Vinnumálastofnun fer með framkvæmd laga nr. 45/2007 um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, starfsmennirnir eru í daglegu máli kallaðir útsendir starfsmenn (e. posted workers). Þá fer Vinnumálastofnun einnig með framkvæmd laga nr. 139/2005 um starfsmannaleigur (e. temporary work agencies).

Markmið laganna er að skýra línur og efla eftirlit varðandi gildi íslenskra kjarasamninga og annarra starfskjara á Íslandi um aðbúnað, óháð því hvort fyrirtækið er íslenskt eða erlent. Lögunum er ætlað að tryggja enn frekar að útlendingar sem hingað koma tímabundið á vegum erlendra fyrirtækja starfi hér á landi með löglegum hætti. Lögin taka mið af ákvæðum EES-samningsins og tilskipunum ESB um þjónustuviðskipti, stuðla að jafnri samkeppnisstöðu íslenskra og erlendra fyrirtæki og er ætlað að vinna gegn félagslegum undirboðum.

Bæði starfsmannaleigum og erlendum þjónustufyrirtækjum er skylt að tilkynna sig til Vinnumálastofnunar ásamt því að veita upplýsingar um starfsmenn sína sem starfa hér á landi og skila inn afriti af ráðningarsamningum. Skráningin og veiting upplýsinganna er gerð með rafrænum hætti hér á vefnum.

Í upphafi er rétt að gera grein fyrir muninum á milli erlendra þjónustufyrirtækja sem hafa útsenda starfsmenn í vinnu hér á landi annars vegar og starfsmannaleigum hins vegar.

  • Um er að ræða Þjónustufyrirtæki þegar starfsmaður/menn er sendur hingað til lands til starfa undir verkstjórn þess í tengslum við samning við notendafyrirtæki um veitingu þjónustu hér á landi. Einnig er um að ræða þjónustufyrirtæki þegar starfsmaður/menn er sendur hingað til lands á vegum fyrirtækisins til starfsstöðvar eða fyrirtækis í eigu sömu fyrirtækjasamstæðu hér á landi.
  • Um er að ræða starfsmannaleigu þegar starfsmaður er leigður gegn gjaldi til að sinna störfum á vinnustað innlends notendafyrirtækis undir verkstjórn þess.

Það sem greinir því á milli þjónustufyrirtækja annars vegar og starfsmannaleiga hins vegar er verkstjórnin. Fari notendafyrirtæki með verkstjórn þá er um að ræða starfsmannaleigu. Skráningin til Vinnumálastofnunar tekur mið af þessari aðgreiningu, því skal þetta atriði skoðast í upphafi. Matið er þó ávallt endanlega í höndum Vinnumálastofnunar. Í vafa leitið til Vinnumálastofnunar.

Það skal tekið fram að ávallt er átt við um þjónustufyrirtæki eða starfsmannaleigu sem hefur staðfestu innan evrópska efnahagssvæðisins. Sé starfsmaður sendur hingað til lands sem ekki er ríkisborgari ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu eða EFTA-ríkis eða Færeyja ber að skila inn upplýsingum um gildi atvinnuleyfis í heimaríki. Ef það liggur ekki fyrir ber að sækja um útgáfu atvinnuleyfis hjá Vinnumálastofnun, sjá nánar hér um Atvinnuleyfi og réttindi útlendinga.

Að mörgu er að huga þegar erlent fyrirtæki sendir hingað til lands starfsmenn, bæði í skattalegu og almanna- og sjúkratryggingalegu tilliti. Vinnumálastofnun hefur tekið saman þau helstu atriði sem varða málaflokkinn:

Starfsmannaleigur
Erlendir starfsmenn sem koma hingað til lands á vegum starfsmannaleiga eru skattskyldir hér á landi samkvæmt 1. tl. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Bera þeir því takmarkaða skattskyldu og greiða tekjuskatt skv. 1. tl. 70. gr. sömu laga.  Þeir eiga rétt á persónuafslætti og þurfa að sækja um skattkort til ríkisskattstjóra. Dvelji starfsmenn hér þó lengur en í 183 daga á 12 mánaða tímabili, bera þeir ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Íslenska notendafyrirtækið ber skattalega ábyrgð sem launagreiðandi, hafi starfsmannaleiga ekki staðið réttilega í skilum á staðgreiðslu, sbr. 20. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda.

 

Útsendir starfsmenn
Erlendir starfsmenn sem koma hingað til lands eru skattskyldir hérlendis.

Ísland hefur hins vegar gert tvísköttunarsamninga við fjölmörg ríki (listann má sjá á https://www.rsk.is/einstaklingar/skattskylda/tviskottunarsamningar/#tab2). Allir eiga það sammerkt að dvelji starfsmaður erlends félags hér á landi í styttri tíma en 183 daga á 12 mánaða tímabili, heldur starfsmaðurinn skattskyldu í heimaríki sínu. Fari dvalartími hins vegar yfir 183 daga flyst skattskyldan til vinnuríkisins. Starfsmaðurinn þarf ekki að sækja sérstaklega um undanþágu vegna þessa.

Ekki er greitt fullt tryggingagjald af þessum starfsmönnum, hafi þeir A1 vottorð frá sínu heimaríki. Tryggingagjald vegna þessara starfsmanna er 0,425% á staðgreiðsluárinu 2016.

sjá nánar á https://www.rsk.is/atvinnurekstur/skattar-og-gjold/tryggingagjald/). 

 Skattskylda notendafyrirtækja, erlendra fyrirtækja og starfsmannaleiga
Fyrirtæki sem senda hingað starfsmenn eru skattskyld á Íslandi skv. 3. tl. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, af þeirri þjónustu sem innt er af hendi hér á landi. Hægt er að sækja um undanþágu frá þessari skattlagningu skv. ákvæðum tvísköttunarsamninga og er það gert á eyðublaði RSK 5.42. Undanþágan gildir til eins árs í senn.

Kaupandi þjónustunnar er skilaskyldur skv. ákvæðum laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sjá nánar á www.rsk.is

 

Almannatryggingar - Tryggingastofnun

Einstaklingur sem sendur er hingað til að starfa tímabundið, getur sótt um að falla áfram undir almannatryggingalöggjöf heimalands síns að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Áætlaður dvalartími má ekki vera lengri en 24 mánuðir, sbr. rg. EB nr. 883/2004.  

Útsendir starfsmenn og starfsmenn starfsmannaleiga sem koma hingað til lands til að starfa tímabundið þurfa að skila inn svokölluðu A1 vottorði til Tryggingastofnunar frá tryggingalandi sínu. 

A1 vottorð segir til um undir hvaða almannatryggingalöggjöf viðkomandi einstaklingur fellur meðan á erlendum starfstíma stendur. A1 vottorð er sönnun þess að starfsmaður falli undir tryggingalöggjöf þess EES-lands sem gefur út vottorðið meðan á starfstíma erlendis stendur. Vottorðið er gefið út fyrir ákveðið starfstímabil og kemur tímabilið fram á vottorðinu.

Æskilegt er að sækja um A1 vottorð áður en atvinna í öðru EES-landi hefst. Það getur skipt verulegu máli að hafa A1 vottorð meðferðis þar sem það kemur í veg fyrir að tryggingagjald verði innheimt bæði hér á landi og í öðru EES-landi.

Hægt er að skila inn A1 vottorðum á tölvupósti (tr@tr.is) eða póstleiðis (Tryggingastofnun, Laugavegur 114, 105 Reykjavík).

Nánar á www.tr.is

 

Slysatrygging – Sjúkratryggingar Íslands

Launþegar sem starfa hérlendis teljast slysatryggðir sbr. 29. gr. laga um almannatryggingar, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Tryggingin gildir almennt aðeins um launþega sem starfa á Íslandi og fá greidd laun á Íslandi. Hægt er að veita undanþágu frá slysatryggingu hérlendis ef starfsmaður er sannanlega tryggður í heimalandi sínu samkvæmt slysatyggingarlöggjöf heimalandsins (S-1).

Launþegar sem sendir eru til Íslands af erlendu fyrirtæki til starfa hérlendis en fá greidd laun í heimalandi sínu teljast almennt ekki slysatryggðir á Íslandi. 

Nánar á www.sjukra.is

 

Lög um iðnaðarmenn

Samkvæmt iðnaðarlögum nr. 42/1978 má enginn starfa við löggilta iðngrein hér á landi án þess að hafa fengið útgefið leyfi til þess. Ríkisborgarar Evrópska efnahagssvæðisins sem ætla að starfa á við löggilta iðngrein hér á landi skulu afla sér staðfestingar á menntun og starfsréttindum sínum áður en þeir hefja störf hér á landi. Nánari upplýsingar um það ferli má nálgast á Europass eða hjá Iðan fræðslusetri.

Smellið hér til að skrá þjónustufyrirtæki frá Evrópska efnahagssvæðinu.

Smellið hér til að skrá starfsmannaleigu

Smellið hér til að nálgast nánari upplýsingar vegna þjónustufyrirtækis frá Evrópska efnahagssvæðinu

Smellið hér til að fá nánari upplýsingar um starfsmannaleigur

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni