Biðtími og viðurlög

Uppfylli umsækjandi um atvinnuleysisbætur ekki skilyrði laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar við skráningu og/eða á meðan hann fær greiddar atvinnuleysisbætur getur komið til biðtíma og/eða viðurlaga. Einnig getur komið til ítrekunaráhrifa hafi umsækjandi áður sætt biðtíma og/eða viðurlögum.

Athugaðu að það þarf að staðfesta atvinnuleysi milli 20.-25. hvers mánaðar á meðan biðtíma/viðurlögum stendur.

Ef atvinnuleysi er ekki staðfest á tilgreindum tíma frestast biðtíminn/viðurlögin þar til staðfesting hefur farið fram.

Niðurfelling atvinnuleysisbóta vegna biðtíma/viðurlaga er skv. neðangreindu:

 • 2 mánuðir. (Almennt er biðtími tveir mánuðir)
 • 3 mánuðir. (Ef um ítrekun er að ræða er biðtíminn þrír mánuðir)
 • Umsækjandi þarf að vinna sér inn bótarétt að nýju. (Á við um þá sem vinna samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur en tilkynna ekki um vinnu til Vinnumálastofnunar.)
 • Umsækjandi á ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað í samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði. (Þessi regla gildir um þá sem sæta viðurlögum og hafa þegið bætur í 24 mánuði eða lengur. Á einnig við um þá sem sæta viðurlögum í þriðja sinn.

Að vinna af sér biðtíma/viðurlög

Hafir þú verið beitt/ur biðtíma eða viðurlögum í tvo mánuði kunna þau að falla niður að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:

 • Þú hafir tekið starfi í a.m.k. hálfan mánuð áður en þú sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Í því felst jafnframt að þú hafir afskráð þig af atvinnuleysisbótum.
 • Þú hafir ekki sagt starfinu upp án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem þú sjálf/ur átt sök á.

Séu eftirfarandi skilyrði ekki uppfyllt, t.d. ef starfið varir í skemmri tíma eða ef þú hefur sagt starfi þínu upp án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem þú átt sök á heldur viðurlagatíminn/biðtíminn áfram að líða þegar þú sækir aftur um atvinnuleysisbætur. 


Starfslok/Námslok:

Umsækjandi um atvinnuleysisbætur getur þurft að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum í upphafi bótatímabils ef:

 • starfi er sagt upp án gildra ástæðna,
 • umsækjandi er valdur að eigin uppsögn,
 • námi er hætt án gildra ástæðna,
 • dregið er úr námshlutfalli til að uppfylla skilyrði um námssamning.

Berist skýringabréf vegna starfsloka / námsloka með umsókn um atvinnuleysisbætur flýtir það afgreiðslu umsóknarinnar. Berist skýringabréf ekki er afgreiðslu umsóknar frestað og umsækjanda gefinn kostur á að skila inn skýringum / andmælum vegna mögulegrar ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Umsækjendur sem sæta biðtíma í upphafi bótatímabils eiga ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum.

Starfi eða atvinnuviðtali hafnað/Þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum hafnað:

Atvinnuleitendur geta jafnframt þurft að sæta viðurlögum ef þeir t.d.:

 • hafna starfi sem býðst fyrir milligöngu stofnunarinnar, án þess að hafa til þess gildar ástæður,
 • taka ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar eða fylgja slíkri áætlun ekki eftir,
 • hafna þeim úrræðum sem Vinnumálastofnun bjóða þeim t.d. þátttöku á námskeiðum,
 • mæta ekki í boðuð viðtöl eða á fund Vinnumálastofnunar, án gildra ástæðna.

Látið hjá líða að veita upplýsingar eða látið hjá líða að tilkynna breytingar á högum:

Atvinnuleitandi skal tilkynna skal til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum, t.d.:

 • um tilfallandi vinnu,
 • hlutastarf,
 • fullt starf / atvinnuleit hætt,
 • aðrar tekjur sem umsækjandi fær samhliða atvinnuleysisbótum,
 • nám/námskeið,
 • ef farið er erlendis án U2 vottorðs,
 • dvöl erlendis,
 • veikindi,
 • skerta vinnufærni / óvinnufærni,
 • breytingu á símanúmeri og/eða netfangi.

Sé slíkri upplýsingaskyldu ekki fullnægt getur það leitt til viðurlaga og innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt X kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. 

Atvinnuleysisbóta aflað með sviksamlegum hætti:

Láti umsækjandi um atvinnuleysisbætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum skv. lögum um atvinnuleysistryggingar eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta skal ekki eiga rétt á greiðslu fyrr en hann hefur starfað a.m.k. í 12 mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur.

Atvinnuleitandi sem hefur verið á skrá hjá  Vinnumálastofnun í fjórar vikur eða lengur og verður uppvís að því að starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu  eða að atvinnuleit sé hætt, skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur.

Umsækjanda er jafnramt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.


Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni