Greiðslur og Greiðsluseðlar

Greiðslur atvinnuleysisbóta fyrir allt landið fara fram hjá Greiðslustofu Vinnumálastofnunar

Greiðslur atvinnuleysistrygginga fara fram  síðasta virka dag hvers mánaðar.

Athygli er vakin á því að að umsækjendur þurfa að staðfesta atvinnuleit sína mánaðarlega frá 20. – 25. hvers mánaðar til að tryggja greiðslur um mánaðarmót. Atvinnuleit er staðfest á "Mínar síður" atvinnuleitanda.

  • Greiðslur til umsækjenda sem staðfesta atvinnuleit frá 20. - 25. hvers mánaðar eru afgreiddar síðasta virka dag í mánuði.
  • Greiðslur til umsækjenda sem staðfesta atvinnuleit sína milli 26. og 3. næsta mánaðar eru ekki afgreiddar fyrr en eftir 1. viku mánaðarins.
  • Greiðslur til umsækjanda sem staðfesta atvinnuleit sína eftir 3. næsta mánaðar greiðast með útborgun næstu mánaðarmóta.

Atvinnuleysisbætur hafa ekki skilað sér: 

  • Gleymdir þú að staðfesta atvinnuleit milli 20. - 25.? 

    Þeir sem staðfesta frá 26. - 3. næsta mánaðar fá greitt fimm virkum dögum eftir fyrstu útborgum. Þeir sem staðfesta eftir 3. dag mánaðar fá greitt næstu mánaðarmót á eftir

  • Er búið að afgreiða umsóknina þína? 

    Afgreiðsla umsókna getur tekið mismunandi langan tíma. Stundum vantar gögn og þá þarf að óska eftir þeim o.s.frv. og ef þau berast ekki fyrir 20. hvers mánaðar þá er ekki öruggt að þú fáir greitt um mánaðarmótin þar á eftir

  • Atvinnuleysisbætur eru alltaf greiddar út síðasta virka dag mánaðarins

    Ef 1. dagur mánaðarins er á laugardegi þá eru atvinnuleysisbæturnar greiddar út á mánudeginum þar á eftir

  • Áttir þú ótekið orlof sem þú ráðstafaðir ekki? 

    Orlof frá fyrra tímabili verður þú að klára áður en þú byrjar á atvinnuleysisbótum. Orlof sem þú hefur áunnið þér á nýju orlofstímabili getur þú ráðstafað á næsta orlofstímabili. Orlofstímabilið er frá 1. maí til 15. september ár hvert. Orlofsdagar sem þú vinnur þér fyrir 1. maí á hverju ári á að nota á næsta orlofstímabili (sem hefst 1. maí) 

  • Hefur þú ekki svarað bréfi frá Vinnumálastofnun?  

    Mikilvægt er að verða við öllum bréfum frá Vinnumálastofnun. Annars er litið svo á að þú sért ekki í virkri atvinnuleit eða mögulega uppfyllir ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 og greiðslur stöðvaðar þar til umbeðnar upplýsingar berast.

Greiðsluseðlar

Þeir sem eru skráðir rafrænt hjá vmst.is geta sótt greiðsluseðla sína með því að innskrá sig inn á "Mínar síður" undir "Greiðsluseðlar"

Þeir sem eru ekki skráðir rafrænt hjá vmst.is geta sótt greiðsluseðla sína með því að innskrá sig hjá  https://innskraning.island.is/?id=minarsidur.tr.is

Greiðsluseðill Vinnumálastofnunar skiptist í þrjú svæði

  • Efri hluti seðilsins sýnir útborgun og ráðstöfun greiðslna.

  • Fyrir miðju eru upplýsingar um nýtingu á bótarétti.

  • Neðri hluti gefur upplýsingar um greiðslur frá áramótum ásamt skuldastöðu.

Skýringar á texta greiðsluseðils

Mánaðargreiðslur - Greitt er fyrir 1. til síðasta dags mánaðar. Greiiðsa fer fram síðasta virka dag hvers mánaðar.

Hlutfall – sýnir hlutfallslegan bótarétt einstaklingsins og getur líka sýnt starfshlutfall þegar textinn Skerðing mán.peninga v/hlutastarfs er fyrir framan.

Upphæð sýnir þá upphæð sem er til greiðslu eða frádráttar fyrir viðkomandi tímabil.

Nýttir mánuðir sýnir hlutfallstölu sem segir til um fyrir hversu stóran hluta tímabilsins er verið að greiða. Þar sem útreikningur er sýndur í tveimur tímabilum sýna samanlagðar tölur fyrir bæði tímabilin 100% þegar greitt er fyrir allt tímabilið.

Barnapeningar sýna greiðslur vegna barna en þær eru 4% fyrir hvert barn, af 100% mánaðargreiðslu fyrir tímabilið sem greitt er fyrir.

Tekjutengdir mánaðarpeningar sýna greiðslur vegna tekjutengdra mánaðarpeninga og getur umsækjandi átt rétt til þeirra í 3 mánuði.

Biðtími tekjutengingar sýnir að tekjutenging kemur ekki til útreiknings fyrr en einstaklingur hefur verið umsækjandi í hálfan mánuð eða 0,50 af mánuði.

Iðgjald í lífeyrissjóð sýnir þá upphæð sem er til frádráttar til greiðslu í lífeyrissjóð. Í sömu línu birtist til hvaða lífeyrissjóðs er greitt.

Iðgjald í séreignarsjóð (undanþegið staðgr.) sýnir þá upphæð sem er til frádráttar til greiðslu í séreignasjóð.

Iðgjald í séreignarsjóð (umfram undanþ. staðgr.) sýnir þá upphæð sem er til frádráttar til greiðslu í séreignasjóð en er umfram það sem er undanþegið staðgreiðslu.

Iðgjald í verkalýðsfélag sýnir þá upphæð sem er til frádráttar til greiðslu til stéttarfélags.

Staðgreiðsla – sýndur er skattstofn vegna mánaðargreiðslunnar, nýting persónuafsláttar og reiknuð staðgreiðsla sem er til frádráttar.

Persónuafsláttur sýnir hversu mikill persónuafsláttur er nýttur við mánaðargreiðsluna.

Innheimtustofnun – sýnir upphæð sem greidd er til Innheimtustofnunar vegna meðlags.

Skerðing mán.peninga v/hlutastarfs – Sýnir skerðingu mánaðargreiðslna vegna hlutastarfs. Sýnt er tímabilið sem hlutastarfið skerðir og starfshlutfall einstaklingsins, en mánaðargreiðslur skerðast um þá hlutfallstölu. Að lokum birtist síðan upphæðin sem er  til frádráttar. Ef um endurgreiðslu er að ræða vegna þess að áður hafi skerðing verið of mikil þá birtist upphæðin sem plús tala.

Skerðing v/tekna - Sýnir skerðingu mánaðargreiðslna vegna tekna. Sýnt er tímabilið sem tekjurnar skerða og upphæð sem er  til frádráttar. Ef um endurgreiðslu er að ræða vegna þess að áður hafi skerðing verið of mikil þá birtist upphæðin sem plús tala.

Skerðing mán.peninga v/uppsagnar sýnir það tímabil sem skert er vegna biðtíma skv. X. kafla laga nr. 54/2006.

Skerðing mán.peninga v/höfnunar á úrræði sýnir það tímabil sem skert er vegna viðurlaga skv. XI. kafla laga nr. 54/2006.

Skerðing mán.peninga v/orlofs sýnir það tímabil sem skerðist þegar einstaklingur er skráður í orlof og fær hann ekki greitt fyrir sama tíma.

Skerðing mán.peninga v/vinnumarkaðsaðgerða sýnir það tímabil sem nýtt er vegna vinnumarkaðsaðgerða svo sem starfsþjálfunar, sérstakra átaksverkefna, reynsluráðningar og frumkvöðlastarfs. Einstaklingur sem er skráður í vinnumarkaðsaðgerð nýtir af rétti sínum til atvinnuleysistrygginga.

Skerðing mán.peninga v/biðtíma sýnir það tímabil sem skert er vegna viðurlaga.

Ekki atvinnulaus(skerðing mán.peninga) sýnir það tímabil sem skert er þegar umsækjandi er ekki metinn atvinnulaus og upphæð sem skert er um.

Skerðing mán.peninga v/veikinda sýnir það tímabil sem skert er þegar umsækjandi hefur verið veikur og þá upphæð sem skert er um. Hafi umsækjandi fengið ofgreitt kemur ofgreiðslan til frádráttar, þó aldrei meira en 25% af útborgun.

Skerðing mán.peninga v/brots á 39.gr. sýnir eldri ráðstöfun þar sem daggreiðslur höfðu verið skertar vegna ofgreiddra bóta/skuldar.    

Skerðing tekjutengingar gerist með sama hætti og skerðing mánaðargreiðslna en þá birtast í staðinn eftirfarandi textar.

  • Skerðing tekjutengingar v/hlutastarfs

  • Skerðing tekjutengingar v/uppsagnar

  • Skerðing tekjutengingar v/höfnunar á úrræði

  • Skerðing tekjutengingar v/orlofs

  • Skerðing tekjutengingar v/vinnumarkaðsaðgerða

  • Skerðing tekjutengingar v/biðtíma

  • Ekki atvinnulaus(skerðing tekjutengingar)

  • Skerðing tekjutengingar v/veikinda

  • Skerðing tekjutengingar v/brots á 39.gr.

  • Skerðing tekjutengingar v/bótaréttar

     

Lagt inn á bankareikning  sýnir bankareikningsnúmer sem lagt er inn á og þá upphæð sem greidd er í banka.

Flutt í skuldapott sýnir upphæð sem ofgreidd hefur verið og myndað skuld sem fer til innheimtu. Ef umsækjandi sækir áfram um atvinnuleysisbætur munu greiðslur til hans skerðast um allt að 25% þar til skuldin er innheimt en skuld umsækjanda sem er afskráður fer í innheimtu.

Flutt úr skuldapotti sýnir upphæð sem er til frádráttar og skerðir greiðslur í útborguninni. Upphæðin er vegna skuldar sem myndast hafði vegna ofgreiðslu. Skerðing getur verið allt að 25% af mánaðargreiðslu þar til skuld er að fullu innheimt.

Skuldastaða sýnir hver heildarskuld umsækjanda er við Vinnumálastofnun en skuldin hefur myndast vegna ofgreiðslna.

Innborgun (endurgreiðsla) sýnir innborgun inn í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar. Innborgun á sér stað þegar umsækjandi hefur endurgreitt skuld.

Óútskýrt er texti sem gæti birst með eldri færslum og kemur í stað ráðstafana sem eru til jöfnunar á milli tölvukerfa þegar flutt er úr dagakerfi yfir í mánaðakerfi eða þegar skýringu hefur vantað vegna breytinga.

Skráðir mánuðir (E303) sýnir það tímabil sem einstaklingur hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur erlendis.

Tekjutengdir mánuðir (E303) sýnir það tímabil sem einstaklingur hefur nýtt af rétti sínum til tekjutengdra atvinnuleysisbóta þegar hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur erlendis.

Greiddir vextir sýnir vexti sem Vinnumálastofnun greiðir vegna vangreiddra atvinnuleysisbóta.

Afdregnir vextir sýnir vexti sem umsækjandi greiðir Vinnumálastofnun vegna skuldar.

Fjármagnstekjuskattur af vöxtum – sýnir greiðslu Vinnumálastofnunar til Ríkisskattstjóra vegna vaxtagreiðslna.

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni