Sorgarstyrkur er fyrir foreldra í fullu námi eða eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi sem verða fyrir því að barn þess yngra en 18 ára andast. Þá stofnast réttur til sorgarstyrks við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu og andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu. Lög um sorgarstyrk gilda frá 1. janúar 2023 og eiga við foreldra sem vera fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturláti 1. janúar 2023 eða síðar.


Tímalend sorgarstyrks

Foreldri sem er utan vinnumarkaðar eða hefur verið í fullu námi á sjálfstæðan rétt til sorgarstyrks í allt að sex mánuði frá þeim degi sem það verður fyrir barnsmissi.

Foreldri  sem er utan vinnumarkaðar eða hefur verið í fullu námi á sjálfstæðan rétt til sorgarstyrks í allt að þrjá mánuði frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu.

Foreldri sem er utan vinnumarkaðar eða hefur verið í fullu námi á sjálfstæðan rétt til sorgarstyrks í allt að tvo mánuði frá þeim degi er fósturlát á sér stað eftir 18 vikna meðgöngu.

Upphafstími sorgarstyrks og hvenær réttur fellur niður

Réttur til sorgarstyrks stofnast þann dag sem foreldri verður fyrir barnsmissi og fellur niður 24 mánuðum síðar. Heimilt er að hefja töku sorgarstyrks frá 1. degi þess mánaðar sem foreldri verður fyrir barnsmissi.

Sorgarstyrkur námsmanna

Fullt nám telst vera 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. 6 mánuði. Enn fremur er átt við 75-100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Foreldri þarf að hafa verið í fullu námi í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Í flestum tilvikum þýðir þetta það að foreldri þarf að skila a.m.k. tveimur önnum í heild eða að hluta til að uppfylla skilyrðið um fullt nám í 6 mánuði.

Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barnsmissir, andvanafæðing eða fósturlát á sér stað.

Undanþágur frá skilyrði um fullt nám

Þegar foreldri hefur verið samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst, enda hafi samfellt starf og nám varað í a.m.k. sex mánuði.

Þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi og hefur síðan verið samfellt á innlendum vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. 6 mánuði.

Þegar foreldri er á síðustu önn námsins og ljóst er að viðkomandi er að ljúka námi með prófgráðu.

Þegar foreldri hefur fengið greiðslur á grundvelli laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldrið sótt um þær hjá Tryggingastofnun ríkisins. Í slíkum tilvikum skal leggja fram staðfestingu frá skóla um að foreldrið hafi verið skráð í fullt nám.

Þegar foreldri hefur ekki getað stundað nám vegna veikinda eða slyss. Foreldri skal leggja fram vottorð frá þeim sérfræðilækni sem annast hefur það því til staðfestingar og skal Vinnumálastofnun berast frumrit af vottorðinu. Auk þess skal leggja fram staðfestingu frá skóla um að foreldrið hafi verið skráð í fullt nám.

Lögheimilisskilyrði

Foreldri skal eiga lögheimili hér á landi við barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma.

Hafi foreldri verið búsett í öðru aðildarríki að EES-samningnum á framangreindu 12 mánaða tímabili er tekið tillit til þess hafi foreldri haft lögheimili hér á landi við barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát og ekki hafi liðið meira en mánuður frá því að tryggingatímabili lauk í því ríki. Í þessum tilvikum skal foreldri láta S-041 vottorð fylgja með umsókn sinni sem staðfestir búsetu og tryggingatímabil í öðru aðildarríki að EES-samningnum.

Foreldrar sem hafa fengið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar eða á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt lögum um útlendinga geta átt rétt á sorgarstyrk þrátt fyrir að þeir hafi ekki átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát, enda sé skemmri tími en tólf mánuðir liðnir frá veitingu dvalarleyfis.

Vegna sorgarstyrks námsmanna er heimilt er að veita undanþágu frá lögheimiliskilyrðinu hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis og hafi átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. 5 ár fyrir flutning. Hið sama gildir þegar foreldri hefur flutt lögheimili sitt tímabundið og stundar fjarnám við íslenskan skóla á þeim tíma og hafi átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. 5 ár fyrir flutning.

Foreldrar barns

Rétt til sorgarstyrks eiga foreldri og/eða forsjáraðili barns samkvæmt ákvæðum barnalaga, sem og aðrir sem hafa gegnt foreldraskyldum gagnvart viðkomandi barni í lengri tíma en síðustu 12 mánuði fyrir barnsmissi. Því getur stjúp- eða fósturforeldri átt rétt á sorgarstyrk hafi það verið í skráðri sambúð eða gift foreldri eða forsjáraðila barnsins eða verið með barnið í fóstri í lengri tíma en 12 mánuði fyrir barnsmissi.
Nánari upplýsingar um hverjir teljast foreldri barns veitir þjónustuskrifstofa VMST á Hvammstanga.*


Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni