan í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 93/1997 getur ekki breytt skýru orðalagi laganna.  Það er mat úrskurðarnefndarinnar að þær ástæður sem kærandi færir fram séu ekki gildar  í skilningi 55. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysisbætur

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga staðfest með vísan til 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006.

 

 

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga frá 23. maí 2007 um niðurfellingu bótaréttar Y í 40 bótadaga.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni