Lög um sorgarleyfi nr. 77/2022 taka gildi 1. janúar 2023

Þann 1. janúar nk. taka gildi lög um sorgarleyfi, nr. 77/2022. Markmið laganna er að tryggja foreldrum svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis og eftir atvikum til að styðja við eftirlifandi systkin við að aðlagast breyttum aðstæðum. Einnig er þeim ætlað að auka líkur á að foreldrar geti átt farsæla endurkomu á vinnumarkað og geti tekið virkan þátt í samfélaginu að nýju í kjölfar barnsmissis. Lögin taka til réttinda foreldra sem hafa verið í samfelldu starfi á innlendum innumarkaði til sorgarleyfis sem og greiðslna til að koma til móts við tekjutap þeirra á því tímabili sem sorgarleyfi varir. Einnig taka lögin til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldra í fullu námi til sorgarstyrks. Réttur foreldris til sorgarleyfis eða sorgarstyrks er í allt að sex mánuði frá þeim tíma sem það verður fyrir barnsmissi og fellur niður 24 mánuðum síðar.

Réttur til greiðslna vegna andvanafæðingar eða fósturláts verður frá 1. janúar nk. hluti af lögum um sorgarleyfi nr. 77/2022 en var áður hluti af lögum um fæðingar- og foreldraorlof.  Réttur foreldris vegna andvanafæðingar er allt að þrír mánuðir frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu og tveir mánuðir ef um fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu er að ræða. Rétturinn fellur niður 24 mánuðum eftir andvanafæðingu eða fósturlát. 

Hámarksgreiðslur í sorgarleyfi vegna barnsmissis verða samkvæmt frumvarpinu 600.000 kr. á mánuði. Einnig er gert ráð fyrir að foreldrar geti nýtt rétt sinn til sorgarleyfis samhliða minnkuðu starfshlutfalli og einnig yfir lengra tímabil enda sýna niðurstöður rannsókna fram á mikilvægi þess að einstaklingar sem verða fyrir áföllum í lífinu haldi sambandi við vinnumarkaðinn eins og þeir treysta sér til hverju sinni.

Frá 1. janúar nk. verður hægt að sækja um sorgarleyfi eða sorgarstyrk á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs.

Nánari upplýsingar um sorgarleyfið má finna hér.

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni