Bótaréttur sjálfstætt starfandi einstaklings háður skilum á tryggingagjaldi.
Nr. 26 - 2003

Úrskurður

 

Hinn 17. mars 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 26/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga ákvað á fundi sínum þann 24. febrúar 2003 að synja umsókn B um atvinnuleysisbætur dags. 20. ágúst 2002.  Í ákvörðun nefndarinnar er vísað til þess að B hafi ekki staðið skil á tryggingagjaldi sem sé skilyrði bótaréttar samkvæmt lögum um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997.

 

2.

 

Framangreind ákvörðun út­hlutunar­nefndar var kærð til úr­skurð­ar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta með bréfi Deloitte & Touce dags. 3. mars 2003.  Í bréfinu segir að B hafi á undanförnum tveimur árum átt við stöðugan samdrátt að stríða, en hann hafi haft með höndum rekstur vörubifreiða og starfað á sínum tíma sem sjálfstætt starfandi vörubifreiðastjóri.  Á árinu 1999 hafi rekstrartekjur hans verið kr. 2.437.647, en kr. 3. 184.079 á árinu 2000.  Á árinu 2001 hafi rekstrartekjurnar hins vegar verið komnar niður í kr. 1.891.316 og á árinu 2002 hafi þær aðeins verið kr. 791.168.  Í stað þess að hætta rekstrinum á réttu augnabliki, þannig að bótaréttur hans úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga yrði tryggður, reyndi hann að halda starfsemi sinni gangandi án árangurs.  Þrátt fyrir augljósa viðleitni hafi smátt og smátt fjarað undan rekstrargrundvelli hans, þar til hann var tilneyddur að hætta honum í júlí 2002.  Í framhaldi af því hafi hann selt báða vörubíla sína, annan í ágúst 2002 og hinn í október 2002. Reiknað endurgjald hans hafi verið kr. 554.470 árið 1999, 939.923 árið 2000 og á árinu 2001 var það komið niður í kr. 300.000.  Í ljósi þessa segir í kærunni að það sé ekki í anda laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga  að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur úr sjóðnum.  Á rekstrartíma sínum hafi B greitt að fullu tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi sínu.  Vegna hins mikla tekju- og afkomusamdráttar hafa greiðslur þessara gjalda þróast í þá átt að vera greiddar einu sinni á ári í stað þess að greiðast mánaðarlega.  Með því að skilyrða bæturnar út frá því hvort viðkomandi gjöld hafi verið greidd mánaðarlega sé verið að útiloka réttindi einstaklinga sem uppfylla öll grundvallarskilyrði þess að eiga rétt á bótum úr sjóðnum og þar með ganga gegn tilgangi laganna sem eigi að vera tryggingasjóður atvinnulausra sjóðsfélaga.

 

 

Niður­staða

 

1.

 

Samkvæmt 5. tölul. 4. gr. laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997 eiga þeir rétt til bóta sem hafa á síðustu tólf mánuðum áður en þeir stöðvuðu rekstur eða urðu atvinnulausir staðið mánaðarlega í skilum með greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi í a.m.k. þrjá mánuði áður en rekstur stöðvaðist, en hlutfallslega lengur hafi tekjur af rekstri verið lægri en viðmiðun reiknaðs endurgjalds í hlutaðeigandi starfsgrein samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra. 

Sam­kvæmt 31. gr. laganna skal ráðherra setja nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laganna. Í 3. gr. reglugerðar nr. 525/1998 um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga er fjallað um svokallaða ársmenn.  Í greininni segir að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur fengið samþykki ríkisskattstjóra fyrir því að greiða tryggingagjald vegna reiknaðs endurgjalds einu sinni á ári, skuli hann hafa gert upp skuld sína í tryggingagjaldi vegna síðastliðinni 12 mánaða áður en umsókn hans um atvinnuleysisbætur er afgreidd hjá úthlutunarnefnd. 

Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar skal við útreikning bótahlutfalls umsækjanda byggja á viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um ákvörðun á endurgjaldi sem maður sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal reikna sér sem laun.  Hafi fullt tryggingagjald miðað við lágmark reiknaðs endurgjalds í viðkomandi starfsgrein verið greitt skal það talið jafngilda fullri vinnu þann mánuð.  Hafi fullt tryggingagjald ekki verið greitt skal upphæðinni sem greiða átti deilt í upphæðina sem greidd var og þannig fengið út starfshlutfall viðkomandi fyrir þann mánuð. 

 

2.

 

            Samkvæmt upplýsingum skattstofu Norðurlandsumdæmis eystra var kærandi ekki með reiknað endurgjald á árinu 2002, hvorki í staðgreiðslu né eftir á, og greiddi þar af leiðandi ekkert tryggingagjald á því ári.  Á árinu 2001 var hann ársmaður með kr. 300.000 í reiknað endurgjald og var lagt á hann tryggingagjald samkvæmt því eða kr. 16.631.  Þetta samsvaraði 15,62% starfshlutfalli á árinu 2001 samkvæmt upplýsingum skattstofunnar.   Á árinu 2000 greiddi kærandi kr. 49.963 í tryggingagjald af kr. 939.923.  B sækir um atvinnuleysisbætur þann 28. ágúst 2002.  Ef tekið er tillit til geymds bótaréttar í allt að 24 mánuði samkvæmt 6. gr. laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga er reiknað bótahlutfall kæranda er 19,23% og nær því ekki lágmarki samkvæmt lögum um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga sem er 25%.

 

3.

 

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur uppfylli ekki skilyrði laga um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta.   Ber af þeim sökum að staðfesta úrskurð úthlutunarnefndar.

 

 

 

 

 

 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

            Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta fyrir Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga frá 24. febrúar 2002 um synjun á umsókn B um atvinnuleysisbætur er staðfest.

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Frið­jón Guðröðarson

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                            Benedikt Davíðs­son

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni