Bótahlutfall
Nr. 39 - 2003

ÚR­SKURÐUR

 

Þann 28. apríl 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 39/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 18. mars 2003 að hlutfall bótaréttar B væri 97%.  Vísað var í 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um geymdan bótarétt svo og 4. gr. sömu laga sem kveður á um að ef sá sem hefur unnið sér rétt til bóta verður óvinnufær af völdum sjúkdóms eða slyss haldi áunnum bótarétti þegar hann verður vinnufær á ný, enda sanni hann að hann hafi verið óvinnufær með læknisvottorði er hann sækir um atvinnuleysisbætur að loknum veikindum.  2.

 

Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs ákvað með vísan í 4. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 að kæra ákvörðun út­hlutunar­nefndar til úr­skurð­ar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta.  Í bréfi stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs dags. 23. apríl 2003 kemur fram að ágreiningur hafi verið í úthlutunarnefndinni um hlutfall bótaréttarins, minni hluti nefndarinnar vildi ákveða B 53% bótarétt með þeirri röksemd að reikna einungis geymdan bótarétt á þeim tíma sem B hvarf af vinnumarkaði fyrir veikindi sín en rúmlega 5 mánaða tímabil eftir að hann varð vinnufær á ný en var ekki á vinnumarkaði kæmi til skerðingar á bótarétti hans.  Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs tekur undir kröfu minni hluta nefndarinnar og er þess krafist að úrskurðarnefnd úrskurði B 53% bótarétt.  Stjórnin segist vera sammála skilningi minni hluta nefndarinnar um að ekki sé hægt að nýta geymdan bótarétt bæði fyrir og eftir veikindin.  Nefndin byggir skilning sinn á orðalagi 3. gr. laga nr. 12/1997 er þar segir orðrétt:

 

 

 

 

 

 

 

Niður­staða

 

1.

Í 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir orðrétt:

Sá sem uppfyllir skilyrði um bótarétt en hverfur af innlendum vinnumarkaði af ástæðum sem valda því að ekki ber að skila af launum hans tryggingagjaldi heldur í allt að tuttugu og fjóra mánuði, frá því að hann hvarf af vinnumarkaði, þeim bótarétti sem hann hafði áunnið sér.  Að tuttugu og fjórum mánuðum liðnum fellur réttur hans samkvæmt þessari grein að fullu niður.  Með sama hætti skal fara með þann sem tekur að stunda hlutastarf eða hverfur af vinnumarkaði vegna töku fæðingarorlofs.  Ákvæði þetta gildir ekki um þá sem fara í atvinnuleit til annars EES-ríkis í allt að þrjá mánuði og fá á þeim tíma greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum þessum.

Tilgangur þessarar reglu er m.a. sá að veita þeim sem áunnið hafa sér rétt til atvinnuleysisbóta með vinnu hér á landi möguleika til að geyma þann rétt.  Áunnin réttur til atvinnuleysisbóta á þannig ekki að falla niður eða skerðast þó að viðkomandi einstaklingur taki þá ákvörðun að hverfa af innlendum vinnu markaði.  Þessi réttur er þó takmarkaður í tíma að því leyti að hann fellur niður að tveimur árum liðnum frá starfslokum.

 

2.

Í 4. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir:

Ef sá sem hefur áunnið sér rétt til bóta verður óvinnufær af völdum sjúkdóms eða slyss og verður að hverfa frá vinnu heldur hann þeim bótarétti þegar hann verður vinnufær á ný, enda sanni hann að hann hafi verið óvinnufær með læknisvottorði þegar hann sækir um atvinnuleysisbætur að loknum veikindum.  Sama rétt til geymslu bótaréttar á sá sem sviptur hefur verið frelsi sínu með dómi.

Bótarétt getur enginn öðlast vegna atvinnuleysis sem stafar af veikindum hans.

Svæðisvinnumiðlun getur óskað eftir að umsækjandi leggi fram vottorð um vinnufærni sína sé um skerta vinnufærni að ræða.

Svæðisvinnumiðlun er heimilt að leita álits trúnaðarlæknis Atvinnuleysistryggingasjóðs á vinnufærni umsækjanda.

 

3.

            Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitendavottorð dags. 2. janúar 2003 sem staðfestir að kærandi hafi starfað hjá X ehf. til 30. nóvember 1999 er hann hætti vinnu og hverfur af vinnumarkaði.  Þá hafði hann áunnið sér bótarétt að hlutfalli 97%.  Fimmtán mánuðum seinna eða þann 1. mars. 2002 er metin 75% öryrki og óvinnufær vegna veikinda til 30. júní 2002.  Kærandi skráir sig ekki hjá vinnumiðlun fyrr en 20. desember 2002, þ.e. hann er vinnufær en er ekki á vinnumarkaði í sex mánuði í viðbót.  Bótaréttur getur geymst í allt að 24 mánuði samkvæmt 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.  Er kærandi skráði sig hjá vinnumiðlun hafði hann ekki verið á innlendum vinnumarkaði í samtals 21 mánuð.  Ekkert segir í lögunum að ef um veikindi er að ræða samkvæmt 4. gr. laganna samhliða geymdum bótarétti að hann verði að vera annað hvort fyrir eða eftir veikindin en ekki bæði. Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að slík túlkun væri óeðlileg og ekki í anda laganna.

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið í máli B staðfest.

 

 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

            Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 18. mars 2003 um að hlutfall bótaréttar B skuli vera 97% en staðfest.    

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Frið­jón Guðröðarson

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                             Benedikt Davíðs­son

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni