Ótímabundinni niðurfellingu bótaréttar breytt í niðurfellingu í 40 bótadaga. Hefur ekki barnagæslu.
Nr. 8 - 2007

 

Úrskurður

 

Hinn 4. apríl 2007 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 8/2007.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Úthlutunarnefnd atvinnuleysistrygginga ákvað að fella niður atvinnuleysisbætur X á grundvelli 1. mgr. 13. gr. og c-lið 14 gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að X væri ekki í virkri atvinnuleit þar sem hún hefði ekki gæslu fyrir barn sitt á dagvinnutíma.

 

2.

 

X kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar með bréfi dags. 26. febrúar 2007.  Í bréfi sínu segir hún að þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur í upphafi hafi hún tekið fram að hún hefði ekki fasta pössun fyrir barn sitt á daginn.  Það hafi ekki verið gerðar neinar athugasemdir við það.  Hún hafi kynnt sér reglurnar og hvergi hafi komið fram að foreldrar yrðu að hafa pössun á daginn til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum.  Hún sé núna tímabundið ekki með pössun milli kl. 8 og 16.   Hún hafi reynt allt til að fá dagvistun fyrir barnið og hún ætti í síðasta lagi að vera búin að fá hana í maí.  Hún geti hins vegar unnið öll kvöld og um helgar.  Hún hafi ekki verið boðuð í neitt atvinnuviðtal.  Hún hafi einungis fyllt úr umsókn um atvinnu hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar. 

Í gögnum málsins liggur fyrir boðun kæranda í starfsviðtal í L. Um var að ræða starf skólaliða.  Fram kemur að kærandi ritaði undir boðunina og samþykkti þannig að fara í atvinnuviðtalið.  Samkvæmt tölvupósti frá L fór kærandi í atvinnuviðtalið en þáði ekki starfið þar sem henni fannst það of erfitt fyrir sig.  Hún réði illa við þunga hluti eða að skúra.  Samkvæmt umsókn X um atvinnu og atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun kveðst hún vera vinnufær til allra almennra starfa.

 

Niður­staða

 

1.

 

Í 57. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, er kveðið á um viðurlög við því að hafna starfi eða atvinnuviðtali og segir þar eftirfarandi í 1. 3. mgr.:

Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.  Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.

Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á viðurlagatímanum skv. 1. mgr.  Hafni hann starfi eða hafni því að fara í atvinnuviðtal á þeim tíma getur komið til ítrekunaráhrifa skv. 61. gr.

Taki hinn tryggði starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á viðurlagatíma skv. 1. mgr. stendur falla viðurlögin niður eftir að hinn tryggði hefur starfað í a.m.k. tíu virka daga áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur, enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum.  Vari starfið í skemmri tíma, hann hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á heldur viðurlagatíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 61. gr.

 

2.

Kærandi segist tímabundið ekki hafa gæslu fyrir barn sitt á tímanum 8 til 16, en hún muni í síðasta lagi fá dagvistun fyrir barnið í maí.  Hún hafi hins vegar gæslu fyrir barnið öll kvöld og helgar.

Kærandi fékk tilboð um starf skólaliða í L. Kærandi skrifaði undir umsókn um starfið og fór í atvinnuviðtal vegna þess.  Að sögn atvinnurekanda hafnaði kærandi starfinu þar sem henni þótti það of erfitt og sagðist eiga erfitt  með að lyfta þungum hlutum og skúra.

Í umsókn um atvinnuleysisbætur felst yfirlýsing um að umsækjandi óski eftir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan á atvinnuleit stendur.  Sú atvinnuleit má almennt ekki vera háð þeim fyrirvara að aðeins ákveðnar tegundir starfa eða ákveðinn vinnutími komi til greina þannig að önnur störf séu útilokuð, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006 þar sem segir að þeir sem eiga rétt til bóta samkvæmt lögunum skuli vera reiðubúnir til að ráða sig til allra almennra starfa. 

Ekki verður talið að skortur á dagheimilisplássi sé gild ástæða fyrir starfslokum eða höfnun á vinnu ef um er að ræða vinnu á venjulegum dagvinnutíma.  Venjulegur dagvinnutími telst vera á tímabilinu frá kl. 08:00 til 18:00, og verða bótaþegar að vera reiðubúnir að taka vinnu sem fellur innan þessara tímamarka. 

  Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta eru ástæður þær sem kærandi gefur fyrir höfnun sinni ekki gildar og bar kæranda að þiggja framkomið atvinnutilboð að viðlögðum bótamissi.

Það er niðurstaða úrskurðarnefndar að fella beri úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga um ótímabundna niðurfellingu bótaréttar.  Kærandi skal þess í stað sæta niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006.

 

Úr­skurðar­orð

 

Felld er úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga frá 7. mars 2007 um ótímabundna niðurfellingu bótaréttar X.  X skal þess í stað sæta niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga. 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysistrygginga of vinnumarkaðsaðgerða

 

Linda Bentsdóttir

for­maður

 

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni