Atvinnumál kvenna

Atvinnumál kvenna

Síðan 1991 hafa styrkir verið veittir til kvenna sem hafa góðar viðskiptahugmyndir en það var þáverandi félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sem kom því verkefni af stað.  Á þeim tíma var atvinnuleysi kvenna töluvert og styrkirnir ætlaðir sem mótvægi við það og sem tækifæri fyrir konur í viðskiptum með því að auka aðgengi kvenna að fjármagni.

Á hverju ári hefur verið úthlutað í kringum 15-20 milljónum í fjölbreytt verkefni víðsvegar um landið sem oft hafa skipt sköpum fyrir konurnar og hvatt þær áfram í sínum fyrirtækjarekstri.  Árið 2008 ákvað ráðherra að stórauka við upphæðina og eru nú 50.milljónir til umráða sem verður veitt til spennandi verkefna víðsvegar um landið. Styrkirnir eru veittir af Félagsmálaráðuneytinu en það er Vinnumálastofnun sem að hefur vistað verkefnið hin síðustu ár.

Árið 2008 var ákveðið að ráða starfsmann til að sinna verkefninu auk þess sem að hlutverk hans er að auka við ráðgjafaþáttinn og sinna eftirfylgni við styrkþega. Starfsmaðurinn var ráðinn á vordögum og tók til starfa þann 1.júní. Hún heitir Ásdís Guðmundsdóttir og er félagsfræðingur að mennt en hefur einnig MSc gráðu í stjórnun frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst.

Auk þess að sinna sjóðnum og styrkveitingum verður hennar hlutverk eins og áður segir að veita ráðgjöf og sinna eftirfylgni við styrkþega.  Heimasíða þessi verður þungamiðjan í verkefninu þar sem má finna hagnýtar upplýsingar um hvað eina sem viðkemur stoðkerfi atvinnulífsins.  

Skrifstofa Atvinnumála kvenna er í aðalstöðvum Vinnumálastofnunar í Kringlunni 1, og er símanúmerið 531-7080.

Smelltu hér til að fara heimasíða atvinnumála kvenn

Svanni

Svanni

Svanni - lánatryggingasjóður kvenna veitir lánatryggingar til kvenna með góðar viðskiptahugmyndir. Sjóðurinn er í samstarfi við Landsbankann um lánafyrirgreiðslu. Eingöngu verkefni/fyrirtæki sem eru í meirihlutaeigu konu/kvenna og undir stjórn konu/kvenna geta sótt um tryggingu og gerð er krafa um að í verkefninu felist nýsköpun/nýnæmi að einhverju marki. Einnig er krafa um að líkur séu verulegar á að verkefnið/fyrirtækið leiði til aukinnar atvinnusköpunar kvenna.

Unnt er að sækja um ábyrgð vegna eftirtalinna þátta:

  • Markaðskostnaðar
  • Vöruþróunar
  • Nýrra leiða í framleiðslu eða framsetningu vöru/þjónustu.

Athugið að hægt er að sækja um lánatryggingu vegna fleiri en eins þáttar.

Ábyrgð skal ekki vera undir 1 milljónum króna og að jafnaði skal ábyrgð ekki fara yfir 10 milljónir króna. Stjórn er þó heimilt að afgreiða hærri ábyrgðir í undantekningartilvikum með hliðsjón af eðli og tegund umsókna.

Landsbankinn býður lántökum val á milli óverðtryggðra og verðtryggðra lána en verðtryggð lán þurfa að vera að lágmarki til 5 ára.

Vaxtakjör eru samkvæmt Kjörvaxtaflokki 2 hjá bankanum eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma. Lántökugjald er 0,3 per lánsár en þó aldrei hærra en 1,50%. Lántökugjald er innheimt við lánsveitingu.

Samkomulagsatriði er um það hvenær endurgreiðslur eiga að hefjast á höfuðstól láns.

Smelltu hér til að fara á heimasíðu Svanna

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni