Atvinnuleysisbætur með til útlanda

ATVINNULEIT Í EVRÓPU MEÐ U2.

Ef þú þiggur atvinnuleysisbætur getur þú farið í atvinnuleit til Evrópu og haldið dagpeningum þínum. Þá ferðu til útlanda með svokallað U2 vottorð, það  veitir þér rétt til að fá greiddar atvinnuleysisbætur í allt að þrjá mánuði (en þó aldrei í lengri tíma en bótaréttur leyfir) meðan þú ert að leita þér að vinnu í EES ríki. Umsóknareyðublað um U2 er hægt að nálgast á skrifstofum Vinnumálastofnunar um land allt, sem og á vef Vinnumálastofnunar.

Aðalskilyrði þess að fá útgefið U2 vottorð, eru að þú þarft að vera algjörlega atvinnulaus, hafa þegið bætur samfellt í fjórar vikur fyrir brottför og ekki hafa hafnað atvinnutilboði.

Sækja þarf um vottorðið  3 vikum fyrir brottför. Gildistími þess er allt að 3 mánuðir.

Senda skal umsókn um U2-vottorð á netfangið uvottord@vmst.is.

Halda skal áfram að staðfesta atvinnuleit með sama hætti og áður, milli 20. - 25. dags hvers mánaðar inn á „Mínum síðum“ á heimasíðu Vinnumálastofnunnar.

Hafir þú sótt um og hættir við að nota U2 vottorðið, skal strax hafa samband við Vinnumálastofnun og tilkynna að þú munir ekki að nota það.

Þú þarft að halda áfram að staðfesta atvinnuleit með sama hætti og áður, milli 20. - 25. dags hvers mánaðar inn á „Mínum síðum“ á heimasíðu Vinnumálastofnunnar.


Hér er hægt að nálgast eyðublöð fyrir U2


Ef þú hefur sótt um og hættir við að nota U2 vottorðið, skaltu strax hafa samband við Vinnumálastofnun og tilkynna að þú munir ekki að nota það.

 HELSTU SKILYRÐI FYRIR ÚTGÁFU U2 VOTTORÐS ERU EFTIRFARANDI:

  • Ríkisborgararéttur í EES-ríki.
  • Réttur til atvinnuleysisbóta á Íslandi við brottför.
  • Umsækjandi hafi verið samfellt skráður, gefið kost á sér í vinnu og þegið atvinnuleysisbætur samfellt í a.m.k. fjórar vikur fyrir brottfarardag.
  • Umsækjandi sé algjörlega atvinnulaus.
  • Umsækjandi ætli í virka atvinnuleit erlendis.
  • Umsóknarfrestur er 3 vikur fyrir brottfarardag.

SKRÁNING HJÁ VINNUMIÐLUN Í DVALARLANDINU.

Þegar þú kemur til þess lands þar sem þú hyggst leita að vinnu, verður þú eins fljótt og auðið er að fara á næstu vinnumiðlunarskrifstofu og skrá þig sem atvinnuleitanda. Til þess að geta þegið dagpeninga frá upphafi vottorðstímabilsins, verður þú að tilkynna þig innan 7 virkra daga frá gildistöku vottorðsins. Ef þú skráir þig eftir þann tíma þýðir það að þú getur í fyrsta lagi fengið dagpeninga frá skráningardegi. Ef þú getur ekki skráð þig í fyrsta skipti sem þú hefur samband við hina erlendu vinnumiðlun, er nauðsynlegt að fá staðfestingu frá erlendum yfirvöldum um að þú hafir leitað til vinnumiðlunar til þess að reyna að skrá þig.

Vinnumiðlunin í dvalarlandinu staðfestir hvaða dag þú skráðir þig í atvinnuleit erlendis og sendir upplýsingar um það til Greiðslustofu.

Með því að smella hér geturðu fengið yfirlit yfir öll lönd innan EES og upplýsingar um hvaða stofnun er VMST í hverju ríki fyrir sig. 

Vinnumálastofnun getur ekki tekið fyrir kvartanir vegna ákvarðana sem teknar eru í öðrum EES-ríkjum.

HVERS KONAR GREIÐSLU FÆRÐU?

Vinnumálastofnun heldur áfram að greiða atvinnuleysisbætur á vottorðatímabilinu meðan þú ert í atvinnuleit erlendis, að uppfylltum reglum  vinnumiðlunar þess lands sem atvinnuleitandi dvelst í. Erlendu vinnumálayfirvöldin meta einnig og senda tilkynningar til Vinnumálastofnunar, hvort viðkomandi atvinnuleitandi sé virkur í atvinnuleit á vinnumarkaðinum.

FÁIR ÞÚ EKKI ATVINNU Í ÖÐRU EES-RÍKI.

Tímabilið sem þú færð greiddar atvinnuleysisbætur í EES-ríkinu er ekki hægt að framlengja.

Þú verður að muna eftir því að afskrá þig hjá vinnumiðluninni í dvalarlandi áður en þú kemur aftur til Íslands. Þú getur ávallt hætt atvinnuleit erlendis og komið til baka til Íslands innan gildistíma vottorðsins.

Til þess að geta fengið aftur rétt til dagpeninga á Íslandi verður þú að koma aftur til Íslands áður en gildistími vottorðsins rennur út. Í tölulið 2.2.1 á vottorðinu sérð þú hvenær það rennur út. Ef þessi dagur er laugardagur, sunnudagur eða helgidagur, getur þú komið til landsins næsta virkan dag.

Þú hefur 7 virka daga eftir gildistíma vottorðsins til þess að skrá þig eftir komu til Íslands, eins og við brottför. Ef þú skráir þig ekki hjá vinnumiðlun á Íslandi, skv. ofangreindu missir þú rétt til dagpeninga, þegar þú kemur aftur til Íslands. Þá getur þú fyrst fengið dagpeninga þegar þú hefur unnið á Íslandi í minnst þrjá mánuði í a.m.k. 25% starfshlutfalli.

Vinnumálastofnun getur í sérstökum tilfellum framlengt frestinn fyrir komu aftur til Íslands. Vinnumálastofnun getur t.d. heimilað þér að skrá þig eftir að vottorðið rennur út, ef þú getur sannað að þú sért að fara í viðtal vegna atvinnuumsóknar í öðru ríki. Komu til Íslands getur einnig verið frestað getir þú sýnt fram á, að þú hafir verið forfallaður sökum veikinda, en þá þarf að framvísa staðfestingu þess efnis (læknisvottorð). Sækja verður um undanþágu áður en vottorð rennur út.

Frestur á komu aftur til Íslands, verður ekki framlengdur vegna áætlana að dveljast áfram í öðru EES-ríki (fram yfir gildistíma vottorðsins) í þeim tilgangi að bíða eftir dagpeningagreiðslu eða möguleikum á ferð aftur til Íslands.

Þú átt heldur ekki rétt á dagpeningum ef þú ferð í frí í öðru EES-ríki í framhaldi af vottorðatímabilinu.

Ætlir þú ekki að nýta þér áframhaldandi greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði verður þú samt sem áður að tilkynna heimkomu til Vinnumálastofnunar innan 7 virkra daga. Að öðrum kosti þarf að ávinna sér rétt til atvinnuleysisbóta að nýju.

Til að staðfesta komu til baka til Íslands þarftu að mæta á þjónustuskrifstofu VMST með persónuskilríki og brottfararspjaldið.

ENDURNÝJUN Á TÍMABILI

Þú getur fengið U2 vottorð útgefið á ný ef að liðnir eru 6 mánuðir frá lokum fyrra tímabils og þú hefur starfað á þeim tíma á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í 3 mánuði eða lengur. Athugaðu að starfið má ekki hafa verið hluti af vinnumarkaðsaðgerðum, svo sem ráðningarstyrk og uppfyllir að öðru leyti ákvæði laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

 FÁIR ÞÚ ATVINNU Í ÖÐRU EES-RÍKI.

Ef þú færð vinnu í EES-ríki hættir þú að vera atvinnuleysistryggður á Íslandi en þá starfsreynslu sem þú vinnu þér inn í EES-ríkinu (ef þú varst atvinnuleysistryggður þar) getur þú flutt til Íslands ef erlend yfirvöld staðfesta tryggingar- og starfstímabilin með vottorði sem kallast U1. Þú getur snúið þér til viðkomandi atvinnuleysistryggingayfirvalda, áður en þú ferð til Íslands, og beðið þau um tilskilið vottorð.

Ef þú færð hlutastarf á U2 vottorðstímabilinu, eiga viðkomandi atvinnuleysistryggingayfirvöld í EES-ríkinu að upplýsa Vinnumálastofnun um það og þú getur  fengið greiddar hlutabætur á vottorðstímabilinu samhliða hlutastarfi

FLUTNINGUR RÉTTINDA TIL ANNARS EES-RÍKIS – U1.

Ætlir þú að flytja til annars EES-ríkis er hægt að fá vottað að þú eigir rétt til atvinnuleysistrygginga á Íslandi. Á þann hátt er unnt að flytja áunnin atvinnuleysistryggingaréttindi milli Evrópulanda. Þetta er gert með því að sækja um U1 vottorð hjá Vinnumálastofnun og láta með því fylgja vottorð allra vinnuveitanda sem þú hefur starfað hjá sl. 3 ár. Umsóknareyðublöð um U1 og eyðublöð fyrir vottorð vinnuveitanda er hægt að nálgast hjá þjónustuskrifstofum Vinnumálastofnunar og á vef Vinnumálastofnunar.

U1 vottorðið er venjulega sent í pósti til umsækjanda á heimilisfang hans erlendis. U1 vottorðið nýtist ef þú færð vinnu í Evrópu og verður síðan atvinnulaus. Þá getur þú aukið við rétt þinn í dvalarlandinu með því að framvísa U1 vottorðinu. Vottorðið nýtist einnig ef þú hefur áður unnið í dvalarlandinu og þarft að sanna að þú hafir viðhaldið atvinnuleysistryggingu þinni með því að vinna á Íslandi.

Vakin er athygli á að í nokkrum löndum þarf að leggja inn vottorðið hjá atvinnuleysistryggingayfirvöldum innan 8 vikna frá flutningi til landsins.

Við hvetjum þá sem fara í atvinnuleit erlendis að kynna sér evrópska sjúkratryggingakortið: http://www.sjukra.is/heilbrigdisthjonusta/rettindi-milli-landa/evropska-sjukratryggingakortid/


Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni