I. KAFLI
Um ábyrgð sjóðsins á innheimtukostnaði.

1. gr.  Gildissvið.

Reglur þessar gilda um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa á kröfum um greiðslu innheimtukostnaðar og skiptatryggingu, sbr. 9. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, og, eftir því sem við á, um kröfur á hendur sjóðnum skv. 7. gr. og VII. kafla laga nr. 88/2003.

2. gr.  Innheimtukostnaður.

Ákvæði þessarar greinar gilda um allar kröfur á hendur Ábyrgðasjóði launa aðrar en kröfur skv. d-lið 5. gr. laga nr. 88/2003.

Ábyrgðasjóður launa ábyrgist þann kostnað sem hlýst af innheimtu kröfu á hendur þrotabúi vinnuveitanda að því leyti sem hann hefur ekki fengist endurgreiddur úr þrotabúinu. Til innheimtukostnaðar telst eftirfarandi:

a. Kröfulýsingarkostnaður vegna kröfugerðar á hendur Ábyrgðasjóði launa og þrotabúi vinnuveitanda, sbr. einnig a-lið 3. mgr. 5. gr. þessara reglna.

b. Útlagður kostnaður, þar með talin óhjákvæmileg útgjöld vegna innheimtuaðgerða, læknisvottorða og annars sambærilegs kostnaðar.

c. Skiptatrygging sem kröfuhafi hefur lagt fram fyrir kostnaði við skipti á þrotabúi vinnuveitanda.

d. Dæmdur málskostnaður, sbr. 4. mgr þessarar greinar.

e. Annar eðlilegur innheimtukostnaður vegna innheimtuaðgerða á hendur vinnuveitanda fyrir gjaldþrot. Enn fremur kostnaður sem hlýst af innheimtu kröfu á hendur þrotabúi að því leyti sem þær aðgerðir eru nauðsynlegar til að fá kröfu viðurkennda sem forgangskröfu í búið eða til að gæta réttar kröfuhafa gagnvart þrotabúinu.

f. Innheimtuþóknun í þeim tilvikum þegar ekki hefur gengið dómur um kröfu á hendur vinnuveitanda eða þrotabúi. Krafa um þóknun skal miðast við umfang innheimtuaðgerða á hendur vinnuveitanda fram að gjaldþrotaúrskurði.

Sundurliða skal innheimtukostnað í kröfugerð til Ábyrgðasjóðs launa og leggja fram gögn í samræmi við 6. gr. reglna þessara. Við ákvörðun kostnaðar fyrir innheimtuaðgerðir skv. a- og e-lið og innheimtuþóknunar skv. f-lið 2. mgr. skal sjóðurinn hafa viðmið af hámarksfjárhæðum skv. 5. gr. þessara reglna.

Við uppgjör krafna skv. d- og f-lið 2. mgr. reiknast ábyrgð á dæmdum málskostnaði og innheimtuþóknun í hlutfalli við þá höfuðstólsfjárhæð sem nýtur ábyrgðar sjóðsins samkvæmt ákvæðum laga nr. 88/2003. Sjóðnum er heimilt að lækka greiðslur vegna málskostnaðar eða innheimtuþóknunar samkvæmt þessum liðum ef sami innheimtuaðili annast mikinn fjölda innheimtumála á hendur sama þrotabúi. Einnig er heimilt að hækka hlutfall innheimtuþóknunar ef kröfuhafi sýnir fram á að innheimtuaðgerðir hafi að umfangi verið verulega umfram það sem venjulegt er í sambærilegum málum.

3. gr.  Innheimtukostnaður lífeyrissjóða og vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar skv. d-lið 5. gr. laga nr. 88/2003.


Ábyrgðasjóður launa ábyrgist kostnað lífeyrissjóða og vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar skv. a–e-lið 2. mgr. 2. gr. vegna krafna á hendur sjóðnum er stafa af nauðsynlegum innheimtuaðgerðum. Sjóðurinn ábyrgist ekki innheimtuþóknun lífeyrissjóða eða vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar, sbr. f-lið 2. mgr. 2. gr.  Að öðru leyti gilda ákvæði reglna þessara um kröfur lífeyrissjóða og vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar.

II. KAFLI
Skilyrði og takmörkun ábyrgðar.

4. gr.  Skilyrði ábyrgðar.

Ábyrgð sjóðsins á innheimtukostnaði er háð því að krafan sem innheimtukostnaðurinn stafar af njóti ábyrgðar sjóðsins skv. 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, og að sjóðurinn sé ekki undanþeginn ábyrgð skv. 10. gr. sömu laga.

5. gr.  Takmörkun ábyrgðar.

Ábyrgðasjóður launa ábyrgist ekki kostnað vegna innheimtuaðgerða sem bersýnilega voru óþarfar á þeim tíma sem til þeirra var stofnað. Kröfur um vexti af kostnaði njóta ekki ábyrgðar sjóðsins. Stjórn Ábyrgðasjóðs launa skal fyrir upphaf hvers árs auglýsa viðmiðunarfjárhæðir vegna kostnaðar við innheimtuaðgerðir sem ábyrgð sjóðsins takmarkast við, að viðbættum virðisaukaskatti. Fyrir árið 2003 eru þessar fjárhæðir sem hér segir:

a. Fyrir kröfulýsingu á hendur Ábyrgðasjóði launa greiðast að hámarki 7.000 kr. Sama hámark gildir um þóknun lögmanns kröfuhafa vegna annarra bréfaskipta við sjóðinn.

b. Fyrir hverja kröfulýsingu í þrotabú, aðfararbeiðni, beiðni um nauðungarsölu og sambærilegar innheimtuðgerðir greiðast að hámarki 7.000 kr.

c. Fyrir mætingu á skiptafund og fyrir héraðsdómi greiðast að hámarki 7.000 kr. fyrir hvert þrotabú. Ef sami lögmaður fer með fyrirsvar fyrir fleiri en tíu kröfuhafa á hendur sama þrotabúi getur sjóðurinn ákveðið hærri greiðslu, meðal annars með hliðsjón af skýringum lögmanns og framlögðum gögnum.

d. Innheimtuþóknun skv. f-lið 2. mgr. 2. gr. skal að hámarki miðast við 10% af höfuðstólsfjárhæð allt að 500.000 kr. en allt að 7% af höfuðstólsfjárhæð þar umfram.

III. KAFLI
Almenn ákvæði.

6. gr.  Framlagning gagna.

Öllum kröfum til Ábyrgðasjóðs launa um greiðslu innheimtukostnaðar skal fylgja yfirlit um þær innheimtuaðgerðir sem krafist er greiðslu fyrir og sundurliðun kostnaðar sem af þeim stafar. Kröfum um útlagðan kostnað skv. b-lið 2. mgr. 2. gr. skal fylgja greiðslukvittun eða önnur gögn sem sjóðurinn metur fullnægjandi. Sjóðurinn getur farið fram á að fá afhent gögn um innheimtuaðgerðir sem krafist er greiðslu fyrir, svo sem afrit af innheimtubréfum o.fl., og nauðsynlegar upplýsingar um ráðstöfun greiðslna sem borist hafa upp í kröfu. Ef ekki er orðið við slíkri beiðni án viðhlítandi skýringa getur sjóðurinn hafnað ábyrgð á innheimtukostnaði.

7. gr.  Málskot.

Um málskot á ákvörðunum um greiðslu innheimtu- og málskostnaðar fer skv. 16. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Kröfuhafi skal rökstyðja að hvaða leyti hann telur að afgreiðsla sjóðsins hafi ekki verið í samræmi við reglur þessar eða ákvæði laga, eða á hvern hátt beiting reglnanna hafi leitt til ósanngjarnrar niðurstöðu. Telji stjórn sjóðsins, með hliðsjón af framlögðum gögnum, að reglurnar leiði til ósanngjarnrar niðurstöðu í tilteknu máli er heimilt að víkja frá þeim til hagsbóta fyrir kröfuhafa.

8. gr.  Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 9. gr. laga nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi viðmiðunarreglur um greiðslu innheimtukostnaðar skv. g-lið 5. gr. laga nr. 53/1993 um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, frá 9. maí 1997. Um innheimtukostnað vegna krafna í bú vinnuveitanda sem úrskurðuð voru gjaldþrota fyrir 14. mars 2003 fer samkvæmt eldri reglum sjóðsins.

Reglur þessar, sem stjórn Ábyrgðasjóðs launa hefur sett skv. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa, staðfestast hér með til að öðlast þegar gildi.

Félagsmálaráðuneytinu, 22. ágúst 2003

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni