Fæðingarorlof lengt í 12 mánuði

Alþingi hefur samþykkt frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um lengingu fæðingarorlofs og fæðingarstyrkja úr 10 mánuðum í 12 mánuði. Lengingin á við um foreldra barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar.

Þá nýbreytni er að finna í lögunum að sjálfstæður réttur hvors foreldris er 6 mánuðir en heimilt er að framselja allt að 1,5 mánuði milli foreldra. Þannig getur annað foreldrið tekið allt að 7,5 mánuði af 12 mánaða réttinum og hitt foreldrið 4,5 mánuði henti það aðstæðum foreldra.

Meðal annarra breytinga má nefna:

  • Fjölgun tilvika sem leitt geta til lengingar, framsals eða tilfærslu á rétti foreldris til fæðingarorlofs eða styrks. Nánar má lesa um tilvikin í 9. og 30. gr.
  • Við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu skapast sjálfstæður réttur í 2 mánuði á hvort foreldri en var áður 2 sameiginlegir mánuðir.
  • Foreldri sem hefur hætt atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis telst áfram tryggt hafi ekki liðið meira en 10 virkir dagar þar til atvinnuleit hefur hafist að nýju samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
  • Rýmkaður er réttur til að greiða foreldri lengra aftur í tímann frá því umsókn barst eða allt að 3 mánuði á undan þeim almanaksmánuði sem umsókn barst.
  • Heimilt er að skipta greiðslutímabili fæðingarstyrks á fleiri en eitt tímabil. Þó getur tímabilið varað skemmst hálfan mánuð í senn.
  • Skerðingar- og eftirlitsákvæði hafa verið skýrð nánar.
  • Foreldrar sem hafa fengið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar eða á grundvelli mannúðarsjónarmiða í fyrsta skipti geta átt rétt á fæðingarstyrk.
  • Sérstakan styrk til barnshafandi foreldris sem að mati sérfræðilæknis er nauðsynlegt að dvelja fjarri heimili sínu í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar.

Nánar má lesa um breytingar á:

Vef Alþingis: https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=151&mnr=323

Vef félagsmálaráðuneytis: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/12/18/Frumvarp-um-faedingar-og-foreldraorlof-samthykkt-a-Althingi/

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni