Úthlutunarreglur og skilmálar Þróunarsjóðs um atvinnu og menntun

Í tillögum Samhæfingarhóps um atvinnu og menntun, sem mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra skipuðu 20. apríl s.l. var lagt til að lagðar yrðu 100 mill.kr. í sérstakan þróunarsjóð til að þróa nýjungar bæði í námi, kennsluaðferðum og mati á fyrri reynslu og námi til að mæta nýjum aðstæðum og þörfum í kjölfar samdráttar í efnahags- og atvinnulífi í kjölfar Covid-19 faraldursins. Í fjárveitingu til Vinnumálastofnunar á árinu 2021 var fjármagni veitt til sjóðsins. Sjóðurinn er tímabundinn ráðstöfun sem gildir til 31. maí 2022.

 


1. Hlutverk

Hlutverk Þróunarsjóðs um atvinnu og menntun er að veita styrki til framhalds- og háskóla og viðurkenndra fræðsluaðila sem sérhæfa sig í námi og starfsþjálfun fullorðinna til að þróa nýjungar í námi, kennsluaðferðum og mati á fyrri reynslu og námi (þmt. raunfærnimati) með það að markmiði að treysta stöðu atvinnuleitenda á vinnumarkaði og auðvelda þeim að mæta nýjum aðstæðum og þörfum í atvinnulífinu.

Sjóðurinn starfar á grundvelli 42. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál og fellur undir Vinnumálastofnun, en Framkvæmdanefnd um Nám er tækifæri myndar úthlutunarnefnd sjóðsins sem heimilt er að ráðstafa fjármagni á grundvelli neðan greindra reglna sem tryggja eiga jafnræði, hlutlægni, gagnsæi og samkeppnissjónarmið með það að markmiði að efla þróun málaflokksins samkvæmt lögum virkar vinnumarkaðsaðgerðir og reglugerðum þeim tengdum, sbr. einnig Málsmeðferð við úthlutun styrkja úr opinberum sjóðum.[1]

[1] https://www.stjornarradid.is/media/menntamalaraduneyti-media/media/MRN-pdf/Malsmedferd-vid-uthlutun-styrkja-ur-opinberum-sjodum.pdf

2. Forgangssvið

Félags- og barnamálaráðherra, að höfðu samráði við mennta- og menningarmálaráðherra, ákveður forgangssvið að fenginni tillögu Framkvæmdanefndar um atvinnu og menntun, sem falla að lögum um menntun og virkar vinnumarkaðsaðgerðir.

Á grundvelli þessara forgangssviða mótar úthlutunarnefnd viðmið við mat á umsóknum, en gerð er krafa um að nýtt nám falli að íslenska hæfnirammanum, sem staðfest skulu af ráðherrunum.

3. Auglýsing

Úthlutunarnefnd auglýsir opinberlega eftir umsóknum um styrki og skal auglýsing birtast í dagblöðum á landsvísu og á vef Vinnumálastofnunar, félagsmálaráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Í auglýsingu skulu koma fram forgangssvið sem ráðherrar hafa ákveðið hverju sinni, viðmið við mat á umsóknum og umsóknarfrestur.

Í auglýsingu skal frestur til að skila inn umsóknum vera um þrjár vikur og skal þeim skilað inn á þar til gerðum umsóknarformi.

4. Afgreiðsla umsókna og úthlutun

Við mat á umsóknum er tekið mið af því hvort verkefnin falli undir auglýst forgangssvið, nýtist beint til að treysta stöðu atvinnuleitenda, feli í sér vel skilgreinda nýsköpun og þróun og falli að íslenska hæfnirammanum. Þá er einnig horft til gæða umsóknar, fjárhagsáætlunar og trúverðugleika.

Ekki verða veittir styrkir í verkefni sem þegar hafa fengið styrk frá opinberum aðila, en fjárframlag frá öðrum og/eða samstarf um verkefnið er kostur.

Úthlutun skal lokið innan sex vikna frá lokum umsóknarfrests og skal niðurstaðan tilkynnt umsækjendum skriflega svo fljótt sem verða má.

5. Verkefni sem hljóta styrk

Gerður er sérstakur samningur við styrkhafa þar sem fram koma m.a. samningsskilmálar

sjóðsins, meðferð höfundarréttar, áætluð verklok og greiðslufyrirkomulag styrks.

Að verkefni loknu skal styrkhafi skila afurðum verkefnisins og fjárhagsuppgjöri til úthlutunarnefndar.

Jafnframt gilda eftirfarandi ákvæði einnig:

a. Skuldbinding styrkþega

Með því að taka á móti styrknum lýsir styrkþegi því yfir að hann ábyrgist að styrknum verði einungis varið til verkefnisins og þeirra markmiða sem lýst er í umsókn. Jafnframt skuldbindur hann sig til að skila greinargerð og fjárhagsuppgjöri og hlíta öðrum skilmálum styrksins.

b.  Upplýsingagjöf og skýrslur

Styrkþega er skylt að tilkynna úthlutunarnefnd tafarlaust ef upp koma aðstæður sem seinka verkefninu eða koma í veg fyrir að markmiðum eða skilyrðum fyrir styrkveitingu sé fullnægt.

Styrkþega ber ávallt að verða við beiðni úthlutunarnefndar og Vinnumálastofnunar um upplýsingar um stöðu verkefnisins og láta því í té allar upplýsingar og gögn um verkefnið, þar á meðal bókhaldsgögn.

Styrkþegi skal senda úthlutunarnefnd greinargerð um verkefnið og fjárhagsuppgjör vegna þess innan 60 daga frá því verkefninu lýkur. Greinargerðin skal staðfest af styrkþega og óháðum einstaklingi/skoðunarmanni eða endurskoðanda.

Ljúki verkefninu ekki á því ári sem styrkurinn er veittur, skal senda úthlutunarnefnd tölvupóst til að upplýsa um stöðu verkefnisins fyrir lok janúar árið eftir.

Styrkþegi ber ábyrgð á að skila skattyfirvöldum fjárhagsuppgjöri og að öll gögn sem uppgjör byggir á séu varðveitt í a.m.k. fimm ár. Um eftirlit Ríkisendurskoðunar gilda lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ársreikninga nr. 46/2016.

c. Styrktaraðili nefndur í kynningarefni

Á öllu útgefnu efni, auglýsingum o.s.frv. sem tengist hinu styrkta verkefni skal koma fram að það er styrkt af Vinnumálastofnun. Hægt er að nálgast merki Vinnumálastofnunar hjá vmst.is.

d. Endurkröfuréttur Vinnumálastofnunar

Ef styrknum eða hluta hans er varið í annað en tilgreint er í umsókn eða skilmálar skv. lið 2 og 3 ekki uppfylltir, teljast forsendur styrkveitingar brostnar. Áskilur Vinnumálastofnun sér þá rétt til að ógilda styrkveitinguna og krefja styrkþega um endurgreiðslu á greiddum styrk, að hluta til eða í heild sinni, ásamt kostnaði við innheimtu.

Reynist útgjöld vegna verkefnis samkvæmt umsókn lægri en útborguð styrkfjárhæð skal styrkþegi ótilkvaddur endurgreiða ofgreiddan styrk innan 30 daga frá því fjárhagsuppgjör verkefnis lá fyrir. Að öðrum kosti innheimtir Vinnumálastofnun ofgreiddan styrk ásamt innheimtukostnaði.

Styrkur fellur niður hafi hann ekki verið sóttur innan eins árs frá dagsetningu styrkbréfs.

e. Ágreiningur

Ágreiningi milli styrkþega og Vinnumálastofnunar sem þessum aðilum tekst ekki að leysa skal vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur.


Framangreindir skilmálar gilda nema annað sé tekið fram í bréfi.

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni