Synjun á bótarétti námsmanns. Endurgreiðsla ofgreiddra bóta felld úr gildi.
Nr. 9 - 2003

 

Úrskurður

 

 

 

Hinn 24. febrúar 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 9/2003.

 

Málsatvik og kæruefni

 

1.

 

Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 16. desember 2002 að synja umsókn A um atvinnuleysisbætur með vísan í 5. gr. reglugerðar nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta, þar sem segir að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi.  Úthlutunarnefndin ákvað á sama fundi að A bæri að endurgreiða greiddar atvinnuleysisbætur frá 28. febrúar 2002 sem fengnar voru í trássi við ofangreint ákvæði reglugerðar 545/1997 og að mál hans yrði sent lögfræðingi Vinnumálastofnunarinnar til innheimtu.  A var tilkynntum ákvörðun úthlutunarnefndar með bréfi dags. 22. desember s.l.

 

 

A kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til útskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 24. janúar s.l.  Í bréfinu óskar hann eftir því að innheimtumál gegn honum verði fellt niður og hann ekki krafinn um endurgreiðslu á því fé sem hann hefur þegar fengið.  Rökin segir hann þau að hann telji að vinnumiðlunin beri ábyrgð á því að honum hafi verið greiddar bætur þótt hann væri í námi.  Hann hafi tekið við þeim í góðri trú um að hann ætti rétt á þeim.  Starfsmaður vinnumiðlunar hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu sinni skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Hann hafi þann 12. júlí 2001 fyllt út umsókn um atvinnu hjá vinnumiðlun.  Á því eyðublaði hafi komið fram að hann væri í námi.  Síðar, eða þann 28. febrúar 2002 kom hann aftur til vinnumiðlunar og sótti um atvinnu og atvinnuleysisbætur.  Afgreiðslukonan hafi vélritað umsóknareyðublaðið og farið eftir fyrra eyðublaði hans.  Hann sé S ríkisborgari og talar ekki íslensku.  Konan hafi aldrei innt hann eftir því hvort hann væri í skóla.   Hann hafi hins vegar sagt henni að hann byggi á G sem séu stúdentagarðar. Það hefði átt að gefa henni ástæðu til að spyrja hann hvort hann væri í skóla.  Sjálfur hafi hann ekki haft hugmynd um að námsmenn gætu ekki sótt um atvinnuleysisbætur og reyndar fengið upplýsingar um hið gagnstæða og þess vegna hafi hann sótt um bætur.

 

 

 

Niðurstaða

 

1.

 

Lög um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 byggja á þeirri forsendu sbr. 1. gr. laganna, að þeir einir eigi rétt á atvinnuleysisbótum sem eru án atvinnu, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu. Samkvæmt lögunum setur félagsmálaráðherra nánari reglur um framkvæmd laganna og skilyrði bótaréttar.

 

Í 5 gr. reglugerðar nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta er kveðið á um að námsmenn skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi sem stundað er á venjulegum dagvinnutíma, nema annað leiði af samningi um starfsleitaráætlun, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir.

 

Samkvæmt upplýsingum frá nemendaskrá Háskóla Íslands var kærandi skráður í meistaranám í jarðfræði á vorönn 2002 eða tímabilið 8. janúar 2002 til 15. maí 2002.  Á haustönn 2002, eða tímabilið 2. september 2002 til 21. desember 2002 var kærandi síðan skráður í nám í íslensku fyrir erlenda stúdenta.  Þrátt fyrir þetta skráði kærandi sig hjá svæðisvinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins þann 28. febrúar 2002 sem atvinnuleitanda og þáði atvinnuleysisbætur allt til 28. október 2002, er greiðslur til hans voru stöðvaðar þar sem í ljós hafði komið við samlestur Vinnumálastofnunar við gögn Ríkisskattstjóra að kærandi væri samtímis í námi við Háskóla Íslands.

 

2.

 

           

Fyrir liggur í málinu fyrri umsókn kæranda um atvinnu hjá svæðisvinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins.  Umsókn þessi er á ensku og handskrifuð af kæranda.  Stimpill svæðisvinnumiðlunar dags. 12. júlí 2001 er á umsókninni.  Í henni kemur fram að umsækjandi  hafi verið í meistaranámi í jarðfræði við Háskóla Íslands og að hann áætli námslok á árinu 2003. Í umsókn dagsettri 28. febrúar 2002 sem er vélrituð af starfsmanni svæðisvinnumiðlunar eftir fyrra umsóknareyðublaði að sögn kæranda.  Ekkert kemur fram á þessari nýju umsókn um að kærandi sé í námi.  Á vinnuveitandavottorði  dags. 1. mars 2002 kemur fram að kærandi hafi verið í 100% starfshlutfalli hjá Z hf. tímabilið 30. október 2001 til 28. febrúar 2002 er hann sótti um atvinnuleysisbætur.

 

3.

 

Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að ekki hafi verið færð nægjanleg rök fyrir því að kærandi hafi af ásetningi leynt upplýsingum um nám sitt í því skyni að fá greiddar atvinnuleysisbætur.  Við fyrri umsókn sem lá fyrir í máli hans hafði kærandi gefið upplýsingar um nám sitt og að hann áætlaði að námslok yrðu árið 2003.  Þetta og það að kærandi bjó á stúdentagörðum hefðu átt að gefa starfsmanni vinnumiðlunar ástæðu til að grennslast nánar fyrir um hvort kærandi væri í námi.  Að auki er kærandi S ríkisborgari sem talar ekki íslensku ekki hægt að búast við að hann þekki til hlítar reglur sem gilda á Íslandi.  Er leiðbeiningaskylda starfsmanna vinnumiðlunar því ríkari en ella. 

 

Að teknu tilliti til framanritaðs er það mat úrskurðarnefndar að ofgreiðsla atvinnuleysisbóta megi ekki rekja til sakar kæranda heldur eigi hún rót að rekja til ónógrar upplýsingaöflunar vinnumiðlunar er umsókn var móttekin.  Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé rétt að endurkrefja kæranda um ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Synjun úthlutunarnefndar á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur er hins vegar staðfest.

 

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið á fundi dags. 16. desember 2002 um synjun á umsókn A um atvinnuleysisbætur er staðfest.  Ákvörðun úthlutunarnefndar um að A skuli endurgreiða ofgreiddar bætur er hins vegar felld úr gildi.

 

Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta

 

Friðjón Guðröðarson

formaður

Árni Benediktsson                                 Benedikt Davíðsson

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni