Ákvörðun um endurgreiðslu ofgreiddar atvinnuleyisisbóta felld úr gildi
Nr. 1 - 2006

Úrskurður

 

Þann 27. janúar 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 1/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 13. desember 2004 að X bæri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði tvöfaldar ofgreiddar atvinnuleysisbætur, alls að fjárhæð kr. 3.268.606 og þola niðurfellingu bótaréttar í tvo mánuði.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að X hefði samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur þegið verktakagreiðslur vegna túlkaþjónustu hjá I og R án þess að tilkynna svæðisvinnumiðlun um þessa vinnu. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 15. og 27. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar.

 

2.

 

X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar með bréfi þann 10. október 2005. Í bréfi sínu segist hún telja ákvörðun úthlutunarnefndar vera byggða á röngum forsendum.    Hún segist hafa unnið óreglulega við útköll sem túlkur hjá I frá árinu 2003.  Einnig hafi hún haldið námskeið fyrir K.  Launin hafi verið greidd henni sem verktaka.  X segist hafa tilkynnt Vinnumiðlun reglulega um alla sína tímavinnu sem verktaka og hafi hún komið til frádráttar bótagreiðslum.  Hún hafi verið í góðri trú um að vinna hennar hafi verið rétt skráð.  Fyrir misskilning hafi vinna þessi verið skráð sem tímavinna hjá L.  Hún hafi aldrei fengið greidd verktakalaun frá L þó hún hafi túlkað mest þar.  I hafi alltaf greitt launin hennar.  Hún hafi ekki haft hugmynd um hvernig starfsmaður Vinnumiðlunar hafi skráð vinnu hennar í tölvu stofnunarinnar og hún hafi ekki verið spurð neitt nánar um launagreiðanda eða launaupphæð.  Þegar hún fékk bréf frá úthlutunarnefnd þar sem hún var beðin um skýringar eftir samkeyrslu atvinnuleysisskrár við Ríkisskattstjóra hafi hún sent þeim dagbókarfærslur um heildarvinnutíma sinn og upphæðir og hafi þetta verið nákvæmlega sömu tölur og hún hafði tilkynnt Vinnumiðlun.  Hún hafi síðan fengið bréf með úrskurði úthlutunarnefndar þar sem segir að hún hafi ekki lagt fram neinar skýringar á vinnu hjá öðrum vinnuveitendum en I, sem sé í raun samt eini vinnuveitandi hennar utan eins einstaks tilviks er hún vann fjóra tíma fyrir K.  X segist að lokum fara fram á að mál hennar verði endurskoðað og ákvörðun úthlutunarnefndar um tvöfalda endurgreiðslu atvinnuleysisbóta felld úr gildi. 

            Í gögnum málsins liggur fyrir yfirlit yfir vinnutíma sem X tilkynnti til Vinnumiðlunar.  Þar kemur fram að hún tilkynnti 224 unnar stundir  á árinu 2005, 93 stundir á árinu 2004 og engar unnar stundir á árinu 2003.  Samkvæmt útskrift frá Ríkisskattstjóra var X með alls kr. 957.715 í tekjur fyrir utan atvinnuleysisbætur á árinu 2005 og kr. 501.524 á árinu 2004.  Samkvæmt greiðslusögu kemur X til skráningar hjá Vinnumiðlun þann 30. október 2003

                       

 

           

Niður­staða

 

1.

            Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 12/1997 segir eftirfarandi:

            Nú fær hinn atvinnulausi tilfallandi vinnu dag og dag og skulu atvinnuleysisbætur hans þá skerðast vegna þessarar vinnu til samræmis við unninn stundafjölda og hlutfall bótaréttar hans þannig að samtals átta stunda vinna valdi skerðingu hámarksbóta í einn dag.  Slík tilfallandi vinna skal ekki hafa áhrif á áunninn rétt til atvinnuleysisbóta fyrr en hún nemur samtals 173 vinnustundum á hverju tólf mánaða eða styttra tímabili.

 

Í 15. gr. laga nr. 12/1997 segir eftirfarandi:

Sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta.

Fyrsta brot varðar missi bóta í 2-6 mánuði en ítrekað brot í 12 mánuði.

 

27. gr. laganna hljóðar svo:

Það varðar sektum að gefa rangar upplýsingar eða leyna upplýsingum í því skyni að fá bætur greiddar eða aðstoða við slíkt athæfi.  Um meðferð slíkra mála fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

Nú hefur maður aflað sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 15. gr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.

 

 

2.

 

            Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum gaf kærandi ávallt upp vinnutíma sína hjá Vinnumiðlun þann tíma sem hún þáði atvinnuleysisbætur.  Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumiðlun eiga þeir aðilar sem stunda óreglulega vinnu samhliða atvinnuleysisbótum einungis að gefa upp fjölda vinnustunda, ekki er farið fram á upplýsingar um fjárhæð launa.  Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi hvorki gefið rangar né villandi upplýsingar eða leynt upplýsingum hjá vinnumiðlun í því skyni að afla sér bóta, því eigi 1. mgr. og 2. mgr. 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ekki við í umræddu tilviki.    Samkvæmt ólögfestum reglum eru strangari skilyrði um endurkröfur ef bótaþegi hefur þegið greiðslur í góðri trú og bæturnar eru ætlaðar til framfærslu.  Í 2. mgr. 28. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er enda einungis minnst á endurkröfu ef bótaþegi hefur aflað sér bóta með því að leyna upplýsingum eða gefa rangar upplýsingar í þeim tilgangi að afla sér ranglega bóta.  Þetta átti ekki við um kæranda. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta eru því ekki lagaskilyrði til að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur.

 

 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Felld er úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta frá 19. júlí 2005 um að X beri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði tvöfaldar ofgreiddar atvinnuleysisbætur, alls að fjárhæð kr. 3.268.606, auk niðurfellingar bótaréttar í tvo mánuði.

 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Bentsdóttir

for­maður

 

 

Elín Blöndal                               Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni