Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr.144/2020 (ffl.)  er að finna nokkur ákvæði sem leitt geta til lengra fæðingarorlofs/-styrks vegna veikinda móður eða alvarlegs sjúkleika eða fötlunar barns. Þá er ákvæði sem fjallar um undanþágu frá námsframvindu og/eða ástundun náms hjá móður vegna heilsufarsástæðna. Loks eru ákvæði sem fjalla um framsal réttinda þegar foreldri er ófært að annast um barn sitt vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss. 


Almennt um vottorðagjöfina:

 • Læknisvottorð skulu skrifuð af sérfræðilækni.
 • Hafi læknir aðgang að Sögukerfi heilbrigðisstofnana skal notast við stöðluð form sem þar er að finna eftir því sem við á.
 • Hafi læknir ekki aðgang að Sögukerfi heilbrigðisstofnana er hægt að notast við stöðluð form sem má finna hér að neðan. 
 • Lögð er áhersla á að frumrit vottorða berist, þau séu vélrituð og undirrituð af lækni eða með fullgildri rafrænni undirritun.
 • Mikilvægt er að allir viðeigandi reitir á vottorðum séu fylltir út.
 • Nánari áherslur um vottorðagjöfina er að finna undir hverjum og einum lið hér að neðan.

Almennt um málsmeðferð Fæðingarorlofssjóðs:

 • Læknisvottorð eru yfirfarin af sérfræðilækni Fæðingarorlofssjóðs og lögfræðingi.
 • Læknisvottorðin eru yfirfarin einu sinni í viku vanalega á föstudögum.
 • Sé læknisvottorð ófullnægjandi eða því er synjað fær læknir afrit af bréfi Fæðingarorlofssjóðs til foreldris þar um.
 • Ekki er hægt að fá samband símleiðis við sérfræðilækni Fæðingarorlofssjóðs.  
 • Starfsfólk Fæðingarorlofssjóðs veitir nánari upplýsingar. 

Veikindi barnshafandi foreldri á meðgöngu:

Í 17. gr. laga nr. 144/2020 kemur fram að sé barnshafandi foreldri nauðsynlegt af heilsufarsástæðum sem tengjast meðgöngunni að fá leyfi frá störfum eða hætta þátttöku á vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 22. gr. meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns að mati sérfræðilæknis skal foreldrið eiga rétt á lengingu fæðingarorlofs og greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þann tíma sem um ræðir en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma.

Með heilsufarsástæðum er átt við:

 1. sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni,
  b.   sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni,
  c.   fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Mikilvægt er að læknir rökstyðji þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi samkvæmt einhverjum stafliða a-c hér að framan og leggi áherslu á óvinnufærni barnshafandi foreldris af þeim völdum síðustu tvo mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Þá er mikilvægt að niðurstaða læknisskoðunar komi fram.

Hér má nálgast staðlað form læknisvottorðs:
Vottorð vegna veikinda barnshafandi foreldri (DOC)
Medical certificate for maternity leave due to disease of mother (English version - DOC) 

Alvarleg veikindi foreldris í tengslum við fæðingu:

Í 18. gr., sbr. 35. gr. laga nr. 144/2020 kemur fram að heimilt er að framlengja fæðingarorlof/-styrk foreldris sem fætt hefur barn um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda í tengslum við fæðingu enda hafi foreldrið í fæðingarorlofi sínu (eða þann tíma sem fæðingarstyrkur var greiddur) verið ófært um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis.

Mikilvægt er að læknir rökstyðji annars vegar að alvarleg veikindi foreldris sem fætt hefur barn megi rekja til sjálfrar fæðingarinnar og hins vegar að foreldrið hafi af þeim völdum verið ófært um að annast barn sitt vegna veikindanna og þá í hve langan tíma. Þá er mikilvægt að niðurstaða læknisskoðunar komi fram.

Hér má nálgast staðlað form læknisvottorðs: 
Vottorð vegna veikinda móður (DOC)
Medical certificate for maternity leave due to disease of mother (English version - DOC)

Alvarlegur sjúkleiki og/eða fötlun barns:

Börn fædd, ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 og síðar:

Í 19. gr.,  sbr. 36. gr. laga nr. 144/2020 kemur fram að heimilt er að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs/-styrks um allt að sjö mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefst nánari umönnunar foreldris.

Þá segir í athugasemdum við þessar greinar að miðað er við að alvarlegur sjúkdómur eða alvarleg fötlun barns krefjist nánari umönnunar umfram það sem eðlilegt er við umönnun ungbarna án tillits til þess hvort barn liggi í lengri eða skemmri tíma á sjúkrahúsi. Er þá ekki átt við tilfallandi veikindi barna, svo sem hlaupabólu, eyrnabólgu eða aðra álíka sjúkdóma enda þótt veikindin geti verið þrálát.

Mikilvægt er að læknir leggi áherslu á að rökstyðja þá sérstöku umönnun umfram það sem eðlilegt er við umönnun ungbarna sem alvarlegi sjúkleikinn eða alvarlega fötlunin krefst og þá í hversu langan tíma. Þá er mikilvægt að niðurstaða læknisskoðunar komi fram.

Vegna barna sem eru fædd, ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 1. janúar 2021 gildir 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000., sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.

Hér má nálgast staðlað form læknisvottorðs: 
Vottorð vegna alvarlegs sjúkleika og/eða fötlunar barns.
Medical certificate for maternity leave due to disease in a child (English version - DOC)

Framsal réttinda vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss:

Í 5. mgr. 9. gr., sbr. 5. mgr. 30. gr. laga nr. 144/2020 kemur fram að foreldri sem er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss að annast um barn sitt á fyrstu 24 mánuðunum eftir fæðingu þess sé heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarorlofs/-styrks sem það hefur ekki þegar nýtt sér til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti. Ástand foreldris vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss sem leiðir til þess að foreldrið er ófært um að annast barnið á fyrrgreindu tímabili eða veita samþykki sitt um framsal réttinda sinna skal staðfest með læknisvottorði þess sérfræðilæknis sem annast foreldrið.

Mikilvægt er að sérfræðilæknir sem annast hefur foreldrið rökstyðji hvort foreldrið er ófært um að annast frumþarfir barns síns, svo sem að mata, þrífa eða klæða án aðstoðar á framangreindu 24 mánaða tímabili. Þá er mikilvægt að niðurstaða læknisskoðunar komi fram.

Þar sem ekki er fyrir hendi staðlað vottorð um framsal réttinda vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss er nauðsynlegt að nota almennt læknisvottorð við rökstuðninginn.

Vegna barna sem eru fædd, ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 1. janúar 2021 gildir 9. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000., sbr. 12. mgr. 18. gr. og 15. mgr. 19. gr. sömu laga.

Undanþága frá námsframvindu og/eða ástundun vegna veikinda barnshafandi foreldris:

Undanþága frá námsframvindu og/eða ástundun vegna veikinda barnshafandi foreldris:

Í 3. mgr. 28. gr. laga nr. 144/2020 kemur fram að heimilt er að greiða foreldri sem fætt hefur barn fæðingarstyrk þó að foreldrið uppfylli ekki skilyrði um að hafa staðist kröfur um námsframvindu og/eða ástundun enda hafi foreldrið ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna sem tengjast meðgöngunni. Er þá átt við sambærilegar heilsufarsástæður og fjallað er um í 17. gr. laganna um veikindi barnshafandi foreldris á meðgöngu.

Mikilvægt er að læknir rökstyðji hvort hann telji að heilsufarsástæður barnshafandi foreldris á meðgöngu hafi haft áhrif á námsframvindu og/eða ástundun náms og þá á hvaða önn eða önnum. Þá er mikilvægt að niðurstaða læknisskoðunar komi fram.

Hér má nálgast staðlað form læknisvottorðs:

Vottorð vegna veikinda móður í námi.

Medical certificate for adequate educational performance and/or sufficient progress of studies (English version - DOC)


Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni