Greiðslur í sóttkví

Frumvarp félags- og barnamálaráðherra til laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví án þess að sýna merki þess að vera sýktir samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda  hefur verið samþykkt á Alþingi. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist framkvæmd laganna.

Markmið laganna er að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, s.s. veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við. Með þessu móti er stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Lögin taka til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til 30. apríl 2020. Lögunum er einnig ætlað að gilda um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda sínum. Auk þess að þeim er ætlað að gilda um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili. Umsóknir um greiðslur skulu berast Vinnumálastofnun fyrir 1. júlí 2020.

Skilyrði fyrir greiðslum

Skilyrði fyrir greiðslum skv. lögunum eru m.a. að launamaður hafi sannanlega verið í sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og hafi ekki getað sinnt vinnu að hluta eða öllu leyti þaðan sem hann sætti sóttkví. Gilda sambærileg skilyrði fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Í lögunum er gert ráð fyrir að greidd verði tiltekin hámarksfjárhæð fyrir hvern dag sem einstaklingur sætir sóttkví og almennt gert ráð fyrir að sóttkví vari í 14 daga. Hámarksfjárhæðir laganna taka mið af hámarksgreiðslum til launamanna úr Ábyrgðasjóði launa miðað við heilan almanaksmánuð.

Vinnumálastofnunvinnur nú að útfærslu við þær stafrænu lausnir sem þarf til að annast framkvæmd laganna.

Rafræn skilríki og Íslykill

Í millitíðinni hvetur Vinnumálastofnun atvinnurekendur til að verða sér úti um Íslykil eða rafræn skilríki fyrir atvinnurekstur sinn. Það mun auðvelda og tryggja öryggi við skil á upplýsingum sem atvinnurekendur munu þurfa að senda Vinnumálastofnun. Nálgast má upplýsingar um hvernig nálgast skal Íslykil, sjá https://vefur.island.is/islykill/, eða rafræn skilríki, sjá https://www.skilriki.is/.

Vinnumálastofnun þakkar biðlund notenda þar til endanleg útfærsla liggur fyrir og hvetur almenning til að fylgjast vel með tilkynningum á vef stofnunarinnar.

 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.