Stórefla stuðning við ungt fólk í viðkvæmri stöðu til að fyrirbyggja brotthvarf af vinnumarkaði

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Páll Ásgeir Guðmundsson, forstöðumaður efnahags- og samkeppnishæfnisviðs hjá Samtökum atvinnulífsins, Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, og Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs, skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um stóraukinn einstaklingsmiðaðan stuðning við ungt fólk í viðkvæmri stöðu. Meira en 450 milljónum króna verður varið til verkefnisins yfir þriggja ára tímabil.

Markmiðið er að fyrirbyggja ótímabært brotthvarf ungs fólks með geðraskanir af vinnumarkaði, auk þess að auka samfélagslega virkni ungmenna sem tilheyra svokölluðum NEET-hópi, þ.e. ungt fólk sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun.

  • Vinnumálastofnun mun ráða tíu atvinnulífstengla sem munu veita hópnum einstaklingsmiðaðan stuðning við starfsleit. Um er að ræða nýjung í vinnumarkaðsúrræðum á vegum stofnunarinnar. Alls verður 150 milljónum króna á ári varið til þessa í þrjú ár.

  • VIRK hefur veitt þjónustu á sviði atvinnutengingar frá árinu 2012 en mun fjölga atvinnulífstenglum hjá sér enn frekar. Opnað verður fyrir þjónustuna gagnvart fleiri hópum en áður sem aftur mun auka tækifæri þeirra verulega. Framlag VIRK kemur til viðbótar við ofangreind fjárframlög.

  • Samtök atvinnulífsins munu liðsinna við að tryggja framboð af störfum fyrir ungt fólk í þjónustu atvinnulífstengla. Auk þess munu samtökin efla fræðslu á vinnustöðum um mikilvægi þess að greiða fyrir ráðningum einstaklinga sem tilheyra viðkvæmum hópum.

Nánar má lesa um verkefnið á vef Stjórnarráðs Íslands

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni