EURES (European Employment Services) er samstarfsvettvangur opinberra vinnumiðlana milli ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu og er starfrækt í 31 landi í Evrópu. EURES var sett á fót árið 1994 af framkvæmdarstjórn ESB sem hefur yfirumsjón með starfseminni. Markmið EURES er að stuðla að auknum hreyfanleika vinnandi fólks á milli landa og bregðast við staðbundnum sveiflum á vinnumarkaði. Um 900 EURES ráðgjafar eru starfandi í Evrópu og miðla þeir upplýsingum um starfsemi EURES. Haldið er úti öflugri vefgátt sem veitir upplýsingar um allt er viðkemur starfsemi EURES í Evrópu auk þess sem flest lönd halda einnig úti sínum eigin heimasíðum. Á Íslandi má nálgast upplýsingar á heimasíðunni  með því að skoða vefgátt EURES www.eures.europa.eu sem er aðgengileg á 26 tungumálum, þar með talið íslensku.

Báðar heimasíður veita upplýsingar um störf í boði erlendis, auk þess sem þar má finna góð ráð fyrir atvinnuleitendur sem vilja komast út á erlendan vinnumarkað. Vefgátt EURES veitir upplýsingar um starfs- og lífsskilyrði og ástandið á vinnumarkaði í hverju landi fyrir sig auk þess að miðla upplýsingum um alla viðburði EURES í Evrópu. Þar er einnig hægt að fá upplýsingar um starfandi EURES ráðgjafa í hverju landi og er jafnframt boðið upp á netspjall við ráðgjafa í ákveðnum löndum.  

Starfsemi EURES á Íslandi er hluti af þjónustu Vinnumálastofnunar. Hægt er að koma í opna viðtalstíma hjá EURES ráðgjafa mánudaga til fimmtudaga frá kl. 13:00 – 15:00 en einnig er hægt að panta viðtal eða senda fyrirspurn á netfangið: eures@vmst.is

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu