Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga, hlutastarfi sagt upp, fellt úr gildi.
Nr. 58 - 2003

Úrskurður

 

Hinn 23. júní 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 58/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

1.

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið samþykkti á fundi sínum þann 22. apríl 2003 umsókn A um atvinnuleysisbætur.  Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði dags. 19. mars 2003 um starfslok hennar hjá X var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem segir að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skuli það varða missi bótaréttar í 40 bótadaga. 

2.

A kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi  dags. 22. maí 2003. Í bréfi sínu segir hún m.a. að um hafi verið að ræða óverulegt hlutastarf, þ.e. 13% starfshlutfall við blaðaútburð sem unnið var utan hefðbundins vinnutíma, m.a. á laugardögum.  Ef einstaklingi á bótum væri boðin slík vinna þá væri nokkuð víst að viðkomandi gæti hafnað henni án skerðingar á bótum, þar sem hér sé um að ræða verulega takmarkaða óhefðbundna vinnu sem unnin er utan venjulegs vinnutíma.  Í bréfi sínu vísar hún til 6. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem kveði á um að heimilt sé að greiða bætur á móti hlutastarfi í allt að tuttugu og fjóra mánuði á hverju bótatímabili.  Að þeim tíma liðnum geti ekki komið til greiðslu á hlutabótum samkvæmt greininni.  Kjósi umsækjandi að segja starfi sínu lausu innan 24 mánaða tímabilsins, fremur en að missa hinn skerta bótarétt sinn, eigi ákvæði 4. tölul. 5. gr. laganna um niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga ekki við. 

A telur að samkvæmt þessari grein geti hlutaðeigandi sagt upp hlutastarfi sínu hvenær sem er á 24 mánaða tímabilinu án þess að þurfa að sæta 40 daga niðurfellingu bótaréttar.   A telur að þar sem lögin kveða á um bótamissi vegna höfnunar á starfi sem býðst á vegum svæðisvinnumiðlunar þá sé einungis verið að ræða um almenn störf, blaðaútburður teljist ekki til slíkra starfa.

 

3.

            Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá Frétt ehf.  þar sem fram kemur að A starfaði við blaðburð hjá fyrirtækinu tímabilið 13. desember 2002 til 10. febrúar 2003 er hún sagði upp starfi sínu.  Samkvæmt símtali við dreifingastjóra blaðsins bar A aðeins út blaðið í einu hverfi.  Um var að ræða eins klukkutíma vinnu og jafngildir það 10-13% starfshlutfalli.  Fram kemur að bótaréttur A er 46%.

 

Niður­staða

1.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar veldur það missi bótaréttar ef einstaklingur hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem hann sjálfur á sök á.  Um missi bótaréttar samkvæmt þessari grein gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laganna, en þar er mælt fyrir um niðurfellingu bótarréttar í 40 bótadaga.

 

2.

Þá er einnig bent á ákvæði 6. tölul. 2. gr. laganna þar sem það er sett sem skilyrði bótaréttar að bótaþegi sé reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa.

Þessi skilyrði er áréttuð frekar í 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 en þar segir orðrétt: ,,Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a.         Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

b.         Að vera fullfær til vinnu.

c.         Að fylgja starfsleitaráætlun sem gerð hefur verið á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, eða skrá sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila.

 

3.

Í 4. mgr. 13. gr. laga nr. 12/1997 segir að bjóðist hinum atvinnulausa starf sem að starfshlutfalli er minna en bótaréttur hans segir til um skuli úthlutunarnefnd meta með hliðsjón af möguleikum hans á fullu starfi, sbr. og 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga þessara, hvort honum sé eftir atvikum rétt eða skylt að taka því hlutastarfi sem í boði er.

Það er hlutverk vinnumiðlunar að miðla til atvinnuleitanda, sem þiggja bætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, störfum sem vinnuveitendur hafa tilkynnt að laus séu. Er gert ráð fyrir því að vinnumiðlun velji af atvinnuleysisskrá þá einstaklinga sem hún telur koma til greina í slík störf. Ákvörðun vinnumiðlunar um að afhenda bótaþega tiltekið atvinnutilboð felur annars vegar í sér það mat vinnumiðlunar að hann teljist hæfur miðað við fyrirliggjandi upplýsingar frá vinnuveitanda til að taka starfinu og hins vegar kvöð á bótaþega að sinna því tilboði án frekari fyrirvara.

 

4.

Bótaréttur kæranda var ákveðinn 46%. Atvinnutilboð vinnumiðlunar var um 10-13% starf við blaðaútburð.  Í 6. gr. 1 laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um heimild til að greiða bætur á móti hlutastarfi ef bótaréttur er meiri en starfshlutfall.  Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. a er heimilt að greiða slíkar hlutabætur í allt að 24 mánuði á hverju bótatímabili.  Að þeim tíma liðnum getur ekki komið til greiðslu hlutabóta samkvæmt greininni fyrr en að loknum tólf mánuðum í starfi sem gefur rétt til hærra bótahlutfalls en heildarhlutfall þess sem umsækjandi átti áður rétt til.  Í 5. mgr. sömu greinar segir að kjósi umsækjandi að segja starfi sínu lausu þennan tuttugu og fjögurra mánaða tímabilsins fremur en að missa hinn skerta bótarétt sinn þá eigi ákvæði 4. tölul. 5. gr. laganna um missi bótaréttar í 40 bótadaga ekki við.

 

5.

Að teknu tilliti til alls ofangreinds og þess að kærandi var aðeins í 12,5% starfshlutfalli við blaðaútburð en átti rétt á 46% bótahlutfalli er það mat úrskurðarnefndar að kæranda hafi verið í rétti til að segja upp starfi þessu án þess að þurfa að sæta niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.        

 

Úr­skurðar­orð:

 

 

Úrskurðarorð hljóðar svo:  Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 22. apríl 2003 um að A skuli sæta missi bótaréttar í 40 bótadaga, er felld úr gildi.

 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

 

Þuríður Jónsdóttir

Formaður

 

Árni Benedikts­son                                Benedikt Davíðs­son

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni