Sjálfseflingarnámskeið
HAM - Hugræn atferlismeðferð og núvitund (FJARNÁMSKEIÐ)
Hópráðgjöf/fræðsla til að takast á við almenna líðan. Þátttakendur fá fræðslu um hugræna atferlismeðferð (HAM) sem gengur út á að læra að þekkja tengsl hugsana, tilfinninga og hegðunar. Farið verður í undirstöðuatriði núvitundar sem leið til að takast á við tilfinningar og streitu. Markmiðið er að þátttakendur öðlist grunnfærni í að beita þeim aðferðum sem kenndar verða til að hafa áhrif á eigin líðan.
Leiðbeinandi: Karen Guðmundsdóttir, sálfræðingur
Tími: 18. október - 15. nóvember, miðvikudagar kl. 10:00-12:00
Meiri þekking, minni streita
Á námskeiðinu er farið yfir áhrif streitu á andlega og líkamlega líðan. Farið verður yfir ýmis verkfæri til að ná betri stjórn á neikvæðum áreitum í lífinu. Farið verður sérstaklega yfir samskipti og hvernig setja eigi mörk í samskiptum og leysa ágreining.
Markmiðið með námskeiðinu er að auka skilning á neikvæðum áhrifum streitu og bæta við þekkingu þátttakenda um hvernig hægt er að stjórna streitunni með heilsusamlegum venjum og bættum lífstíl. Lögð er áhersla á markmiðssetningu, bætt samskipti, hvernig setja eigi mörk og þannig minnka streitu og ná meiri stjórn á aðstæðum í lífi sínu. Námskeiðið skiptist í fræðslu, umræður og verkefnavinnu.
Leiðbeinandi: Íris Böðvarsdóttir, sálfræðingur
Tími: 26. sept.- 24. okt. þriðjudaga kl. 13-15.
Jákvæð sálfræði
Markmið námskeiðsins er að efla vellíðan og að þátttakendur fái vind í seglin. Athyglinni er beint að því sem er í lagi, staldrað við, tekið eftir því sem gleður eða skiptir máli. Notaðar eru áhrifaríkar æfingar úr smiðju jákvæðrar sálfræði og vinnusálfræði sem efla vellíðan, dug og þor. Unnið er með hugarfar, viðhorf og praktísk atriði í atvinnuleit. Hver þátttakandi tekur seiglu-, hamingju- og styrkleikapróf. Mikið lagt upp úr virkni þátttakenda og hver og einn heldur dagbók, tekur þátt í umræðum og leysir verkefni á milli tíma.
Leiðbeinandi: Hrefna Guðmundsdóttir, MA Vinnu- og félagssálfræði, sérfræðingur í jákvæðri sálfræði
Tími: Hefst 4.október
Atvinnuleit með sögu um brostið heilsufar (FJARNÁMSKEIÐ)
Námskeiðið er unnið út frá grunni hugmyndafræði náms- og starfsráðgjafar í atvinnuleit. Einnig er unnið með þætti hugrænni atferlismeðferð ásamt því að fara í sjálfsskoðun. Farið verður í undirbúning atvinnuleitar, ferilskrárgerð og hvernig útbúa á kynningarbréf. Hvenær og/eða hvort að maður þurfi eða ætti að gera grein fyrir heilsufarssögu sinni og þá hvernig væri skynsamlegast og heiðarlegt að fara með það.
Leiðbeinandi: Fríða Hrönn Halldórsdóttir, náms- starfsráðgjafi með 30 einingar í eins árs námi í Hugrænni atferlismeðferð og kennari.
Tími: 9. - 17. nóvember, kennt fimmtudaga og föstudaga kl.13:15-14:45.