Styrkjum til atvinnumála kvenna úthlutað

Styrkjum til atvinnumála kvenna var úthlutað þann 19.maí síðastliðinn í Hörpu og fengu 30 verkefni styrki samtals að fjárhæð 35.000.000 kr.  

Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað frá árinu 1991 og eru þeir ætlaðir frumkvöðlakonum eða fyrirtækjum í þeirra eigu. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í meirihlutaeigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun af einhverju tagi.

Uthlutun Styrkja

Ekki er nauðsynlegt að vera með starfandi fyrirtæki til að sækja um styrk og því er heimilt að sækja um vegna verkefna á byrjunarstigi en einnig geta þær konur sótt um styrk sem eru að þróa nýjungar í starfandi fyrirtækjum.

Unnt er að sækja um styrki vegna vinnu við gerð viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og vegna launakostnaðar en ekki eru veittir styrkir til framkvæmda eða vegna stofnkostnaðar.

Í ár bárust 253 umsóknir og hefur ráðgjafarnefnd metið þær á undanförnum vikum. Nefndina skipa þær Herdís Á. Sæmundardóttir, Guðrún Stella Gissurardóttir, Elín Gróa Karlsdóttir og Soffía Gísladóttir.

Hæsta styrkinn í ár, 3 milljónir króna,  hlutu þær Kristjana Ingibjörg Jakobsdóttir og Ingibjörg Björgvinsdóttir fyrir verkefnið „Nýjar lausnir í hafrannsóknum og mengunarvöktun“.

Sérstakan hvatningarstyrk að upphæð kr. 1.000.000 hlaut Katla Margrét Aradóttir fyrir verkefni sitt Sara, stelpa með ADHD en markmið þess er að útbúa verkfærakistu sem kemur að notum fyrir stelpur og fullorðnar konur með ADHD.

Af öðrum spennandi verkefnum má nefna þróun á gagnvirku lestrarforriti, þróun á snjallforriti fyrir foreldra sem þurfa barnapössun, rannsókn á hampi sem byggingarefni, smáforrit sem heldur utan um upplýsingar þeirra sem eru með skjaldkirtilssjúkdóma, þróun á íslenskum jurtatrefjum, þróun á snoðull í kodda, framleiðsla á línolíumálningu og hugbúnaður sem mælir kolefnisbindingu í skógum svo eitthvað sé nefnt.  

Að þessu sinni var styrkhöfum er fengu styrk til gerðar viðskiptaáætlunar boðið upp á þátttöku í Fyrirtækjasmiðju á netinu. Markmið smiðjunnar,  sem var í umsjón Einars Sigvaldasonar hjá Senza, var að þátttakendur myndu þróa viðskiptahugmynd sína og halda kynningu fyrir dómnefnd.   Í boði var ein milljón króna í verðlaun fyrir bestu kynninguna.   

Í dómnefnd sátu Guðrún Tinna Ólafsdóttir, Kolfinna Kristínardóttir, María Kristín Gylfadóttir og Sigurlaug Guðrún Jóhannsdóttir.

 

Lista yfir verkefni sem hlutu styrk auk upplýsinga um vinningshafa Fyrirtækjasmiðjunnar má finna á heimasíðu verkefnisins www.atvinnumalkvenna.is

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni