Góð ráð í atvinnuleit

Leit að starfi er heilmikið verkefni sem krefst tíma, þekkingar og góðra verkfæra. Mikilvægt er að skipuleggja sig, setja sér markmið og huga að næstu skrefum svo að atvinnuleitin verði áhrifaríkari og takmarkið náist sem fyrst.

Ýmsar leiðir eru mögulegar í atvinnuleit, því miður er ekki hægt að segja hver þeirra kemur til með að ráða úrslitum. Hins vegar hefur það sýnt sig að því fleiri leiðir sem nýttar eru því meiri eru möguleikarnir.

Hafa ber í huga að lítill hluti af lausum störfum er auglýstur opinberlega því skiptir frumkvæði og áræðni þeirra sem eru í atvinnuleit miklu máli. Nauðsynlegt er að hafa allar klær úti, nota hefðbundnar og óhefðbundnar leiðir og huga að atvinnuleitinni eins og hverri annarri vinnu.

 Algengt er að fólk leiti beint til þeirra fyrirtækja og stofnana sem það hefur áhuga á að starfa hjá og er mikilvægt að fylgjast með á heimasíðum þeirra hvort laus störf eru í boði. Hægt er að skrá sig í atvinnuleit á heimasíðu vmst.is en þar eru ný störf skráð daglega og einnig er ráðlegt að skrá sig hjá öðrum ráðningarþjónustum og fylgjast með hvaða störf eru auglýst þar. Tengslanetið er ekki síður mikilvægt og getur verið gott ráð að láta sem flesta vita að verið er að leita að starfi.

Atvinnuleit má líkja við fullt starf. Að ýmsu þarf að huga líkt og að gera ferilskrá, kynningarbréf, skrá sig á ráðningarþjónustur og margt fleira. Áður en ráðist er í þessa hluti er þó ráðlegt að fara í smá sjálfsskoðun og spyrja sig eftirfarandi spurninga:

 • Hvað vil ég?
 • Hvar liggur áhugi minn?
 • Hvaða eiginleika hef ég?
 • Hvaða starf hentar mér?
 • Hverjir eru styrkleikar mínir?

Þetta eru spurningar sem henta öllum þeim sem af einhverri ástæðu eru á milli starfa, að skipta um starf eða eru að koma á vinnumarkaðinn í fyrsta skipti. Tilgangurinn með að leita svara hjá sjálfum sér er til að auðvelda atvinnuleitina og vali á starfi. Því betur sem einstaklingur þekkir sjálfan sig og því betur sem hann setur fram upplýsingar um sjálfan sig þeim mun meiri líkur eru á að hann fái starf við hæfi.

Góður undirbúningur er lykillinn að velgengni.

Það getur reynst sumum erfitt að átta sig á hvaða starfsumhverfi hentar best, í þeim tilfellum getur verið ágætt að taka áhugasviðskönnun. Hún getur styrkt fólk í að átta sig á áhuga sínum og í hvers konar starfsumhverfi þeir vilja vinna.

Vinnumálastofnun býður upp á áhugasviðskönnun að kostnaðarlausu. Hafið samband við næstu þjónustuskrifstofu til að komast að hvenær næsta áhugasviðskönnun er í boði. Það þarf ekki að skrá sig, bara mæta á auglýstum tíma og fylla út könnunina. Niðurstöðurnar eru svo tilbúnar í vikunni á eftir og fylgir þá ítarlegt viðtal með ráðgjafa.

Atvinnuleit er tímafrek og krefjandi, það þarf að gefa sér tíma. Best er að huga að atvinnuleitinni sem hverri annarri vinnu.

Gott er að miða við að sækja um ákveðið mörg störf á viku.

Sæktu um þau störf sem þú hefur áhuga á, sama hvort það er til skamms eða langs tíma.

Það getur tekið tíma að komast í óskastarfið. Gott er að skrifa niður á blað hvaða önnur störf geta verið áhugaverð og sækja um þau. Það er alltaf auðveldara að komast í draumastarfið þegar maður er í starfi.

Ef ekkert heyrist frá atvinnurekanda eftir að sótt hefur verið um starf, þá má hringja eða senda tölvupóst og fá upplýsingar um gang mála.

Eftirfylgni: Haltu utan um atvinnuleitina með því að skrá niður eftirfarandi upplýsingar

 • Atvinnuauglýsinguna (ef farið er eftir auglýsingu).
 • Nafn á fyrirtæki sem sótt er um hjá.
 • Starfsheiti sem sótt var um.
 • Upplýsingar um tengilið hjá fyrirtæki; nafn, sími, netfang.
 • Starfshlutfall.
 • Dagsetningu umsóknar.
 • Umsóknarfrest.
 • Hvernig sótt var um starfið (í gegnum auglýsingu, ábendingu, tengslanet, annað).
 • Staða umsóknar; neitun, viðtal, annað.

Hér er sniðmát fyrir yfirlit yfir atvinnuumsóknir

Viðtalið er tækifæri til að láta í té gagnlegar upplýsingar um atvinnuleitandann til spyrilsins, en ekki próf þar sem atvinnuleitandinn er í vörn við að svara spurningum. Umsækjandinn hefur margvíslega gagnlega færni, ákjósanleg starfsviðhorf og fjölbreytta, persónulega reynslu sem ekki er hægt að segja frá í smáatriðum í ferilskrá. Viðtalið gefur tækifæri til að minnast á og leggja áherslu á þessa ákjósanlegu þætti.

Markmið spyrlanna í viðtalinu eru að afla upplýsinga um hæfileika umsækjanda og meta hversu vel hann hentar í viðkomandi fyrirtæki og þá stöðu sem verið er að ráða í. Því er mikilvægt að slá á létta strengi í viðtalinu þannig að útkoman verði skemmtilegt spjall þar sem spyrillinn fær að kynnast innri manni umsækjanda.

Í lok viðtals er gott að sýna þakklæti fyrir móttökurnar og láta í ljós áhuga á starfinu. Ef möguleiki er fyrir hendi, þá er dagur ákveðinn til að hafa samband aftur

Spurningar

Sá sem spyr þarf að finna út á stuttum tíma hvernig persóna þú ert og hvernig framtíðar starfsmaður þú munt verða. Þar af leiðandi eru spurningar spyrla oft þær sömu frá einu viðtali til annars. Gefðu þér tíma að svara hverri spurningu. Það sýnir íhugun og yfirvegun. Umræða um félagslíf og tómstundir er jákvæð og á alls ekki að forðast. Þú verður persónulegri í huga þeirra í stað þess að vera samansafn upplýsinga um starfskunnáttu. Það hefur áhrif að vera jákvæður á allan máta, skýr í svörum og alls ekki forðast augnsamband.

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni